19.6.2016 | 13:05
Þá er það fótboltinn
Eitthvað verður maður að skrifa um fótboltann enda er hann mál málanna fyrir flestum öðrum en hörðustu antisportistum. Að vísu er forsetakosningar á dagskrá í þessum mánuði en spennan liggur ekki þar enda úrslitinn löngu ráðin, nema hvað svo virðist sem tvísýnt gæti verið um annað sætið þótt ekki sé keppt í því.
Í fótboltanum er málið það að Íslenska karlalandsliðið keppir nú í fyrsta skipti á stórmóti í knattspyrnu og merkilegheitin snúast ekki síst um að Ísland er fámennasta þjóðin sem keppt hefur á svona stóru móti. Eins og oft áður erum við litla þjóðin gagnvart hinum stóru og það eitt hefur vakið athygli erlendra á okkur. Þúsundaþjóðin á móti milljónaþjóðum. Fyrirfram ætti það því að vera hreint formsatriði að tapa öllum leikjunum af miklu öryggi. En það er ekki alveg þannig. Við eigum ágætis fótboltamenn sem spila með sæmilegum liðum í stóru löndunum og þegar á hólminn er komið kemur í ljós að við erum ekkert mikið lélegri í fótbolta en hinir. Bara svolítið lélegri. Reyndar er getumunurinn á milli flestra liðanna almennt ekki mjög mikill og því getur allt gerst í hverjum leik. Getumunur milli einstaka leikmanna er heldur ekki svo mikill. Ronaldó hinn víðfrægi er sennilega ekki nema um 10% betri í fótbolta en bestu leikmenn Íslands enda var hann ekkert að leika sér að íslensku varnarmönnunum, sólaði ekki fjóra í hverri sókn og komst varla í almennilegt skotfæri við markið. Portúgalska landsliðið er heldur ekkert ofurlið þótt þessi mikli markaskorari sé þar fremstur í flokki. Þeir voru samt talsvert betri en okkar lið í heildina og gátu alveg verið svektir með jafnteflið.
Þegar þetta er skrifað hefur Íslenska liðið leikið tvo leiki á Evrópumótinu. Liðið hefur skorað jafn mörg mörk og það hefur fengið á sig og báðir leikirnir endað með jafntefli. Möguleiki er enn til staðar að sigra riðilinn og einnig að lenda í neðsta sæti í riðlinum. Hvað varðar mínar væntingar til liðsins þá höfum við með þessum tveimur jafnteflum nú þegar átt ágætis mót. Jafntefli er svo miklu skárra heldur en tap svo ekki sé talað um stórtap með margra marka mun. Tvö lið milljónaþjóða hafa til þessa tapað sínum leikjum með þremur mörkum gegn engu þannig að við getum vel við unað. Þessum jafnteflum okkar hefur verið náð með góðum og skipulögðum varnarleik fyrst og fremst. Miðjuspilið hefur verið öllu lakara þar sem sendingar hafa verið tilviljanakenndar og ratað álíka oft til andstæðingsins og til samherja. Það hefur þó sýnt sig að við getum skorað mörk af öllu tagi enda eigum við gott úrval af skæðum sóknar- og skotmönnum.
Það er þó einn leikur eftir í riðlinum en það er leikurinn á móti Austurríki. Þar ræðst hvort við komumst áfram í í 16 liða úrslit sem væri frábær staða en mögulega þurfum við til þess ekki að gera meira en að knýja fram enn eitt jafnteflið. Þriðja sætið í okkar riðli gæti komið okkur áfram í 16-liða úrslit. Betra er þó að lenda ofar í riðlinum. Þriðjusætisliðin fjögur sem munu komst áfram munu keppa við sigurlið úr öðrum riðlum þannig að best er alltaf að vinna riðilinn til að fá léttari andstæðinga. Austurríkisleikurinn er sem sagt lykileikurinn úr því sem komið er. Fyrst og fremt vonar maður að hann tapist ekki með mjög mörgum mörkum. Vægt tap er miklu skárra og allt fyrir ofan það er miklu betra. Tala nú ekki um að komast áfram á einhvern hátt í 16 liða úrslitin. Þá værum við allavega ekki neðar en í 16 sæti á þessu móti sem hlýtur að vera göfugt markmið.
Athugasemdir
Vel skrifað.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.6.2016 kl. 21:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.