11.9.2017 | 13:52
Á fellibyljavaktinni með CNN
Sunnudagurinn 10. september fór að mestu í það hjá mér að fylgjast með margboðaðri landgöngu fellibyljarins IRMU að ströndum Bandaríkjanna. Sjónvarpsstöðin CNN lagði allar aðrar fréttir til hliðar þennan dag og einbeitti sér af fullum þunga að IRMU með beinum útsendingum af vettvangi þar sem fréttamenn fóru mikinn í lýsingum á því sem koma skildi eða því sem þegar var skollið á en inn á milli var skipt yfir á veðurfréttamanninn sem tók stöðuna hverju sinni. Þrátt fyrir sívaxandi spennu var samt nauðsynlegt að taka sér smá hvíld öðru hvoru enda mikið um endurtekningar í svona útsendingu þar sem fréttamönnum alltaf jafn mikið niðri fyrir þótt þeir sögðu frá því sama á korters fresti.
Hið eiginlega hámark atburðarins og útsendingarinnar varð upp úr klukkan 20 að ísl. tíma þegar fellibylurinn gekk á land við Naples á vesturströnd Flórída en þar hafði einn fréttamaðurinn komið sér fyrir á húsasvölum með ágætu útsýni yfir eina af götum bæjarins á meðan félagi hans tók stöðuna niðri á tómri umferðargötu. Hvað sem segja má um annað þá var afskaplega tilkomumikið að sjá í beinni útsendingu þegar mesti óveðursstrengurinn á undan auga fellibyljarins gekk yfir. Sjálfir höfðu þeir orð á því að þetta væri eins og að standa berskjaldaðar inni í bílaþvottastöð, þvílíkur var krafturinn í regninu. Skömmu síðar féll svo allt í ljúfa löð þegar komið var inn í miðju fellibylsins en þá var reyndar allt komið á flot enda höfðu niðurföll engan veginn undan í þær 15-20 mínútur þegar lætin voru sem mest. Aftur fór að blása þegar miðjan var komin fram hjá en bakstrengurinn var þó öllu hægari en sá sem á undan gekk og úrfellið skaplegra.
Almennt virtust gegnblautir fréttamennirnir fá nokkuð út úr þessari lífreynslu. Tjónið sem óveðrið skildi eftir sig virtist þó vera mun minna en væntingar gáfu tilefni til. Eitthvað mátti þó finna af smábraki hér og þar en skemmdir voru þó aðallega á gróðri. Sjálf húsin í næsta umhverfi stóðu þetta af sér með sóma enda búa menn vel og byggja vandað þessum slóðum í ljósi reynslunnar af fyrri stormum. Margskonar tjón af ýmsu tagi mun þó væntanlega eiga eftir að koma í ljós, ekki síst af völdum vatns og sjávargangs svo ekki sé talað um víðtækar truflanir á rafmagni.
Við landgöngu var Irma 2.-3. stigs fellibylur og vindhraðinn gefinn upp sem 115 mílur á klst, sem samsvarar um 51 metrum á sekúndu sem er miklu meira en fárviðri. Vindurinn mældist yfirleitt þó mun minni á veðurstöðvum en til samanburðar var vindhraðinn mestur um 180 mílur á klst þegar IRMA fór yfir smáeyjar austar í Karíbahafinu sem 5. stigs fellibylur með tilheyrandi tjóni. Íbúar Flórída gátu prísað sig sæla að braut Irmu var heldur heldur sunnar en spáð hafði verið enda dró nokkuð úr vindhraðanum við að lemja norðurströnd Kúbu. Eins og venja er þá voru spár mikið á reiki allt frá upphafsdögum fellibyljarins lengst austur í Atlantshafinu. Aldrei þessu vant þá fylgdist ég með framvindunni nánast frá upphafi þegar ónefndir hitabeltisklakkar fóru að leggja á ráðin og skipuleggja sig skammt vestur af Grænhöfðaeyjum. Fyrstu langtímaspár um fellibyl bentu til landgöngu í Bandaríkjunum norðarlega á Austurströndinni en með tímanum færðist hættusvæðið smám saman sunnar og fyrir síðustu helgi var stórborgin Miami beint í skotlínunni af Irmu í fullum styrk. Á endanum kom hún síðan að landi bakdyramegin á Flórída í mun mildari útgáfu og enn einu sinni gátu Flórídabúar því prísað sig sæla að hljóta ekki sömu örlög og íbúar ýmissa fátækra eyja í Karíbahafinu.
Mynd frá Weatherunderground sýnir feril Irmu 30. ágúst - 9. september.
Fellibyljatíminn er þó ekki yfirstaðinn. Jose reikar um í austri en hefur ekki verið talinn til stórræðna. Þróun hans er þó mjög óljós og virðast útreikningar stefna honum ýmist út og suður eða norður og niður og því best að hafa sem fæst orð um hann.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Veður | Breytt s.d. kl. 14:51 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.