Sérkennilegur hraunfoss á Hawaii

Hawaii kort

Öðru hvoru fáum við stuttar fréttir af hinu lífseiga dyngjugosi sem staðið hefur frá árinu 1983 á austustu eyju Hawaii-eyjaklasans sem oftast er nefnd Big Island. Þetta er lang-eldvirkasta eyjan á Hawaii og um leið yngsta eyjan í klasanum. Þar er einnig að finna hina stóru elddyngju Mauna Loa þar sem allt er með kyrrum kjörum nú. Allt frá því gosið hófst hefur þunnfljótandi helluhraunið aðallega lekið í rólegheitum suðaustur til sjávar frá gígnum Puu Oo sem tilheyrir Kilauea eldstöðinni. Á öllum þessum árum hafa myndarlegar hraunbreiður breitt úr sér í hlíðunum niður að sjónum og hafa fjölmörg hús, vegir og önnur mannvirki orðið undir í þeirri baráttu.

Hraunrennslið hefur annars verið með ýmsum tilbrigðum og sjálfsagt ekki alltaf mjög tilkomumikið. Það á ekki við nú eins og einhverjir hafa kannski séð í fréttum. Undanfarnar vikur hefur nefnilega mjög óvenjuleg hraunbuna streymt beint út úr hraunveggnum við ströndina og fallið rauðglóandi ofan í sjóinn með tilheyrandi gassagangi. Þetta er auðvitað alveg bráðskemmtilegt sjónarspil fyrir túrista sem geta fylgst með frá bátum í hæfilegri fjarlægð. Fara þarf þó að öllu með gát því hraunveggurinn er óstöðugur og aðeins nokkrir dagar síðan stórt stykki féll úr klettunum og niður í sjó. Myndin hér að neðan er frá Hawaiian Volcano Observatory.

Hawaii hraunbuna

Öllu tilkomumeira er auðvitað að sjá lifandi myndir af þessu sjónaspili með því að kíkja á  myndskeiðið sem kemur hér á eftir:

Eins og með önnur fyrirbæri tengd eldgosum þá er ómögulegt að segja til um hversu lengi þessi hraunfoss á eftir að lifa. Hraunrennslið á það til að skipta um farveg og þá ekki endilega í átt til sjávar. Síðla árs 2014 bar svo við að hraunrennslið fann sér nýja leið um sprungukerfi talsverða vegalengd til norðausturs og ógnaði þá þorpi í um 20 km fjarlægð frá upptökum. Ég fylgdist spenntur með og skrifaði tvær bloggfærslur um málið: Hraun ógnar byggð á Hawaii og Hraunfoss við sorpflokkunarstöð. Mun betur fór en óttast var og slapp byggðin að mestu. Sorpflokkunarstöðin meira að segja líka. Árið 2013 skrifaði ég svo um lífseigan óbrynnishólma þar sem síðasti ábúandinn í húsaþyrpingu þurfti að yfirgefa heimili sitt eftir að hafa sloppið furðu vel fram að því.

Svona rétt á meðan allt er með kyrrum kjörum hér á okkar eldfjallaeyju þá getur verið áhugavert að fylgjast með framvindu mála þarna á Hawaii. Eldfjallamiðstöð eyjaskeggja er á þessari slóð: https://hvo.wr.usgs.gov/ En hver veit annars nema eitthvað sé alveg að fara að gerast hér hjá okkur? Ýmislegt að sagt vera á boðstólnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband