7.11.2007 | 21:32
Bjartari framtíð og hlýnandi loftslag?
Ég biðst velvirðingar á villandi fyrirsögn, en þessi grein er ekki skrifuð til að boða sæludaga hér á jörð, þó vissulega óska ég öllum bjartrar framtíðar svona almennt. Hinsvegar var ég að lesa grein á vefnum NASA Earth Observatory sem fjallaði um James nokkurs Hansen loftslagsfræðing og rannsóknir hans á hitastigi jarðar undanfarna áratugi og samspili agnarmengunnar og gróðurhúsalofttegunda. Ég mæli með þessari grein fyrir þá sem hafa áhuga á meintri hlýnun jarðar af mannavöldum. Þarna er nokkuð ítarlega fjallað um vinnu J. Hansen við að meta hnattrænar hitafarsbreytingar á sem réttasta hátt út frá þeim athugunum sem til eru og taka um leið tillit til þátta sem geta valdið villum eins og óeðlilegrar hlýnunnar vegna þéttbýlis. Svo er komið að þætti mannsins. Hansen þessi er alveg á því að aukinn þáttur koldíoxíðs C02 valdi sífellt auknum gróðurhúsaáhrifum og hækkunar hitastigs til lengri tíma, á meðan náttúrulegir þættir valda tímabundnum sveiflum.
... both human and natural activities could force climate to change. But Hansen knew that natural forcings, like volcanic eruptions or changes in the Suns activity, tend to go up and down over a long period of time whereas the human forcing from greenhouse gas emissions was steadily increasing.
Síðan eru rakin áhrif agnarmengunar (aerosol) á loftslagið sl. 100 ár. Agnarmengun dregur úr inngeislun sólar til jarðar og getur þannig lækkað hitastig, öfugt við gróðurhúsaáhrifin. Agnarmengunin á sér einnig stað í kjölfar stórra eldgosa en áhrif þess vara aðeins í nokkur ár. Frá stríðsárum og framundir 1970 jókst agnarmengun hlutfallslega meira en C02 og myrkvandi og kælandi áhrif agnarmengunnar (clobal dimming) náði yfirhöndinni. En svo snerist dæmið við um 1970 þegar aðgerðir hófust til að minnka óhreinan bruna við eldsneytisframleiðslu til að takast á við súrt regn og fleiri neikvæða þætti. Agnarmengun dvínaði þannig á meðan C02-aukningin hélt ótrauð áfram og útkoman varð endurnýjuð hnattræn hlýnun eftir 1970 sem hefur staðið síðan. Þannig má segja á kaldhæðin hátt að bjartari framtíð og hlýnandi loftslag fari saman. Hreinn bruni inniheldur sama magn af gróðurhúsalofttegundum og sótugur bruni, en hreinn bruni dregur hinsvegar ekki úr inngeislun sólar til jarðar til mótvægis og því hækkar hitinn. Ef stöðva á hlýnun verður því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda í takt við minnkandi sótmengun, eða að auka sótmengun aftur, sem hljómar svona frekar illa.
Hansen boðar að lokum að ef mannkynið heldur sínu striki með útblástur gróðurhúsalofttegunda, gæti hitastag jarðar hækkað um 2-3°C á þessari öld og þá yrði mesti hiti á jörðinni síðan fyrir 3 milljónum ára þegar sjávaryfirborð var um 25 metrum hærra en í dag.
Myndin hér að neðan er unnin úr greininni og sýnir breytingu á hitastigi og þróun agnarmengunar.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:33 | Facebook
Athugasemdir
Uss, uss, uss! Svona má ekki tala.
Þú ert á móti Hagvextinum og þú ert á móti fólkinu.
Best gæti ég trúað að þú sért líka á móti bönkunum okkar sem nýlega fengu frelsið eftir áratuga ánauð stjórnmálamanna.
Og nú ætlar Íbúðarlánasjóður að hækka vextina um áramótin.
Bráðum verðum við öll rík.
Bara ef við höfum ekki of miklar áhyggjur af vaxandi mengun og vansköpun barna. Og ekki af hungri þróunarríkjanna vegna vaxandi þurrka.
Árni Gunnarsson, 8.11.2007 kl. 12:26
Æjá, það er kannski ekki í tísku í dag að hafa áhyggjur af framtíðinni, við hér á Íslandi björgum okkur sjálfsagt, hvernig sem fer í öðrum heimshlutum.
Emil Hannes Valgeirsson, 8.11.2007 kl. 14:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.