Veðuruppgjör 2007

Nýtt ár er gengið í garð og þá gera menn upp síðasta ár á ýmsum sviðum. Fréttamenn gera upp fréttir, fjármálaspekúlantar gera upp fjármálin og veðurfræðingar gera upp veðurfarið. Það má segja að veðurfarslega hafi árið ekki verið ólíkt gengi hlutabréfanna því veðurgæðin okkur hliðholl fram eftir ári og náðu hæstu hæðum um mitt sumar en þá fór að síga á ógæfuhliðina og segja má að árið hafi fokið og rignt niður þar til botninum var náð rétt eins og úrvalsvísitalan.

Sem veðuráhugamanni læt ég ekki mitt eftir liggja og sýni hér mynd sem sýnir hitafar, sólskin og úrkomu liðins árs í Reykjavík. Hitalínuritið sýnir meðalhita hverrar viku og þá er miðað við hitann eins og hann er dæmigerður yfir daginn og er unnið upp úr mínum eigin skráningum. Sólskinssúlurnar sýna sólskinsdaga eða hversu marga daga bjart var yfir í mánuðinum skv. mínu mati. Þetta er því ekki sólskinsstundir enda þær ekki marktækar til að bera saman vetrar- og sumarmánuði. Úrkomusúlurnar sýna svo heildarúrkomu hvers mánaðar samkvæmt opinberum tölum.

vedur2007

Svo maður fari aðeins yfir þetta þá var hitafar ársins ekkert sérstaklega óvenjulegt miðað við síðustu ár. Þetta var hlýtt ár, eina almennilega kuldakastið var í janúar en aðrir vetrarmánuðir voru hlýir. Í maí kom bakslag í hitann sem virðist vera árvisst um þetta leiti. Sumarið var líka hlýtt en júlímánuður var sá næst hlýjasti frá upphafi. Það var þó engin hitabylgja sem stóð undir nafni í Reykjavík á árinu en hitinn náði þó upp í 21°C þann 13. júlí sem var heitasti dagur ársins í Reykjavík. Á sólarsúlunum sést vel hvað febrúar var bjartur enda ekki mælst meira sólskin frá árinu 1947. Maí var einnig mjög sólríkur eins og svo oft áður og sumarið kom líka vel út. Það er óhætt að segja að úrkoman hafi stolið senunni á seinni hluta ársins því eftir þurrt ár framan af varð þetta ár það úrkomusamasta í Reykjavík frá 1921. September og desembermánuðir settu báðir úrkomumet og stutt var í úrkomumet fyrir október. Margt meira má skrifa um veðrið á árinu en veðurstofan o.fl. gera þessu auðvitað ágætis skil en ég læt myndina tala.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég ætlaði að vera búin að setja inn athugasemd hér og þakka kærlega fyrir en svona er þetta - ef maður gerir hlutina ekki strax þá vilja þeir gleymast.

En kærar þakkir fyrir þetta greinagóða yfirlit og töfluna. Ég vistaði hana því mér fannst hún merkileg og upplýsingagildið ótvírætt.

Lára Hanna Einarsdóttir, 7.1.2008 kl. 01:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband