Þrjár áhrifaríkar götulífsmyndir

Ljósmyndir segja alltaf sannleikann. Stundum á mjög eftirminnilegan hátt og geta þannig ef vel tekst til, breitt viðhorfum okkar til atburða sem eiga sér stað í þægilegri fjarlægð frá okkur. Allur gangur er þó á því hvort sannleikurinn sem þær birta endurspegla allan sannleikann eða bara hluta hans. Ljósmyndir geta þannig jafnvel valdið ýmsum misskilningi, hvort sem það er ætlun ljósmyndarans eða ekki. Að þessari almennu speki lokinni er best að koma sér að efninu sem er í formi þriggja mis vel þekktra ljósmynda sem segja þrjár ólíkar mannlífssögur og eru eftirminnilegar hver á sinn hátt.

Nýársnótt í Manchester
Fyrst er það þessi ljósmynd sem tekin var á Nýársnótt í Manchester og sló eftirminnilega í gegn í öllum miðlum nú í upphafi árs. Það var lausamennskuljósmyndarinn Jole Goodman sem á heiðurinn að myndinni sem er ein fjölda mynda sem hann tók þessa nótt og birti í myndagalleríi á vefsíðu Manchester Evening News. Sennilega hefði myndin ekki farið mikið víðar ef blaðamaður nokkur hjá BBC News hefði ekki "Tvítað" henni áfram með þeim orðum að ljósmyndin væri á við fallegt málverk. Sem hún vissulega er enda hafa menn dásamað litasamsetninguna og ekki síður myndbygginguna sem virðist þaulhugsuð samkvæmt ströngustu reglum gullinsniðs. Þarna er líka allt að gerast. Næturgleðin hefur eitthvað farið úr böndunum á þessu götuhorni og ekki allir á eitt sáttir við afskipti lögreglu. Væntanlega hefur aumingjans maðurinn á götunni þó náð að bjarga bjórnum sínum þótt hann sjálfur hafi oltið um koll. Annars er þetta bara svona hversdagsleg mynd frá Bretlandi eða hversnæturmynd, þótt vissulega sé þetta ekki hvaða nótt sem er. Þetta er nefnilega nóttin sem fólk á að skemmta sér og það helst með tilþrifum. Það getur svo sem tekist misjafnlega eins og ljósmyndarinn hefur náð að fanga - með miklum tilþrifum. (Nánar hér)

Flóttafólk í Damaskus
Hér kemur mögnuð ljósmynd sem tekin er í Yarmuk flóttamannabúðunum í Damaskus, höfuðborgar hins stríðshrjáða Sýrlands. Fólkið sem fyllir sundursprengt borgarstræti svo langt sem séð verður er þarna í örvæntingu sinni að sækjast eftir matargjöfum sem verið er að úthluta af Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínumenn (UNRWA), í janúarlok 2014. Það er því smá von í miðjum harmleiknum. Ljósmyndin er á vegum samtakanna og birtist víða í fréttamiðlum á sínum tíma. Hún er næstum því Biblíuleg í mikilfengleika sínum og minnir á það þegar Rauðahafið galopnaðist fyrir Ísraelsþjóðinni á flóttanum frá Egyptalandi forðum daga. Það er þó allt annað á ferðinni að þessu sinni. Það sem hjálpar til við áhrifamátt myndarinnar er dýptin, allt frá fólkinu fremst og aftur til mannfjöldans lengst að baki sem hverfur í grámóðu fjarskans samkvæmt fjarvíddaráhrifum andrúmloftsins, eða svokölluðu "atmosphere perspective" upp á ensku. (Nánar hér)

New York 11. september
Svo er það þriðja og síðasta myndin og hún er sérstök. Ungt fólk slakar á og nýtur lífsins í veðurblíðu í Brooklyn og ekkert athugavert við það nema hvað, eins og sjá má, þá er myndin tekin daginn örlagaríka þann 11. september 2001. Ljósmyndarinn Thomas Hoepker sem fangaði þetta augnablik gerði sér grein fyrir því að myndin væri ekki alveg í réttum anda miðað við alvarleika atburðanna og því birtist myndin ekki fyrr en að hún kom út í ljósmyndabók tengdum 11. september, að 5 árum liðnum. Hún olli þá strax umræðum og deilum enda talin vera birtingarmynd hins sjálfhverfa borgara sem lætur sér fátt um finnast þótt ýmislegt bjáti á annars staðar. Fólkinu á myndinni var skiljanlega ekki skemmt þegar myndin var gerð opinber því auðvitað voru þau þarna komin til að fylgjast með og voru jafn sjokkeruð yfir atburðunum og aðrir. Þegar þarna var komið við sögu var nokkuð liðið á þennan örlagadag, báðir turnarnir hrundir og ekkert við því að gera. Saklaus stundarglettni eftir allt sem á undan var gengið skaðaði engan, nema hvað, þegar glettnin birtist á ljósmynd með þessum hætti verður hún ankanaleg og úr samhengi. En hvað sem því líður sanngirni gagnvart fólkinu þá er þetta frábær ljósmynd sem segir allt öðruvísi sögu en þær dramatísku hamfaramyndir sem venjulega birtast frá þessum degi í New York sem kenndur er við 11. september. (Nánar hér)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband