Risabyggingin í Mekka

Það er ekkert lát á stórhuga byggingarframkvæmdum í Asíu. Í hinni heilögu borg múslima, Mekka eru framkvæmdir langt komnar við eitt mikilfenglegasta stórhýsi sem nokkru sinni hefur risið. Staðsetningin er líka sérstök því húsið rís alveg við hliðina á sjálfri Stóru moskunni þangað sem múslímar fara í sínar pílagrímsferðir og ganga sjö hringi umhverfis Kaba hofið, eða hvað sem má kalla þessa litlu kassalaga svörtu byggingu sem mannfjöldinn gengur í kring um en þar á sjálfur Abraham að hafa reist byggingu utan um svarta steininn svokallaða og akkúrat á þeim stað trúa múslímar jafnvel að sjálfur Adam hafi upphaflega reist fyrstu byggingu veraldar.

Mekkaturn
Stórhýsið sem þarna rís núna samanstendur í raun af sjö turnum sem saman mynda eina heild og nefnist Abraj Al-Bait. Byggingin á að hýsa hótel af bestu sort auk íbúða og verslunarmiðstöðvar ásamt ýmsu fleiru fíneríi. Turnarnir eru misháir, sex þeirra eru uppá 42 til 48 hæðir en meginturninn, klukkuturninn, er 95 hæðir og minnir um margt á risavaxinn Big Ben. Á hverri hlið turnsins eru dýrindis klukkuskífur sem munu verða þær langstærstu í heimi en þar á ofan kemur 70 metra há turnspíra með gylltum hálfmána á toppnum. Heildarhæð þessa mannvirkis mun líklega enda í 601 metra sem gerir þetta mjög örugglega að næst hæsta húsi í heimi því þau háhýsi sem á eftir koma eru um 100 metrum lægri. Hæsta hús í heimi er eftir sem áður hinn 828 metra hái Burj Kalifa turn í Dúbæ. En þótt Abraj Al-Bait byggingin sé ekki hæst í heimi er hún samt talin sú stærsta sé tekið tillit til gólfflatar sem mun verða 1,5 milljón fermetrar enda getur þar farið ágætlega um 100 þúsund manns í einu.
Áætlað er húsið verði tilbúið á næsta ári og framkvæmdir eru langt komnar. Fimm hinna lægri turna eru fullkláraðir en á aðalturninn vantar bara spírurnar ofan á klukkuturninn.

Um smekklegheit þessara byggingar er ekki mikið hægt að segja nema að þetta mun seint verða tekið sem dæmi um fágaðan og látlausan nútímaarkitektúr. Byggingin minnir helst á fyrstu háhýsin sem risu nálægt Wall Street samankomin í einn hnapp en þess má geta að byggingaraðilinn er hið virta byggingarfyrirtæki BinLadin Group sem stofnað var árið 1931 af Sjeik Mohammed bin Laden.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Trúaðir smíða svona dildóa til að viðhalda tálsýninni um hann Gudda...

doctore (IP-tala skráð) 15.9.2010 kl. 12:38

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Mammon mættur í miðja Mekku og hann byggir Babel turn hina síðari tíma. Afkomendur Ismaels sem Abraham ætlaði að fórna þarna rétt hjá fyrir margt löngu, eru allir ölvaðir af svartagulli.

Svanur Gísli Þorkelsson, 16.9.2010 kl. 04:40

3 identicon

Sádi Arabar eru skrýtnir. Alveg ótrúlega smekklaust hjá þeim að planta þessum óskapnað á þessum stað. Eins og sjá má á myndinni er löngu búið að byggja einskonar leikvang kringum Kaaba-hofið og steypa allt í hólf & gólf, en það hefur sjálsagt verið gert af illri nauðsyn, útaf þeim milljónum pílagríma sem koma þarna árlega.

En svo hefur einhver snillingurinn fengið hugmynd: "Hey strákar, fyrst þetta er helgasti staður næst-fjölmennustu trúarbragða heims, og dregur að sér skrilljón ferðamenn á hverju ári;  Væri þá ekki sniðugt að byggja eitthvað "fökkin huge" þarna rétt við hliðina? Var helst að spá í einhverri blöndu af Sovíethöllinni og Las Vegas"  Það hefur verið samþykkt, af sömu mönnum og kvarta síðan manna hæst yfir "óvirðingu við Islam".

 PS: Ef menn kannast ekki við Sovíethöllina: http://en.wikipedia.org/wiki/Palace_of_the_Soviets

Eysteinn Kristjánsson (IP-tala skráð) 16.9.2010 kl. 20:51

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég sá það einhverstaðar að þessi nýja bygging sé í raun bara byrjunin á mikilli uppbyggingu á svæðinu í kringum heilögu moskuna. Þar sem háhýsið rís stóð áður heilmikið virki Ajyad Fortress frá Ottóman tímanum sem auðvitað þurfti að rífa.

Emil Hannes Valgeirsson, 17.9.2010 kl. 10:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband