18.8.2019 | 00:01
Af hafísnum í norðri
Sumri er tekið að halla og styttist í árlega lágmarksútbreiðslu hafíssins á norðurslóðum. Að þessu sinni hefur bráðnun hafíssins í sumar verið með mesta móti og jafnvel hefur stefnt í að útbreiðsla íssins að loknu sumri gæti ógnað hinu óviðjafnanlega metlágmarki ársins 2012 sem var mikið tímamótaár hvað varðar hafísbráðnun. Á meðfylgjandi línuriti frá NSIDC (Bandarísku snjó- og hafísmiðstöðinni) sést hvernig staðan er í útbreiðslumálum hafíssins. Bláa línan fyrir 2019 er þarna alveg við 2012-línuna og hefur reyndar verið undir henni undanfarnar vikur þar til nú alveg upp á síðkastið. Til samanburðar eru einnig árin 2007 og 2016 sem til þessa eru í 2. og 3. sæti þegar kemur að hafíslágmarki ársins. Svo má einnig sjá þarna árið í fyrra 2018 sem sætti litlum tíðindum í bræðslumálum.
Þeir sem fylgjast hvað gleggst með þessari botnbaráttu eru frekar á því að metárið 2012 muni halda met-stöðu sinni þegar kemur að lágmarkinu í september, þótt ekkert sé útilokað. Lágmarkið 2019 gæti hins vegar vel orðið það næst lægsta nema eitthvert óvænt bakslag eigi sér stað. Á útbreiðslukortum frá 16. ágúst 2012 og 2019 sést hversu litlu munar milli þessara tveggja ára. Upp á framhaldið að gera munar hinsvegar um að þarna árið 2012 voru enn veikburða ísflákar aðskildir frá ísbreiðunni sem biðu þess að hverfa, sem þeir og gerðu. Einnig má sjá að nú í ár er nokkuð um ís við Kanadísku heimskautaeyjarnar sem gæti lifað sumarið af og komið í veg fyrir að norðvesturleiðin opnist. Af litunum að dæma má hinsvegar sjá að lítið er af mjög þéttum ís nú í ár miðað við 2012, en ísinn er þéttari eftir því sem blátónninn er hvítari.
Framhaldið mun síðan koma í ljós. Helst má búast við því að ísinn eigi eftir að hörfa enn meir frá Síberíuströndum enda spáð að hlýir vindar úr suðri muni blása yfir veikburða ísinn á þeim slóðum, samanber skjámynd af hitaspákorti frá Climate Reanalyzer sem sýnir frávik hitans frá meðallagi þann 17. ágúst. Sjálfur Norðurpóllinn, þarna í miðjunni, er þó vel varin frá öllum hliðum og verður varla íslaus í þetta sinn, frekar en fyrri daginn. Það styttist þó í slíkan atburð að öllum líkindum.
- - - -
Sjá einnig sérfræðilegt yfirlit um stöðuna frá NSIDC: http://nsidc.org/arcticseaicenews
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.