Hvernig kemur Esjan undan vetri?

Nú er komið að hinum árlega samanburði á snjóalögum í Esju sem felst í myndatöku af Esjunni þegar skyggni leyfir fyrstu dagana í apríl og bera saman við sambærilegar myndir fyrri ára. Frá árinu 2013 hafa Esjuskaflar séðir frá borginni verið nokkuð lífseigir og haldið velli flest ár en hurfu þó með öllu sumarið 2019 og svo einnig í fyrra, sumarið 2023. Hinsvegar hurfu allir skaflar fyrsta áratug þessarar aldar og er það lengsta slíka tímabil sem vitað er um.

Myndin í ár var tekin á köldum og björtum norðanáttardegi 1. apríl sem bar upp á annan í páskum. Staðan á snjóalögum að þessu sinni er með nokkuð eðlilegu móti sem þýðir að sumarið þarf að vera frekar hlýtt og sólríkt til að sjórinn hverfi, öfugt við öllu óvinsælli þungbúna, kalda og þurra daga sem hægja á snjóbráðnun. Það þurfti minna til í fyrra þegar skaflar voru mun minni eftir þurran vetur en líka kaldan, sem sýnir að það er ekki bara kuldar sem ráða snjóalögum – hér sunnan heiða allavega.

Fyrst og fremst er það langi skaflinn í Gunnlaugsskarði sem er þrálátur og lifir af sumrin, en svo er skaflinn í skálinni vestan við Kerhólakamb (vinstra megin á myndinni) sem er alltaf furðu þrautseigur miðað við stærð.

Að þessu sinni birti ég myndir síðustu þriggja ára og einnig annað hvert ár aftur til ársins 2006. Alla seríuna má síðan sjá í Esju-myndalbúmi hér til hliðar eða á slóðinni: https://emilhannes.blog.is/album/esjusnjor_i_april/

ATH. Sé bloggfærslan skoðuð í síma er betra að snúa honum á hlið svo myndirnar birtist heilar.

Esja 1. april 2024

Esja 6. april 2023

Esja 6. apríl 2022

Esja 9. apríl 2020

Esja 6. apríl 2018

Esja 4. apríl 2016

Esja 3. apríl 2014

Esja 2. apríl 2012

Esja 1. april 2010

Esja 6. apríl 2008


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðan dag.
Eitthvað virðist þú ruglast á nafni fjallsins Esju og þrálátt kalla fjallið Esjuna með greini. Það er annað hvort allt annað fjall eða sem líklegra er, það fjall er alls ekki til. 
Þér þætti væntanlega ekkert spennandi að vera kallaður Emilinn eða Emillinn? Mæli ég með að þú lagfærir þessar ambögur. :-)

Nonni (IP-tala skráð) 6.4.2024 kl. 11:18

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Góðan dag Nonni.

Fjallið heitir vissulega Esja en eins og þú ættir að vita þá er mjög algengt að tala og skrifa um Esjuna með greini. Esjan hefur þannig vissa sérstöðu meðal fjalla enda tölum við aldrei um Kötluna eða Hekluna. 

"Esja (oftast með greini, Esjan) er fjall á Kjalarnesi, sem er innan borgarmarka Reykjavíkur, og er eitt af einkennum höfuðborgarsvæðisins." https://borginokkar.is/thjonusta/esjan

Emil Hannes Valgeirsson, 6.4.2024 kl. 14:04

3 Smámynd: Haukur Árnason

Fændi minn einn, notaði nafnið minn með greini: "Er það Haukurinn"

Sakna bæði frændans og greinisins.

Haukur Árnason, 6.4.2024 kl. 18:11

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir skemmtilegan vorboða hér á blogginu Emil, -hvort sem er með eða án greinis.

Magnús Sigurðsson, 7.4.2024 kl. 08:11

5 identicon

Sæll aftur Emillinn.
Oft er sagt að þó lygin (vitleysan) sé endurtekin nógu oft þá verður hún aldrei að sannleik. Sama hver í hlut á. Það á einnig við um Reykjavíkurborg, sem á þeim vef sem þú bendir á, sýnir vankunnáttu í íslensku. Á forsíðu vefsins er bent á „Afþreyingar“! „Afþreying“ er eintöluorð.
Það er því ekki mikið að marka þá heimild sem þú notar. ;-)
Fjallið heitir Esja og er ranglega nefnd Esjan því sumum virðist það fara betur í munni.

Nonni (IP-tala skráð) 11.4.2024 kl. 12:49

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sæll Nonni. Ég vona að þú komir sömu athugasemd á framfæri við borgina, vísindavefinn og alla hina sem kalla Esju "Esjuna" nema þú sért þegar búinn að því. Þú hefur áður komið með þessa athugasemd hjá mér og ég veit alveg hvað þér finnst. Ég mun halda mínu striki og kalla heimaafjall mitt áfram Esjuna eftir hentugleika. Held þú verðir bara að lifa við það.

https://www.visindavefur.is/svar.php?id=9057

Emil Hannes Valgeirsson, 11.4.2024 kl. 13:34

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Annars hef ég velt því fyrir mér hvort Esja sé alveg rétt heiti á fjallinu. Kannski hefur það upphaflega fengið nafnið Kjölur sem vísun í bátslaga form á hvolfi og svo Kjalarnes kennt við það. Í dag er Kjölur notað yfir hæðirnar austur af Esju. Esja hefur þá verið notað yfir afmarkaðra svæði við bæinn Esjuberg. Kannski ætti maður frekar að skoða hvernig "Kjölurinn" kemur undan vetri...hmm.

Emil Hannes Valgeirsson, 11.4.2024 kl. 23:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband