Punkturinn yfir Hafnartorgi

Já það fór um marga þegar kynnt voru þau stórfelldu byggingaráform sem fyrirhuguð eru á reitnum milli Geirsgötu og Tryggvagötu. Það var svo sem vitað að það ætti að byggja eitthvað þarna enda búið að grafa upp "fornan" hafnargarð á svæðinu. Fólk hafði hinsvegar ekki gert sér grein fyrir því að þarna ætti að stafla upp gler- og kubbahýsum af áður óþekktum þéttleika hér á landi.

Auðvitað voru borgaryfirvöld ekkert of mikið að flagga þessum byggingaráformum fyrirfram eða bera þau á torg, hvað þá undir almenning. Best var auðvitað að sýna þetta þegar allt væri klappað og klárt. Sigmundur og Andri Snær verða þá bara sætta sig við að þarna rísa engin hátimbruð skrauthýsi eða rómantísk hafnarstemming með seglskútum og mávagargi, því allt slíkt kallar á himinháar skaðabætur til byggingaraðila. Hafnart_RvikHvað sjálfan mig varðar þá finnst mér þessi byggingaráform svo sem ekki endilega alslæm. Það er full þörf á að byggja á reitnum til að fá tengingu við Hörpusvæðið auk þess sem þetta stækkar miðbæinn. Þetta er autt svæði sem má alveg byggjast upp í anda nútímans. En samt þarf að fara varlega enda má öllu ofgera. Á innfelldu myndinni sést hvernig nýja byggðin blasir við ofan af Arnahóli og sést þá hvernig stórt sex hæða glerhýsi rís upp í öllu sínu veldi en þetta er það sem sjálfur Ingólfur Arnarson mun hafa fyrir augunum framvegis. Þarf þetta að vera svona hátt og svona mikið? Vantar ekki eitthvað til að lífga upp á þessa glerhöll? Punktinn yfir i-ið?

Í framhaldi af fyrrnefndum pælingum tók ég smá sjónlistaræfingu og prófaði að lækka húsið um tvær hæðir og setti punkt yfir i-ið og er útkoman sú sem sjá má hér að neðan.

Hafnartorg_EHV

Með þessari lækkun á húsinu verður það mun manneskjulegra á að líta og engan veginn jafn yfirgnæfandi á þessum stað. Þetta er heldur ekki hvaða staður sem er. Hús sem blasir svona við af Arnahóli þarf að hafa einhvern vegsauka til að státa sig af og því hef ég sett dálítinn turn og kúlu á toppinn sem kallast á við aðra smáturna í miðbænum. Það má kalla þetta montprik eða montkúlu en staðsetningin væri auðvitað í beinu framhaldi af göngustígnum sem liggur niður af Arnahól. Slíkt væri meira að segja í anda Guðjóns Samúelsson sem skildi það að turnar og stoltar byggingar ættu að upphefjast við endann á strætum eða göngustígum. Þarna hefur Ingólfur Arnarson líka eitthvað að horfa á og miða sig við og hver veit nema akkúrat þarna hafi öndvegissúlur hans einmitt rekið á land. Þessi kúla gæti reyndar staðið fyrir sólina - hina norrænu sól sem sest þarna á vorin, jafnvel akkúrat bakvið kúluna vissa daga að vori og hausti.

En hvað sem verður, þá er auðvelt að fabúlera á meðan ekki er byrjað að byggja. Raunveruleikinn er þó væntanlega sá að engu skal breytt frá því sem ákveðið hefur verið. Það er að segja það sem borgaryfirvöld og byggingaraðilar hafa þegar ákveðið í sameiningu. Eða var það kannski ekki svoleiðis?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Flott hugmynd.

Annars finnst mér kassarnir norður af Eimskipafélagshúsinu verstir, en ekki þessi glerhöll. Er samt ekki frá því að þessi lækkun sem þú ert með, sé til bóta.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.1.2016 kl. 07:45

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég tók þetta hús fyrir af því að það er einna mest áberandi og eiginlegur útvörður byggingareitsins. Þegar inn í hverfið er komið skipta sennilega götuhæðirnar mestu máli, eða það sem blasir við í verslunargluggum, samanber það sem gerist á Laugaveginum. 

Annars er það fúnkístíllinn sem er allsráðandi á Hafnartorginu svokallaða. Þessi viðbót mín með turninn fellur reyndar ekki alveg að þeirri hugmyndafræði því fúnkístíllinn byggist á hagkvæmni og vill ekki neitt óþarfa prjál og punt. Hinsvegar gæti þetta fallist undir póstmódernisma sem einmitt leyfir allskonar óvænt stílbrögð og uppákomur.

En talandi um gamla Eimskipafélagshúsið þá verður sjónarsviptir að því að sjá ekki þá byggingu frá Arnarhóli, en á myndinni rétt glittir í þakið hægra megin við Landakotsspítala.

Emil Hannes Valgeirsson, 17.1.2016 kl. 14:07

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Emil, nýbyggingin lítur mun betur út samkvæmt þinni hugmynd; lækkuð um tvær hæðir.  Ég held að einhverjir hljóti að hafa gleymt hvar Reykjavík er staðsett á hnettinum samanborið við suðlægri breiddargráður og heimsborgir þar.  Hér skín sólin í besta falli skáhallt og ef menn vilja mannvænt og vinsælt umhverfi þarf að hanna húsin samkvæmt því.
Enda dæmigert að sýna auglýsingamynd af fáklæddu fólki á Arnarhólnum þar sem sólar nýtur betur en í fyrirhuguðum skuggasundum.

Kolbrún Hilmars, 17.1.2016 kl. 16:45

4 Smámynd: Már Elíson

Það sem stingur líka í stúf að mínu mati, er hvernig þetta er framsett, rómantískur blær, léttklætt fólk, sem minnir á eitthvað allt annað land, og svo sólin / skuggarnir úr vestri (eða NV ?) - Þetta er eitthvað sem tekur alvöruna líka úr þessi hringavitlausu hugmynd. - Mér finnst strax bragabót og einhver reisn yfir þessari einföldu breytingu hjá Emil, þó að "kúlan" sé svolítið austræn (múslimsk).

Már Elíson, 17.1.2016 kl. 16:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband