Um ljós og óljós

Ég er ekkert öðruvísi en aðrir að því leyti að ég hef gaman af tilkomumiklum ljósum eins og ljósasúlunni hennar Jókó.
Einnig jólaljósum, stjörnuljósum, diskóljósum, allskonar lazer-ljósum og að ógleymdum ljósum himinsins - norðurljósunum. Allt býður þetta uppá stórkostlegt sjónaspil. Svo eru það öll þessi ljós sem lýsa okkur leið og við upplifum alla daga eins og stofuljósin og umferðaljósin. Þau eru sjónarspil út af fyrir sig en sökum hversdagsleika erum við ekki upptendruð þeirra vegna.
En hvað um myrkrið? Er það ekki vanmetið? Við sem búum hér í stórborginni Reykjavík kynnumst sjaldan myrkrinu. Í fyrra var gerð tilraun til að myrkva borgina með því að slökkva á götuljósum, það dofnaði eitthvað yfir borginni en ekki mikið meira. Ég man hér áður fyrr þegar allt var ekki eins fullkomið og það er í dag að ekki mátti gera smá veður öðruvísi en að öllu sló út og allsherjar rafmagnsleysi og myrkur lagðist yfir borgina. Ég veit að þannig eiga margir fínar minningar um kertalýst rafmagnsleysiskvöld í skammdeginu. Er ekki hægt að endurvekja þetta einhvernveginn og kannski beita til þess tækninni? Þar er ég með fína hugmynd. Væri ekki brilljant að forrita tölvurnar hjá Orkuveitunni þannig að einu sinni á hverjum vetri færi rafmagnið af allri borginni, öllum heimilum, fyrirtækjum, götuljósum, já meira að segja líka af friðarsúlunni og það sem meira er, það vissi enginn fyrirfram hvenær það gerðist, og hversu lengi, rafmagnið gæti jafnvel farið af í miðri Eurovison eða kosningasjónvarpi, en þó aðeins einu sinni á vetri. Það væri þó sennilega best að stilla þessu þannig af að rafmagnið færi bara af á kvöldin, þá yrðu áhrifin mest en tjón samfélagsins lítið. Fólk hangir hvort sem er aðallega fyrir framan sjónvarpið á kvöldin að horfa á einhvern óþarfa.
Já ég held að þarna gefist fólki kostur á einhverju athyglisverðu, allsherjar rafmagsleysi fær fólk til að hugsa, hvort sem það er um málefni Orkuveitunnar, frið á jörðu eða bara um stöðu okkar í alheiminum. Eða ... er þetta kannski óraunhæft? Eru skipulögð vandræði eitthvað sem ekki er hægt að bjóða fólki uppá. Já, ætli það ekki.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband