14.1.2018 | 00:17
Skautað yfir stöðuna
Hvað sem segja má um loftslagsmálin svona almennt þá mjakast hlutirnir hægt og rólega í vissa átt með ýmsum bakslögum inn á milli. Hér ætla ég skauta yfir stöðuna á þeim þáttum sem helst koma við sögu þegar loftslagsbreytingar og heimsveðurfar ber á góma. Fyrst er það sem allt snýst um.
Koltvísýringur (CO2) í andrúmslofti heldur áfram að aukast jafnt og þétt með hverju ári, en samkvæmt tölum frá desember 2017 var magnið komið upp í 407 ppm (parts per million). Þótt hlutfall koltvísýrings sé raunar afar lítið í lofthjúpnum þá hefur það sín áhrif. Heilmikill stígandi er í þessu og ekki hægt að kenna öðru um en umsvifum mannsins á okkar tímum enda magnið komið langt yfir það sem mest hefur verið síðustu 400 þúsund ár að minnsta kosti, samkvæmt vef NASA þaðan sem myndin er fengin. https://climate.nasa.gov/vital-signs/carbon-dioxide/Meðalhiti jarðar árið 2017, samkvæmt gervitunglamælingum UAH, var sá þriðji hæsti sem mælst hefur. Hlýjasta árið samkvæmt þeirri gagnaröð var árið 2016 og í samræmi við það eru síðustu tvö ár, hlýjasta tveggja ára syrpa sem mælst hefur. Árið 1998 heldur sinni stöðu sem annað hlýjasta árið. Þessi tveir hitatoppar sem eru svona áberandi á línuritinu eru afleiðingar El Nino á Kyrrahafinu en ólíkt því sem gerðist eftir 1998 þá hefur meðalhiti jarðar haldist nokkuð hár síðan. Hér má benda á að samkvæmt mælingum annarra aðila þá er hlýnun undanfarinna ára heldur meiri en hér kemur fram og má því segja að ég hafi vaðið fyrir neðan mig með því að velja gagnaröð UHA sem ættuð er frá "efasemdamönnunum" í Alabamaháskóla í Bandaríkjunum. http://www.drroyspencer.com/latest-global-temperatures/
Sjávarhiti er breytilegur eftir svæðum eins og venjulega. Blái liturinn á Kyrrahafinu er til marks um kalt La Nina ástand sem nú ríkir en það ætti tímabundið að halda aftur að hitanum hnattrænt séð. Hér á okkar slóðum er Norður-Atlantshafið nokkuð hlýtt og hann er að mestu horfinn kuldapollurinn sem gerði vart við sig fyrir 2-3 árum. Kannski mun svæðið þó eitthvað blána á ný vegna kuldaútrásar frá Norður-Ameríku núna í vetur. https://www.esrl.noaa.gov/psd/map/clim/sst.shtml
Sjávarhæð heimshafanna stígur nokkuð jafnt og þétt um nokkra millimetra á ári vegna hitaþenslu hafsins og viðbótarvatns vegna jökulbráðnunar. Þótt það sé ekki mikið þá eru 3,2 mm ári = 32 cm á einni öld. En þetta er breytilegt á milli ára en óttast er að hraði hækkunarinnar geti aukist með tímanum sérstaklega ef jöklar og íshellur við Suðurskautslandið fara að steypast í sjóinn í auknum mæli. Mest hækkar sjávarborð annars á hlýjum El Nino árum en svo hækkar það lítið sem ekkert á meðan kalda systirin La Nina gengur yfir eins og núna. https://climate.nasa.gov/vital-signs/sea-level/
Hafísinn á Norðurslóðum er með minnsta móti miðað við árstíma og hefur útbreiðslan raunar ekki áður mælst minni í upphafi árs en einmitt núna. Helsti keppinauturinn er árið í fyrra, 2017, sem átti lægstu vetrarútbreiðsluna til þessa. Síðustu vetur hafa verið mjög hlýir á norðurslóðum enda hefur verið nokkuð mikið um endaskipti á heitu og köldu lofti á norðurhveli. Hinsvegar hafa sumarhitar ekki alveg náð að fylgja vetrarhlýindunum eftir sem sjálfsagt hefur bjargað einhverju fyrir ísinn. https://nsidc.org/arcticseaicenews/sea-ice-tools/
Útbreiðsla íssins á báðum hvelum samanlagt er við það minnsta sem mælst hefur og keppir lágmarkið nú við árið 2016. Hafísinn á Suðurhveli minnkaði ekki lengst af á sama hátt og á Norðurhveli enda aðstæður aðrar. Þetta hefur breyst undanfarið þannig að hafísútbreiðsla á hnattvísu er nú við það minnsta frá upphafi mælinga. Hnattræn útbreiðsla hafíss var einstaklega lítil árið 2016 og hefur verið lítil síðan. Fróðlegt verður að sjá hvort heimsmeti í hafísleysi frá því 2016 verði ógnað nú í vetur. https://sites.google.com/site/arctischepinguin/home/global-sea-ice
Sólvirkni er oft mæld með fjölda sólbletta en fjöldi þeirra sveiflast á um 11 ára fresti þannig að þeir hverfa svo til alveg í sólvirknilágmarki. Sólin er einmitt að ganga inn á slíkt lágmark um þessar mundir. Sólarsveiflan sem nú er að klárast var vægari en sú fyrri sem aftur var vægari en þær tvær sem komu þar á undan. Sólarsveiflurnar hafa þannig orðið vægari undanfarna áratugi eftir mikla virkni á seinni hluta síðustu aldar. Líklegt þykir að næsta sólarsveifla verði veik eða jafnvel mjög veik og er það grundvöllur ýmissa spádóma um að loftslag gæti farið kólnað næstu áratugi. Þessar kólnunarspár eru umdeildar því þótt sjálf sólblettasveiflan sé mikil er sveiflan í heildarsólvirkni ekki nema um 0,1%. Einnig hefur verið bent á að þrátt fyrir minnkandi sólvirkni síðustu áratugi þá hefur hnattrænn hiti aukist á sama tíma. Almennt er þó talið að áhrif sólvirkni séu einhver á loftslag og veðurlag. https://www.spaceweatherlive.com/en/solar-activity/solar-cycle
- - - -
Þannig er staðan á þessum málum svona nokkurn veginn. Framhaldið þekkjum við ekki almennilega nema að við getum fastlega gert ráð fyrir því að koltvísýringur í lofti muni halda áfram að aukast. Árið 2018 verður væntanlega hlýtt á heimsvísu eins og öll ár þessarar aldar en þó getum við útilokað að það verði hlýjasta árið hingað til vegna La Nina ástands á Kyrrahafi. Hvað gerist lengra inn í framtíðinni kemur svo bara í ljós. Langtímahlýnun er í fullum gangi en á skjön við hana koma stundum fram spádómar um að hnattræn kólnun sé alveg á næsta leiti. Slíkar spár hefur maður að vísu heyrt og lesið um á síðustu 20 árum eða svo. Annars má nefna hér í lokin að kveikjan og grunnurinn að þessum pistli er athugasemd sem ég gerði við bloggfærslu sem lögmaður einn skrifaði hér á svæðinu fyrir nokkrum dögum um loftslagsmálin en sú athugasemd hefur reyndar ekki birst af einhverjum ástæðum.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 13.1.2018 kl. 21:32 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.