Áleiðis Til Heklu með Albert Engström sumarið 1911

Erlendir túristar eru ekkert nútímafyrirbæri hér á landi enda hefur Ísland löngum þótt vera dularfullt og spennandi land í augum þeirra útlendinga sem á annað borð hafa vitað að það sé til. Svíinn Albert Engström var einn hinna ævintýragjörnu Íslandsvina en sumarið 1911 heimsótti hann landið ásamt félaga sínum, Thorild Wulff, jurtafræðingi og landkönnuði og var lokatakmark ferðarinnar að ganga á sjálfa Heklu sem frá fornu fari var helst þekkt í augum útlendinga fyrir að vera inngangur að sjálfu helvíti. Albert Engström var frá Lönneberga í Smálöndum og hefur því verið sveitungi nafna míns, sem við höfum kennt við Kattholt. Engström var annars sæmilega þekktur í Svíþjóð sem útgefandi grínblaðs og var sjálfur hinn ágætasti skopmyndateiknari og gamansagnahöfundur.

Til HekluAð leiðangri loknum tók hann saman ferðasöguna frá Íslandi og gaf út í vinsælli bók í sínu heimalandi og kallaði ritið: Til Häclefjäll, en titillinn var í aðra röndina létt tilvísun í að fara til helvítis. Bókin átti eftir að móta sýn Svía á Íslandi lengi á eftir og þó frekar á jákvæðan hátt heldur en hitt enda var Engström yfirleitt dolfallin yfir fegurð hinnar hrjúfu og skrítnu náttúru landsins. Árið 1943 kom bókin út í Íslenskri þýðingu Ársæls Árnasonar og hét auðvitað bara TIL HEKLU og prýddi forsíðan teiknaðri sjálfsmynd höfundar. Sjálfsagt hefur bókin gert það ágætt hér eins og í Svíþjóð, þó ég viti það ekki með vissu. Hitt veit ég að eintak af bókinni hefur lengi verið til í fjölskyldu minni enda er það merkt Hannesi Guðlaugssyni, fósturafa föður míns. Sjálfur lét ég þó ekki verða að því að kynna mér innihald hennar fyrr en núna fyrir stuttu og óhætt að segja að það voru góð kynni. Að vísu er bókin farin að láta á sjá og hangir bókstaflega saman á einum bláþræði.

Af ferð þeirra Engström og Wulff er annars að segja að þeir lögðu frá landi í Svíþjóð með millilandaskipinu Emmy 16. júlí 1911. Komu þeir fyrst hér að landi á Siglufirði og upplifðu þar ekta síldarstemningu, eða öllu heldur síldaræði eins og það kom þeim fyrir sjónir. Þaðan var siglt inn Eyjafjörðinn og kusu félagarnir að hoppa frá borði við Hjalteyri og fara þaðan á hestbaki til Akureyrar. Ferðuðust þeir svo til Mývatns og könnuðu meðal annars hverasvæðin við Námaskarð. Áfram var siglt vestur fyrir land með viðkomu á Ísafirði og Stykkishólmi. Loks var stigið á land í Reykjavík og hafinn undirbúningur að leiðangrinum mikla austur um sveitir og að Heklu. Sænski konsúllin var þeim innan handar og sá þeim fyrir hestum og tveimur leiðsögumönnum sem áttu að fylgja þeim um þetta erfiða land. Það kom sér þó vel að talsverðar samgöngubætur höfðu átt sér stað vegna konungskomunnar fjórum árum fyrr og á Þingvöllum var hægt að fá hótelgistingu í sjálfri Valhöll. Helst voru það breskir ferðalangar af fínna taginu sem mest bar á. Frá Þingvöllum var haldið að Laugarvatni og með Konungsveginum áfram að Geysi þar sem heimafólk var þegar farið að hafa það gott út úr túristabransanum. Þeir Engström og Wulff voru við öllu búnir og höfðu tekið með sér 50 kíló af sápu til að framkalla gos og tókst það með ágætum með hjálp kunnugra.

Við Laugarvatn og Geysi kynntust þeir ensku ferðafólki af fínna taginu sem einmitt var að koma úr Heklureisu. Gangan á Heklu hjá þeim ensku hafði að vísu mistekist og ástæðan sögð sú að konurnar í hópnum hefðu guggnað í miðjum hlíðum eldfjallsins og hreinlega ekki nennt þessu príli þegar til kom, karlmönnunum í hópnum til lítillar ánægju. Ágætlega fór þó á með öllum þessum ferðalöngum við Geysi. Thorild Wulff var vel búinn ljósmynda- og kvikmyndatólum og kemur fram í bókinni að hann hafi þarna fyrstur manna kvikmyndað Geysisgos. Ýmislegt fleira skemmtilegt var kvikmyndað eins og lýst er bókinni:

„ … um sólseturbil tók Wulff kvikmynd af öllum hópnum, okkur og Englendingunum, þeysandi eftir reiðgötunum fyrir neðan hverina, ég í broddi fylkingar og kvenfólkið hið næsta mér – auðvitað mál – með blaktandi blæjur, örar og yndislegar, og veslings mennirnir í humátt á eftir, sem urðu að hætta við að ganga á Heklu vegna þess að þeir höfðu bundist svo brothættu glingri.“

Þetta innskot í textanum "– auðvitað mál –" er væntanlega skírskotun í kunnuglegt vandamál sem enn í dag plagar margan ferðalanginn á Íslandi, nefnilega takmörkuð eða léleg salernisaðstaða. Gefum bókarhöfundi aftur orðið:

"Ég vorkenni kvenfólkinu sem þarna er. Milli gistihússins og Geysis er lítið, en mjög mikilvægt skýli – hvers vegna einmitt þarna á alfaraleið? Hurð var þar engin og dyrnar snéru út að hverunum. Þetta er skýrt dæmi um tómlæti Íslendinga og framtaksleysi, slóðaskapinn gagnvart útlendingum, sem þeir vilja fúslega að heimsæki sig, þó að þeir kæri sig kollótta um öll þægindi handa þeim. Hugsið ykkur t.d. hvað Þjóðverjum yrði úr gistihúsinu því arna!"

Mr LawsonÁfram var haldið og stefnan tekin á Gullfoss og þaðan á Hekluslóðir. Einn Englendinganna, Mr. Lawson, ákvað að slást í för með Svíunum enda kvenmannslaus í þessari reisu og ætlaði ekki að láta draum sinn um að standa á Heklutindi fara forgörðum. Svíarnir tóku þessum nýja ferðafélaga reyndar ekki mjög fagnandi í fyrstu en hann átti þó eftir að skreyta ferðalagið með ýmsum dyntum sínum. Mr. Lawson var ákaflega enskur í öllum háttum og sérstakur í augum Svíanna (sérstaklega þó skopmyndateiknarans Alberts Engström) en stóð þó nær nútímanum að því leyti að hann var með spánýja, handhæga Kodak-myndavél og átti það til að smella af í gríð og erg án þess að kunna undirstöðuatriði ljósmyndunar svo sem að stilla ljósop og fókus.

Það var ekki beinlínis greið og auðveld leið sem beið félaganna áleiðis að Heklu þessa sumardaga árið 1911 þótt veðrið hafi leikið við þá. Um framhald ferðarinnar og glímuna við Heklu mun ég fjalla um í seinni hluta þessarar frásagnar sem ég stefni á að birta um næstu helgi – hafi heimurinn ekki farist í millitíðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Vonum að heimurinn sé hérna eftir viku. Skemmtileg frásögn. Ég á bókina en hef aldrei komið því í verk að lesa hana.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 22.1.2017 kl. 13:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband