Veðurannáll 1987-1990

Þar sem þessi bloggsíða er að stórum hluta helguð veðrinu þá er varla hægt annað en að bjóða upp á einhvers konar veðurannála eins og gjarnan tíðkast á slíkum síðum. Ég mun taka upp þráðinn á því herrans ári 1987 sem einmitt er fyrsta heila árið sem ég færði til veðurdagbókar. Tekin verða fyrir fjögur ár í senn í vikulegum bloggpistlum en sá síðasti í röðinni mun birtast eftir áramót þegar núverandi ár mun tilheyra fortíðinni. Þetta verður alls ekki ítarlegt yfirlit, raunar bara mjög stutt, og megináherslan er á veðrið í Reykjavík enda er það mitt heimapláss. Neðan lesmáls er að finna grafískt yfirlit yfir meðalhita einstaka mánaða tímabilsins í Reykjavík samkvæmt Veðurstofutölum, auk einkunna sem ég hef gefið hverjum mánuði útfrá einkunnakerfi mínu sem byggir á veðurþáttunum fjórum: hita, úrkomu, vindi og sólfari.

Þegar fjögurra ára tímabilið 1987-1990 hófst voru landsmenn ýmsu slæmu vanir og gerðu sér litlar vonir um að einhver breyting ætti eftir að verða þar á. Miðaldra fólk og þaðan af eldra talaði þó um að betri tíð hafi ríkt í þeirra ungdæmi og ekki að ástæðulausu því nokkuð hlýrra hafði verið í veðri frá því fyrir miðja öldina og fram til 1965 er kaldara veðurlag tók við. Þótt þetta kuldaskeið hafi enn verið ríkjandi árin 1987-1990 var eitthvað óvenjulegt að gerast þarna strax árið 1987 í veðrinu sem kynslóð köldu áranna hafði varla kynnst áður. En alveg óháð veðrinu hér heima þá þróuðust heimsmálin á þann hátt að sjálft kalda stríðið fékk skjótan endi þegar alþýðan reis upp gegn alræði öreiganna í Austur-Evrópu.

Árið 1987 hófst með hlýjum sunnanvindum sem varð til þess að meðalhitinn í janúar varð óvenju hár, 3,1 stig. Heldur dró úr hlýindunum í febrúar og mars en meðalhitinn var þó ofan frostmarks báða mánuðina. Miklir umhleypingar voru í aprílmánuði sem endaði með miklu fannfergi í Reykjavík aðfaranótt 1. maí. Sá snjór hvarf fljót og seinni partinn í maí gerði nokkuð góða hitabylgju suðvestanlands. Sumarmánuðirnir júní og ágúst voru góðir sunnan heiða en öllu verra og sólarminna var í júlí. Haustið var tíðindalítið en eftir frekar kaldan október hlýnaði á ný í nóvember og hélst óvenjugóð vetrartíð út árið með einmuna hlýindum og snjóleysi. Svo fór að meðalhiti ársins varð 5,4 stig í Reykjavík og hafði ekki verið hærri síðan á hina hlýja ári 1964.

Árið 1988 féll hitinn í sitt gamla far á ný og var ársmeðalhitinn í Reykjavík 4,1 stig sem er alveg við meðalhita 9. áratugarins. Kalt var fjóra fyrstu mánuðina. Meðalhitinn í Reykjavík í janúar var -3,0 stig en febrúar og mars voru einnig undir frostmarki. Þetta var norðanáttavetur með snjóþyngslum norðanlands auk þess sem hafísinn lét sjá sig. Kuldar héldu áfram í apríl en síðan hlýnaði vel í maímánuði með ágætis hitabylgju sem kom hitanum upp í 19 stig í borginni. Júní var hinsvegar slæmur suðvestanlands og sá sólarminnsti í borginni sem mælst hafði. Júlí var mun betri en þó gerði óvenjumikið þrumuveður síðdegis þann 10. júlí í Reykjavík og víðar suðvestanlands sem var tveimur kúm að aldurtila í Svínadal. Ekki bar mikið til tíðinda eftir það en desember var þó ansi umhleypingasamur.

Árið 1989 var heldur kaldara en árið undan og var meðalhitinn í Reykjavík ekki nema 3,8 stig. Janúar var mjög umhleypingasamur og tepptist umferð í borginni nokkrum sinnum vegna illviðris og ófærðar. Um hægðist með kólnandi veðri og var meðalhiti febrúar í borginni -3,0 stig. Mjög snjóþungt var suðvestanlands og víða um land alveg fram á vor. Maí var bæði kaldur og einstaklega úrkomusamur. Ekki var kvartað mikið í júní en Páfinn fékk þó heldur napurt veður í heimsókn sinni fyrstu viku mánaðarins. Síðan kom sólarlausasti júlí sem mælst hafði í Reykjavík en öllu betra var norðaustanlands eins og gjarnan þegar þannig stendur á. Ekki var hlýindum fyrir að fara en hámarkshitinn þetta sumar var ekki nema 15,6 stig í Reykjavík. Aftur var tíðindalítið seinni hluta árs en desember var nokkuð kaflaskiptur í hitafari.  

Árið 1990 var meðalhitinn 4,4 stig í Reykjavík. Janúar var frekar illviðrasamur en þá gerði heilmikið tjón suðvestanlands vegna sjávarflóða snemma mánaðar. Aðalkuldakaflinn var kringum mánaðarmótin febrúar og mars en annars einkenndist veturinn af miklum snjóþyngslum víðast hvar á landinu og þá sérstaklega norðanlands fram á vor. Sumarið slapp fyrir horn en júlí reyndist sá hlýjasti í Reykjavík síðan 1968. September var mjög úrkomusamur sunnanlands en annars voru haustmánuðirnir sæmilega hlýir. Í heildina áttu lægðir greiðan aðgang að landinu á árinu og í samræmi við það hafði meðalloftþrýstingur ársins ekki mæst lægri en þetta ár.

Á tímabilinu var nokkuð rólegt í jarðskorpunni. Dálítil jarðskjálftahrina með upptök við Kleifarvatn gekk þó yfir suðvesturland í mars 1990 og fundust sterkustu skjálftarnir vel í Reykjavík. Ekki urðu nein eldgos á þessum árum en síðast hafði gosið í Gjástykki árið 1984 auk smáhræringa í Grímsvötnum. Tíðindi biðu hinsvegar handan áramótanna en það tilheyrir næsta pistli.

Annáll 1987-90 hiti

Annáll 1987-90 einkunn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband