Heimskautsbaugurinn og kúlan í Grímsey

KúlanKúlan mikla í Grímsey sem ætlað er að fylgja heimskautsbaugnum á ferð sinni norður á bóginn er út af fyrir sig snjallt listaverk sem tengist hinum stóru náttúröflum á einfaldan hátt. Reglulega löguð kúla er hið fullkomna þrívíða form og kúlan er auðvitað hnöttótt eins og jörðin sem snýst um sjálfa sig á sinni áralangri hringferð um sólina. En heimurinn er ekki alltaf hreinn og beinn og góðar hugmyndir geta valdið vissum vandræðum þegar kemur að framkvæmdum. Því miður fyrir ferðaþjónustuaðila í Grímsey þarf heimskautsbaugurinn endilega að liggja um norðurenda eyjarinnar, dágóðan spöl frá sjálfu þorpinu, þannig að ferðalangar í stuttri dagsferð til Grímseyjar hafa lítinn tíma fyrir annað en gönguna fram og til baka, ætli þeir sér að berja kúluna augum og stíga formlega yfir heimskautsbauginn. 

Ekki skánar þetta með tímanum því heimskautsbaugurinn færist norðar með hverju ári um einhverja 14-15 metra ári sem gerir eitthvað um 20 skref. Kúluna þarf svo að færa til árlega samkvæmt því, enda mun megininntak verksins einmitt vera það að rúlla áfram með heimskautsbaugnum uns kúlan fellur af björgum fram árið 2047 þegar baugurinn yfirgefur eyjuna. Kannski munu einhverjir eyjaskeggjar fagna þeim endalokum enda kostnaðarsamt að vera að brambolta með þennan nýþunga hlunk á hverju ári, bara til að fæla ferðalanga frá veitingahúsum og minjagripaverslunum. Spurning er þó hvort þeir nenni að koma til Grímseyjar ef engin verður þar kúlan og heimskautsbaugurinn kominn út á ballarhaf. 

Ferðalag norðurheimskautsbaugsins til norðurs er annars hið merkilegasta í hinu stóra samhengi. Eins og flestir vita þá hallar jörðinni og það um 23,5 gráður sem skýrir tilveru árstíðanna því án hallans væri sífelld jafndægur hér á jörðu og dagurinn allstaðar jafnlangur nóttunni. Norðurheimskautsbaugurinn markar síðan þá breiddargráðu þar sem sólin nær ekki að setjast við sumarsólstöður og ekki að koma upp fyrir sjóndeildarhring við vetrarsólhvörf. Sama á síðan auðvitað við á suðurhveli.

obliquityFærsla norðurheimskautsbaugsins til norðurs markast síðan af þeirri staðreynd að halli jarðar sveiflast fram og til baka á um 40 þúsund árum. Á þeim árþúsundum sem við lifum nú er halli jarðar að minnka og mun jörðin vera nálega mitt á milli minnsta og mesta halla en samkvæmt því ættu að vera um 10 þúsund ár þar til hallinn verður minnstur, eða 22,1 gráða. Grímseyingar geta því vænst endurkomu heimskautsbaugsins eftir um 20 þúsund ár og þá kannski náð kúlunni upp úr sjónum hafi þeir áhuga á því, að því gefnu að þá verði ekki skollið á nýtt jökulaskeið og allt í bólakafi undir jökli.

Talandi um jökulskeið þá er umrædd sveifla á möndulhalla jarðar einn af þeim þáttum sem hafa áhrif á loftslag hér á jörðu á langtímaskala. Möndulhallinn er þar að vísu ekki einn að verki því fleiri afstöðuþættir jarðar gagnvart sólu blandast þar inn (Milankovitch-sveiflurnar). Það er hinsvegar ljóst að þegar halli jarðar er í hámarki þá fer sólin hærra á loft að sumarlagi og þannig var það einmitt á fyrstu árþúsundunum eftir að síðasta jökulskeiði á norðurhveli lauk fyrir um 10 þúsund árum. Í samræmi við það þá er talið að Ísland hafi verið jökullaust að mestu fyrir svona 5-8 þúsund árum og Norður-Íshafið sennilega íslaust að sumarlagi.

En samfara minnkandi möndulhalla, færslu norðurheimskautsbaugsins lengra til norðurs og þar með minnkandi sólgeislunar að sumarlagi, þá hafa jöklarnir smám saman stækkað á ný með hverju árþúsundi. Um landnám voru jöklarnir þannig farnir að taka á sig mynd og áttu eftir að stækka með hverri öld uns þeir urðu stærstir nálægt aldamótunum 1900. Þróunin til minni möndulhalla heldur síðan áfram í nokkur þúsund ár til viðbótar en hvort það leiði til allsherjar jökulskeiðs er ekki víst. Eins og staðan er núna hefur þróunin til kólnunar og stækkandi jökla snarlega snúist við og varla hægt að kenna (eða þakka) öðru um en hnattrænni hlýnun af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa, sem reyndar er nú farið að kalla hamfarahlýnun. Það er því ýmislegt í tengslum við þessa kúlu sem má velta fyrir sér.

Öræfajökull

Öræfajökull á góðum degi (Ljósm. EHV)

Myndin af kúlunni er fengin af viðtengdri frétt á mbl.is.


mbl.is Kúlan ekki úr eynni fyrr en 2047
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband