28.1.2017 | 23:06
Gengið á Heklu með Albert Engström sumarið 1911
Þá er komið að seinni hluta frásagnarinnar um ferðalag hins sænska Albert Engström og félaga um Ísland en þessi skrif eru byggð á bók hans Til Heklu sem kom út í íslenskri þýðingu árið 1943, eins og getið var um í fyrri hlutanum sem ég birti fyrir viku. Ég skildi við þá síðast er þeir voru á leið að Gullfossi eftir dvöl að Geysi, þar áður á Þingvöllum og í Reykjavík. Sömu túristastaðir og í dag þótt hugtakið Gullni hringurinn hafi ekki verið fundið upp þá. Stefnan var tekin að Galtarlæk, þaðan sem þeir ætluðu að leggja á Heklutind. Þeir riðu fimm saman, Albert Engström, sænskur ferðafélagi hans Thorild Wulff, Englendingurinn Mr. Lawson sem hafði slegist í för með þeim og svo tveir íslenskir fylgdarmenn, útlendingunum til halds og trausts, þótt þeir væru ekkert sérlega heimavanir á þessum slóðum. Á þessum árum var hesturinn ennþá aðalsamgöngutækið og allar leiðir miðuðu við þann fararskjóta. Bitahagar komu í stað bensínsjoppa og farið var yfir óbrúuð fljót þar sem hestum var treyst til að vaða eða synda yfir. Sennilega hefur einn bíll verið til á öllu landinu árið 1911. Það var hinn svokallaði Grundarbíll, heilmikill þýskur trukkur sem fluttur var til landsins í einhveri bjartsýni, til flutninga norður í Eyjafjörð fjórum árum fyrr og var bíll númer tvö hér á landi, á eftir Thomsen bílnum. Þetta sumar gerði Grundarbíllin þó ekkert annað en að ryðga í túnfætinum við Grund í Eyjafirði. En það er útúrdúr.
Ferðin um sunnlenskar sveitir gekk ágætlega og virðast þeir hafa verið einstaklega heppnir með veður þessa síðsumardaga í ágúst. Líka þegar þeir voru á Norðurlandi fyrr í reisunni. Mesti farartálminn á leiðinni var Þjórsá sem var útbólgin eftir mikla jökulbráðnun í sumarhitunum. Þeir komu að kláfferju við bæinn Þjórsárholt en það apparat nýttist bara mannfólkinu. Koffort voru ferjuð yfir beljandann af ferjumanni með árabát. Hestunum leist hinsvegar ekkert á að þurfa að synda yfir og snéru ávallt til baka. Íslenska aðferðin við því vandamáli var að grýta hestana til hlýðni og út í strauminn en Svíunum blöskruðu mjög þær aðfarir og kynntu til sögunnar sænsku leiðina, sem var að binda hestana saman í halarófu á eftir árabátnum. Sú aðferð lukkaðist og fylgir sögunni að Íslendingarnir hafi "orðið hálf-hvumsa við". Þetta gæti verið enn ein sönnun þess hve Svíar hafa löngum verið öðrum þjóðum framar að flestu tilliti og lengra komnir á þróunarbrautinni. Sígilt umkvörtunarefni Engströms hér landi voru annars hin stuttu rúm sem veittu litla hvíld fyrir langa sænska fætur, auk þess sem honum þóttu dúnsængurnar hér á landi allt of hlýjar í sumarmollunni.
Ferðalangarnir gistu að Galtarlæk en ábúandinn þar, Ingjaldur að nafni, hafði það aukastarf að fylgja göngumönnum upp á Heklutind þegar svo bar við. Ingjaldur þessi er með "mikið skegg og mikið af neftóbaki í því" eins og Engström segir sjálfur frá og teikning hans sýnir. Leist honum ekki heldur á "yglibrún" Ingjaldar en þeir Engström gátu þó sameinast í tóbaksnautn sinni í göngunni, ekki síst vegna sænska gæðatóbaksins sem auðvitað var öllu betra en nokkur íslenskur sveitamaður hafði áður kynnst.
En nú verð ég að fara að beina frásögninni að Heklu. Sumarið 1911 hafði Hekla ekki gosið í 66 ár og 36 ár voru í næsta gos ef við skiljum útundan tvö hraungos í nágrenni fjallsins. Allt frá því Eggert og Bjarni gengu á Heklu fyrstir manna árið 1750 lá leiðin ávallt upp eftir suðvestur-hryggnum og fóru okkar menn þá leið einnig. Sú leið varð hinsvegar illfær eftir gosið 1947 en samkvæmt Árbók Ferðafélagsins var minna um skipulagðar Heklugöngur í kjölfar þess. Það var svo ekki fyrr en eftir Skjólkvíagosið 1970 sem farið var að ganga á Heklu norðanmegin, þ.e. eftir norðausturhryggnum og það var einmitt sú leið sem ég fór á sínum tíma með Ferðafélaginu, sumarið 1990, grunlaus um að aðeins hálfu ári síðar átti Hekla eftir að gjósa.
Ferðin frá Galtarlæk að Heklu var farin á hestum og þurfti meðal annars að fara á vaði yfir Ytri-Rangá sem var allt annað en auðvelt, en Ingjaldur kom þeim slysalaust yfir. Þaðan lá leiðin í skógi vaxinn Hraunteig og framhjá Næfurholti og þaðan hækkaði landið smám saman. Samkvæmt venju þess tíma voru hestarnir skildir eftir í dálítilli lægð (í 960 metra hæð samkvæmt árbók FÍ). Þá tók við mikið brölt um úfin hraun og allskyns torfærur uns komið var að langri og brattri fönn sem lá upp fjallið og að rauðgulum gíg þar sem nú nefnist Axlargígur. Þaðan var farið yfir meiri fannir meðfram hryggnum uns ekki var hærra komist. Toppnum var náð og við blasti hálft Ísland í heiðríkjunni og hið stóra op helvítis. Að vísu fullt af snjó. Albert Engström lýsir upplifun sinni með hástemmdum hætti:
"Þetta er æfintýraland, og í sannleika, á Heklu hefir guð aðsetur sitt, enda þótt stundum hafi virst svo, sem kvein fordæmdra sálna heyrðust innan úr dýpstu fylgsnum hennar. Hér urðum við Wulff að taka upp þá fáu konjaksdropa, er við höfðum geymt til þessa, og skála fyrir fegurðinni í fullkomleika sínum. Aldrei hefur himinhvolfið verið svo fagurt yfir fögrum hluta jarðarinnar
[Hið góða skyggni] kvað vera mjög sjaldgæft. Þeir fá höfundar, sem nent hafa upp á efsta tindinn og ég hefi lesið frásagnir eftir, kvarta allir um þoku, storma og önnur eða svo eða svo mikil óþægindi."
Grasafræðingurinn Thorild Wolff, hinn sænski félagi Engströms, lét sér þó ekki nægja að dást að dýrðinni, heldur þaut skyndilega niður brúnina til að komast í snjóskafl og fylgdi Englendingurinn Mr. Lawson hið snarasta á eftir til að vera með. Á fönninni afklæddist Svíinn og velti sér allsberum í snjónum. Ingjaldur gamli með sitt neftóbak upp á augabrúnir hafði ýmsu kynnst í háttsemi útlendinga en hafði þetta að segja um athæfið: "Hvað er eiginlega við það sem mentun heitir, þegar doktor getur tekið upp á þessum fábjánaháttum?" Tóku þeir Ingjaldur og Engström síðan í nefið og kinkuðu kolli hvor til annars. Það kemur ekki skýrt fram í bókinni hvaða dag nákvæmlega þeir félagar stóðu upp á Heklutindi en það hefur sennilega verið upp úr miðjum ágúst. Þeir héldu til Reykjavíkur daginn eftir Heklugönguna og ferðuðust þá sunnar, eða þar sem Þjórsá er brúuð á sömu slóðum og í dag. Einnig fóru þeir yfir brúaða Ölfusá við Selfoss þar sem var gist. Daginn eftir voru þeir komnir í bæinn. Þann 25. ágúst, nokkrum dögum síðar héldu þeir svo með Botníu til Svíþjóðar.
Íslandsferð þeirra Engströms og Wulffs var svo sem engin tímamótaheimsókn en hin myndskreytta bók Engströms, Til Häclefjäll, sem kom út í Svíþjóð tveimur árum síðar, vakti athygli í heimalandi hans og sagt að hún hafi mótað sýn Svía á Ísland, lengi á eftir. Kvikmyndir Wolffs fóru einnig víða. Þar má nefna sérstaklega, lifandi myndir sem hann tók í Reykjavík af íslenskri glímu, stuttu áður en heim var haldið. Þær myndir áttu sinni þátt í að glíman varð sýningargrein á Ólympíuleikunum í Stokkhólmi sumarið 1912. Smá klausa er meira að segja um það í Öldinni okkar. Í lokin má líka minnast á grein í Morgunblaðinu þann 2. júní 1995, bls 22, þar sem sagt er frá sýningu í Norræna húsinu með myndum, teikningum og ýmsu öðru sem tengist Íslandsferð þeirra Alberts Engström og Thorild Wolff. Reyndar var þriðji Svíinn upphaflega einnig með í för, Carl Danielson, sem þurfti að snúa aftur heim eftir að hafa dottið af hestbaki norður á Siglufirði. Íslandsferðin var þó hin besta í alla staði fyrir Albert Engström og það fegursta sem fyrir hann hefur komið eins og hann nefnir á lokasíðum bókarinnar og hann fagnar því að "reikistjarnan okkar skuli eiga svo fagran blett á yfirborði sínu". Vér Íslendingar nútímans vonum að svo sé enn og verði áfram.
- - - -
Heimildir auk sjálfrar bókarinnar:
Árbók Ferðafélags Íslands 1995
Bifreiðir á Íslandi 1904-1930 I.
Öldin okkar, 1901-1930.
Morgunblaðið 2. júní 1995.
Athugasemdir
Sæll Emil. Vel gerðer tilvísanir og frásögn af GÓÐRI bók. Á hana sjálfur
til margra ára og hef sennilega lesið hana þrisvar til fjórum sinnum.
Sakna aðeins einnar athyglisverðrar tilvísunar í bókinni, en það er sú
þar sem Engström ráðleggur Íslendingum að leita sér kvonfangs sem lengst
frá sínum fæðingarstað. "sá allt of oft "ýsuaugu" á ferðum mínum um landið" S.s. "inavel" getur verið óæskileg!
Bestu kveðjur, Örn Smith
Örn Smith (IP-tala skráð) 29.1.2017 kl. 09:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.