Gengið eftir vegg Hadríanusar á Englandi

Þegar Rómverska heimsveldið var í sem mestum blóma snemma á 2. öld náði veldi þeirra meðal annars til stórs hluta Bretlandseyja. Framan af gilti það sama þar og víðar að útmörk, eða landamæri ríkisins, voru ekki alltaf í föstum skorðum vegna sífelldra tilrauna Rómverja til aukinna landvinninga eða utanaðkomandi árása óvina. Þetta breyttist hinsvegar í valdatíð Hadríanus keisara árin 117-137 því með valdatíð sinni vildi hann treysta sem mest innviði ríkisins og auka stöðugleika þess með varanlegri landamærum. Einn liður í þessum áherslum var að reisa myndarlegan landamæravegg á Bretlandseyjum lítið eitt sunnan við núverandi mörk Englands og Skotlands. Meðfram veggnum voru settar öflugar varðstöðvar og fjölmennar herbúðir til að halda í skefjum keltneskum þjóðflokkunum í norðri, nánar tiltekið Piktum, sem þá byggðu Skotland. Veggurinn hélt vel og markaði útmörk ríkisins á þessum stað allt þar til halla fór undan fæti og Rómverjar hófu að yfirgefa svæðið árið 410. Undantekning var þó þegar Antóníus, næsti eftirmaður Hadríanusar, ákvað að halda lengra í norður og hóf að reisa nýjan vegg álíka norðarlega og Glasgow er í dag. Það var hinsvegar feigðarflan og hörfuðu Rómverjar fljótlega aftur að fyrri landamærum við rammgerðan vegg Hadríanusar.

Veggur Hadríanusar kort
Veggur Hadríanusar stendur að hluta til enn í dag þótt hvergi sé hann í upprunalega ástandi. Heillegastur er hann á miðhlutanum þar sem hann liggur um strjálbýl heiðarsvæði en hann er hinsvegar alveg horfinn á þéttbýlli láglendissvæðum við báða enda, þar sem eru borgirnar Newcastle í austri og Carlisle í vestri. Veggurinn var víðast hvar um 2-3 metra breiður og eitthvað meira á hæðina þannig að óhemjumikið grót þurfti í mannvirkið. Útveggirnir voru úr tilhöggnu grjóti sem auðvitað var tilvalið að endurnýta í seinni tíma mannvirki í gegnum aldirnar, svo sem kastala, kirkjur og klaustur. Það var í raun ekki fyrr en um miðja síðustu öld að talað var um að varðveita það sem eftir var af veggnum mikla og fyrir 20 árum var hann settur á heimsminjaskrá UNESCO sem eitt heillegasta landamæramannvirki frá dögum hins forna Rómaveldis.

Veggur Hadríanusar mynd 1
Svo maður beini sögunni að manni sjálfum þá hef ég lengi en þó óljóst vitað um tilvist þessa veggs. Einhverntíma síðasta vetur vorum við hjónin að skoða kort af Bretlandseyjum af Google Maps og beindist þá athyglin að vegg Hadríanusar. Þá kviknaði sú hugmynd hvort ekki væri tilvalið að ganga meðfram veggnum eða þar sem hann hafði legið. Reyndar var það ákveðið á staðnum með báðum greiddum atkvæðum án þess að vita hvort það væri hentugt eða yfirleitt gert. Nánari eftirgrennslan leiddi þó í ljós að töluvert er um að gengið sé eftir þessari leið. Sumir fara þá í nokkura daga gönguferð stranda á milli á meðan aðrir láta sér nægja dagsferðir eða heimsóknir að áhugaverðustu stöðunum. Leiðin, sem Bretarnir kalla Hadrian's Wall Path, hefur öll verið merkt svo enginn þurfi að villast að óþörfu um enskar sveitir á svæðum þar sem engin ummerki um vegginn eru lengur til staðar.

Sunnudaginn 21. júlí vorum við síðan mætt til Newcastle og hófum gönguna skammt þar fyrir vestan. Við tók 5 daga ganga eftir Hadrian's Wall Path allt vestur til Carlisle. Dagleiðirnar voru 13-24 kílómetrar, samtals um 80 kílómetrar, en þá slepptum við reyndar bláendunum til sitthvorar strandar. Á gönguleiðinni var ýmislegt áhugavert að sjá fyrir utan leyfarnar af veggnum. Gangan um enskar sveitir var hin athyglisverðasta þótt veðurlagið væri upp og ofan þar sem skiptust á skin og skúrir. Enskar kindur eru mjög gæfar og hlaupa ekki undan á harðaspretti eins og þær íslensku. Stundum gekk maður líka innan um nautgripi sem voru sem betur fer einnig að spakara taginu. Heiðarnar norður af veggnum er mjög strjálbýlar enda njóta þær einhverskonar friðunar varðandi næturbirtu svo hægt sé að nýta kvöldhimininn til stjörnuskoðunar. Greinilegt var að flugherinn nýtir einnig svæðið sem æfingasvæði enda mátti stundum heyra drunur miklar þegar herþotur rufu hljóðmúrinn. Það sem eftir var af gamla múrnum hans Hadríanusar stóð það þó allt af sér.

Ljósmyndirnar sem fylgja eru teknar úr gönguferðinni.

Veggur Hadríanusar mynd 2

Við upphaf göngu í góðu veðri skammt vestur af Newcastle. Steinveggurinn sem þarna sést er hefðbundinn enskur sveitaveggur frá seinni tíð.

Veggur Hadríanusar mynd 3

Skjótt skipast veður í lofti. Blogghöfundur stendur þarna hundblautur undir lok fyrsta göngudags þegar komið var að fyrsta búti af vegg Hadríanusar.

Veggur Hadríanusar mynd 4

Enskar kindur að spóka sig við rústir rómverskrar varðstöðvar.

Veggur Hadríanusar mynd 4

Eitt af þekktari kennileitum gönguleiðarinnar er Sycamore Gap. Tréð þarna er vinsælt myndefni enda mun það hafa komið við sögu í vinsælli kvikmynd um Robin Hood og var kosið tré ársins í Bretlandi árið 2016.

Veggur Hadríanusar mynd 5

Eitt fjölmargra upplýsingaskilta á leiðinni. Myndin á skiltinu sýnir hvernig veggurinn stóð á brún klettaveggs sem þarna liggur um sveitir og er um leið náttúrulegur þröskuldur innrásarherja. Myndin stækkast með ásmellingu ef einhver vill rýna í smáa letrið.

Veggur Hadríanusar mynd 6

Stór hluti göngunnar lá annars um enskar sveitir þar sem engan fornan vegg er að finna lengur. Ótal hliðum þurfti að ljúka upp á leiðinni og á sumum þeirra mátti finna gagnlegar upplýsingar og viðvaranir. Gangan í heildina var því ágætis kynning á landbúnaðarháttum heimamanna auk þess að gefa innsýn í hina sögulegu fortíð. Ferðin gekk mjög vel þrátt fyrir misjafnt veður og dýrin í sveitinni voru hin spökustu þótt vissara var að fara með gát þegar tortryggnir nautgripir urðu á vegi manns.

Veggur Hadríanusar mynd 7

Að lokum er það svo stemningsmynd frá Carlisle þar sem ganga okkar endaði. Kvöldsólin var ekki af verri endanum í þessum vinalega bæ.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Emil og takk fyrir þennan skemmtilega pistil. 

Magnús Sigurðsson, 6.8.2017 kl. 08:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband