Heimsmynd flatjarðarsinna

Samtök sem kalla sig the International Flat Earth Society hafa vakið nokkra athygli að undanförnu enda vekur það sjálfsagt furðu hjá flestum að slík samtök skuli yfirleitt vera til nú á dögum. Samtökin hafna viðurkenndri heimsmynd nútímans og boða þann forna sannleik að jörðin sé flöt og um leið miðja alheimsins. Sólin og tunglið fylgja jörðinni á vegferð sinni sem og allar stjörnurnar í einskonar hvelfingu fyrir ofan. Ef svo ólíklega fari að heimsynd flatjarðarsinna verði ofaná þá er auðvitað ágætt að kunna nokkur skil á þessum fræðum.

Flatjörð

Sagan í stuttu máli. Eins og gefur að skilja hafa flatjarðarsinnar átt fremur erfitt uppdráttar enda mæta þeir litlum skilningi vísindasamfélagins þrátt fyrir að þeir telji sig hafa ýmis rök fyrir máli sínu. Flatjarðarsamtökin voru upphaflega stofnuð árið 1956 í Englandi og byggðu að grunni til á hugmyndum Samuels nokkurs Rowbotham sem á 19. öld hafði gefið út bókina Earth Not a Globe. Á næstu áratugum jókst fjöldi félagsmanna upp í örfá þúsund og færðist þungi félagsstarfsins til Kaliforníu í Bandaríkjunum þar sem m.a. var gefið út félagsritið Flat Earth News. Mikil ógæfa dundi yfir árið 1997 þegar heimili, Charles K. Johnsons, aldraðs forseta félagsins og aðaltalsmanns, brann til kaldra kola og þar með félagaskrár og fleira mikilvægt. Sjálfur lést karlinn svo nokkrum árum síðar og stefndi ekki í annað en að dagar félagsskaparins væru taldir. En svo var þó ekki því nú tímum veraldarvefsins hefur félagið gengið í endurnýjun lífdaga sinna, en með hjálp nútíma samskipta hefur aldrei verið auðveldara að útbreiða allskonar sannleika sem stangast getur á við viðteknar skoðanir. Samtökin eru með vandaða heimasíðu, fjöldi YouTube mynda hafa verið framleidd og hlotið útbreiðslu og nýjustu tölu herma að 37 þúsund manns séu meðlimir Fésbókarhópsins Flat Earth- No Trolls.

Hin flata Jörð. Heimskort sem miðast við flata jörð í einhverri mynd hafa verið til löngu fyrir daga landafundanna miklu. Miðjarðarhafið var til forna talið vera við miðju jarðarinnar eins og nafnið bendir til. Núverandi heimskort flatjarðarsinna er hinsvegar með sjálfan Norðurpólinn í miðjunni og allt annað liggur umhverfis hann. Miðbaugurinn liggur í hring sem svarar til hálfri vegalengdinni frá miðju og að endimörkunum eða brúnunum á jarðdisknum. Við endimörkin eru ísbreiður Antarktíkur og yfir þær hefur enginn komist nema falla fram af brúninni. Hvort það hafi gerst veit maður ekki en þarna endar jörðin allan hringinn. Þetta vita flatjarðarsinnar og einnig helstu ráðamenn og fræðimenn heimsins, en kjósa að halda að okkur röngum sannleika.

Flatjörð UN-fáni

Ekki þarf annað en að skoða fána Sameinuðu þjóðanna til að sjá hvernig málum er háttað en í merki samtakana er einmitt kort með Norðurpólinn í miðjunni. Eitt vandamál kemur upp við þessa jarðskipan því vegalengdir til austurs og vestur aukast mjög eftir því sem sunnar dregur. Kannski vegur upp á móti að öll ferðalög í þær áttir eða tíminn sjálfur ferðist mishratt eftir því sem fjær dregur miðjunni.

Sólargangur. Það sem kom mönnum á sporið í eldgamla daga um að jörðin gæti verið hnöttótt var sú staðreynd að skuggi sólarinnar um hádaginn væri almennt lengri eftir því sem norðar var farið á jörðinni (jörðin sunnan miðbaugs var þá ekki þekkt). Á flatri jörð væru skuggar hinsvegar jafn langir allstaðar. Flatjarðarsinnar segja hins vegar að þetta eigi ekki við því sólin er nefnilega mjög nálægt jörðinni, eða ekki nema um 4,800 km yfir höfðum okkar. Það sama gildir um tunglið.

Flatjörð Sólargangur

Sólin lýsir eins og lampi niður á jörðina og ferðast hringinn eftir miðbaug. Þegar hún er nálægt okkur yfir daginn þá sýnist hún hærra á lofti en eftir því sem hún fjarlægist þá lækkar hún á lofti uns hún hverfur okkur sjónum í fjarska og sest. Reyndar er álitamál hvers vegna sólin er alltaf jafn stór frá okkur séð ef fjarlægðin til hennar er svona breytileg. Ef hún hverfur í fjarskann við sólsetur ætti hún að vera agnarsmá við sólarlag hefði maður haldið. Árstíðarsveiflan eru hinsvegar minna vandamál fyrir flatjarðarsinna því hún er sögð orsakast af því að á sumrin hjá okkur gengur sólin sinn hring innan við miðbaug, nær miðjunni, og lýsir upp þá norðlægar slóðir. Um veturinn hjá okkur fer sólin utanvið miðbaug og er því almennt fjær miðjunni og lýsir meira suðlægar slóðir.

Snæfellsjökull
Sjóndeildarhringurinn. Ein af helstu röksemdum fyrir hnöttóttri jörð er sú að fyrirbæri í fjarska virðast sökkva í sjóndeildarhringinn. Þannig hefur verið bent á að þegar seglskip nálgast úr fjarska þá sjást seglin fyrst en skrokkurinn ekki fyrir en skipið er komið nær. Einnig sjáum við ekki neðsta hluta fjalla eins og Snæfellsjökuls þegar við horfum á hann frá Reykjavík. Eftir því sem við förum ofar kemur meira í ljós af undirhlíðunum og uppi á Esju sést jökullinn alveg niður að undirlendi. Flatjarðarsinnar eru meðvitaðir um þetta en afgreiða málið með áhrifum sjónhverfinga sem skýrast af fjarlægðinni og nálægðar við sjóndeildarhringinn. Flókið mál sem þarf sérstakar skýringar.

Tunglið og stjörnurnar. Samkvæmt flatjarðarkenningunni þá er tunglið jafn stutt frá yfirborði jarðar og sólin eða 4.800 km frá yfirborði og ferðast einnig sína hringi umhverfis miðju jarðar. Reikistjörnurnar eru mjög smáar og ferðast umhverfis sólina en allar fastastjörnurnar eru síðan lítið eitt ofar í 5.000 km hæð og snúast um miðjuna á næturhimninum þar sem pólstjörnuna er að finna.

Geim- og tunglferðir. Nú eru tiltækar fjöldi mynda af jörðinni eins og hún sést frá geimnum og ekki annað að sjá á þeim að jörðin sé hnöttur. Skemmst er frá því að segja að allar slíkar myndir eru taldar vera tilbúningur og byggðar á fölsunum. Samkvæmt flatjarðarsinnum hafa aldrei verið farnar neinar geimferðir, hvað þá tunglferðir. Gervitungl á sporbraut um jörðu eru einnig bara plat og bent hefur verið á að því til stuðnings að gervihnattamóttökudiskar vísi yfirleitt lárétt, en ekki til himins. Geimferðastofnun Bandaríkjanna NASA gerir lítið annað en að halda að okkur brenglaðri heimsmynd í því skyni að afla sér meiri fjárstuðnings. Flestöll vísindi eru einnig samsek í þessu stóra blekkingarmáli og vinna stöðugt að því að halda frá okkur hinni einu og sönnu heimsmynd, sem samræmist sköpunarsögunni og allri heilbrigðri skynsemi – þ.e.a.s. að mati þeirra sem vilja byggja tilveru sína á flatri heimsmiðjujörð.

En nú gæti orðið breyting á. Ofurhugi einn í Bandaríkjunum ætlar skjóta sér á loft í gufuknúinni eldflaug til að sýna fram á flatneskju jarðar. Sá maður hefur reyndar ekki mikla trú á viðurkenndum vísindum en fari hann ekki flatt á sínu flugi gæti þetta verið tímamótaviðburður í þekkingaröflun á eðli alheimsins – eða ekki. Eitthvað babb hefur að vísu komið á bátinn vegna afskipta stjórnvalda, nema hvað? Maðurinn mun þó ekki láta deigan síga og stefnir en á ferðalag upp í kosmosið.


mbl.is Hyggst sanna að jörðin sé flöt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband