9.4.2016 | 23:35
Hvernig kemur Esjan undan vetri? Myndasyrpa
Esjan kemur misjafnlega undan vetri milli ára rétt eins og stjórnmálamenn. Mánudaginn 4. apríl skartaði fjallið sínu fegursta og sólargeislarnir gerðu sitt til að vinna á snjósköflum liðins vetrar. Þetta var líka kjörinn dagur til að taka hina árlegu samanburðarmynd af Esjunni fyrstu vikuna í apríl. Fyrsta myndin var tekin í aprílbyrjun 2006 og eru myndirnar því orðnar 11 talsins og koma þær allar hér á eftir í öfugri tímaröð, ásamt upplýsingum hvort og þá hvenær allur snjór hefur horfið úr Esjuhlíðum. Það má sjá greinilegan mun á milli ára. Til dæmis var Esjan alhvít um þetta leyti í fyrra í kuldalegri tíð en öllu minni var snjórinn árið 2010 enda hvarf snjórinn óvenju snemma það sumar.
Undanfarin þrjú sumur hefur Esjan ekki náð að hreinsa af sér alla snjóskafla frá borginni séð og var reyndar nokkuð fjarri því í fyrra. Það út af fyrir sig minnkar líkurnar á að Esjan nái að verða alveg snjólaus í ár því undir snjóalögum þessa vetrar lúra enn skaflar sem sem urðu eftir síðasta sumar. Núverandi skaflar eru auk þess sæmilega massífir að sjá þannig að nú reynir á sumarið ef allur snjór á að hverfa fyrir næsta vetur. En þá eru það myndirnar.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Veður | Facebook
Athugasemdir
Góðan dag,
Þú átt væntanlega við fjallið Esju, því Esjan, með greini, er eitthvað allt annað fjall?
Nonni (IP-tala skráð) 10.4.2016 kl. 09:31
Nei, það er það sama fjallið. Esjan er eitt af fáum fjöllum sem má tala um með greini.
Emil Hannes Valgeirsson, 10.4.2016 kl. 10:14
Skemmtileg pæling og fróðlegt fyrir okkur. - Þetta er jú fjallið okkar og alltaf fylgist maður með "skaflinum" eina.
Már Elíson, 10.4.2016 kl. 15:47
Ýmsir fylgjast með "skaflinum" eina í Gunnlaugsskarði og öðrum sköflum í Esju(nni) svo sem þeim sem kenndur er við Kerhólakamb. Eftirfarandi upplýsingum hef ég safnað upp úr heimildum héðan og þaðan ásamt eigin athugunum í seinni tíð. Óvissan mun þó vera ríkjandi um sum árin:
1930: Ekki vitað til þess að snjór hafi horfið fyrir þann tíma
1932-1936: Lengsta snjólausa tímabilið á 20. öldinni.
1942-1958: Snjór hverfur ekki
1959-1961: Snjór hverfur
1966: Snjór hverfur
1969: Snjór hverfur (?)
1970-1997: Snjór hverfur ekki
1996: Minnsti snjór frá ‘69
1998: Snjór hverfur
1999-2000: Snjór hverfur ekki
2001-2010: Snjór hverfur
2011: Smáskafl lifir í Gunnlaugsskarði
2012: Snjór hverfur
2013: Nokkrir skaflar í Gunnlaugsskarði.
2014: Skafl lifir í Gunnlaugsskarði
2015: Talsverðir skaflar í Gunnlaugsskarði. Skafl við Kerhólakamb.
Emil Hannes Valgeirsson, 10.4.2016 kl. 18:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.