13.2.2016 | 00:45
Heimsins hæstu byggingar
Á bloggsíðu þessari er aðallega fjallað um himinn jörð og stundum sitthvað þar á milli. Hvað sem það annars þýðir þá er alveg við hæfi að taka fyrir það sem nær frá jörðu til himins eins og tilfellið er með hæstu og glæsilegustu húsin hér á jörðu. Á þessari öld hafa margir himinháir skýjakljúfar risið í Asíu og ekkert lát á því. Það er því liðin tíð að allra hæstu byggingar heims sé að finna í Bandaríkjunum, þótt þeir þarna fyrir vestan komist vissulega enn á blað. Á meðfylgjandi samanburðarmynd, sem ég hef útbúið, má sjá nokkra af mestu skýjakljúfum heims um þessar mundir og auðvitað fær Kópavogur að fylgja með. Aðeins er tekið mið af þeim byggingum sem eru fullkláraðar þegar er skrifað.
Svo við byrjum á því allra hæsta þá ber Burj Khalifa-turnin í Dubai enn höfuð og herðar yfir aðrar byggingar hér á jörðu. Byggingin var vígð í byrjun árs 2010 og var þá 300 metrum hærri en sú sem næst henni kom. Heildarhæð Burj Khalifa er 830 metrar en til viðmiðunar þá er Kerhólakambur Esjunnar litlu hærri, eða um 850 metrar og ber einmitt hæst á toppmynd bloggsíðunnar.
Næst hæsta hús heimsins í dag er að finna í Shanghai í Kína og er hann hæstur þriggja risahúsa sem standa þar saman í einskonar grúppu. Þessi spírallaga turn kallast upp á ensku Shanghai Tower og er eiginlega splunkunýr, vígður í nóvember 2015. Hæðin er 632 metrar sem næði þá svona upp undir klettabeltið á Þverfellshorni Esjunnar.
Í þriðja sæti er mikil risabygging í Mekka í Saudi-Arabíu sem kallast Abraj Al-Bait Towers og stendur rétt við heilögu moskuna sem allir pílagrímar múslimaheimsins heimsækja. Þetta er í raun húsaþyrping sambyggðra bygginga sem saman mynda stærsta hús í heimi. Hæsti hlutinn er klukkuturnin mikli, eða hótelturninn: Makkah Royal Clock Tower Hotel, 601 metri á hæð. Þetta er um margt sérstök bygging. Stíllinn er nýklassískur eins og tíðkaðist á Manhattan framan af síðustu öld og klukkan í turninun er sú stærsta í heimi. Reyndar á ég sérstaka bloggfærslu um þetta hús, sjá Risabyggingin í Mekka.
Hæsta hús í Vesturheimi er One World Trade Center (One WTC) eða Freedom Tower eins og hann var kallaður framan af. Þetta er hæsti turninn af þeim sem hafa verið að rísa á svæðinu sem tvíburaturnarnir stóðu áður. Heildarhæð með spíru er 541 metri, eða 1776 fet sem kallast einmitt á við árið sem sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna var undirrituð. Þakhæð byggingarinnar er lítið eitt hærri en þakhæð tvíburaturnanna en þó lægri en á Willis-turninum í Chicago sem áður var hæsta byggingin í Ameríku. One WTC byggingin nýja nýtur þó þess að spíran er talin hluti af arkitektúrnum og því miðast hæð byggingarinnar við spíruna. Af fullkláruðum byggingum er One WTC sú fjórða hæsta í heiminum í dag.
Í fimmta sæti er Taipei 101 sem er 101 hæða skýjaklúfur í Taíwan. Þegar hann var fullkláraður árið 2004 tók hann við af Petronas tvíburaturnunum í Kulala Lumbur sem hæsta bygging heims og hélt þeim titli þar til Burj Khalifa turninn reis í Dubai. Væntanlega hafa Kínverjar tvíeflst í sinni turnasmíð með tilkomu Tabei skýjaklúfsins í Taíwan sem var sá fyrsti í heiminum sem rauf 500 metra hæðarmúrinn.
Hin sögufræga Empire State byggingin í New York verður að fá að vera með enda var þetta hæsti skýjakljúfur heims frá árinu 1931 og allt þar til World Trade Center turnarnir risu árið 1972. Viðurkennd hæð er 381 metri sem í dag dugar aðeins í 24. sæti í dag. Heildarhæð með loftnetum og öllu er hinsvegar 443 metrar sem bætir stöðuna á heimslistanum nokkuð.
Framkvæmdagleði okkar Íslendinga á síðustu góðæristímum skilaði af sér allnokkrum háhýsum á okkar mælikvarða. Af þeim er 20 hæða háhýsið við Smáratorg hæst eða 78 metrar sem er um tveimur metrum hærra en Hallgrímskirkjuturn. Á myndinni má sjá hvernig turninn við Smáratorg kemur út í samanburðinum. Þótt hann blasi víða við í Kópavoginum er óvíst að auðvelt væri að finna hann í lóðréttustu borgum heims.
Sambærilegt stórhýsayfirlit birti ég fyrir 6 árum en síðan þá hefur ýmislegt bæst við og mun gera áfram enda hefur enginn skortur verið á stórhug í ríkjum eins og Kína og í arabísku olíuríkidæmunum á Arabíuskaga. Ég nefndi það þá að stærstu skýjakljúfarnir hafa gjarnan komist í gagnið um það leyti sem fjármálakreppur skella á, sem á vissulega við í ýmsum tilfellum hér heima og erlendis. Í Kína eru nokkrir skýjakljúfar í byggingu sem eru í kringum 600 metrana en þeir virðast eitthvað vera farnir að guggna á þeim allra hæstu. Saudi-Arabar eru hins vegar byrjaðir á 1000 metra háum turni sem þeir áætla að klára um 2020. Hver veit nema að næsta háhýsayfirlit birtist einmitt hér á síðunni að þeim tíma liðnum.
- - -
Meðal heimilda er vefsíðan www.skyscraperpage.com sem óhætt er að mæla með.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.