12.1.2008 | 14:36
Íslandsvinir við Gullfoss
Að þessu sinni skrifa ég hvorki um veður né náttúruhamfarir heldur tónlist, en samt þannig að íslensk náttúra kemur nokkuð við sögu. Árið 1983 kom út platan Porcupine sem var þriðja plata bresku hljómsveitarinnar, Echo & the Bunnymen, sem spilaði frekar þungt, kuldalegt en þó dálítið seiðmagnað nýbylgjurokk. Til að undirstrika anda tónlistarinnar hefur sjálfsagt enginn staður þótt heppilegri en Íslandið okkar til að myndskreyta plötumslagið og þarna eru þeir því mættir, búnir að stilla sér upp við sjálfan Gullfoss í klakaböndum og plötumslagið sennilega eitt það kuldalegasta í breskri tónlistarsögu.
Ég komst að þessu öllu saman þegar upphafslag plötunnar, The Cutter, var spilað í Skonrokki sællar minningar þarna um vorið. Fyrir utan þetta upphafslag er tónlistin á plötunni frekar óaðgengileg en smám saman náði maður þó að átta sig á hvílíkur gæðagripur þetta er og enn í dag er þetta með mínum uppáhaldsplötum. Hér er myndbandið góða með laginu The Cutter. Þetta er einfalt og tilgerðarlaust nýbylgjurokk ef bestu gerð með góðum stíganda og gæsahúð í lokin. Ekki skemmir fyrir að þarna má sjá svipmyndum úr Íslandsferðinni köldu bregða fyrir, snjór, klaki, Gullfoss og Vífilsfell. Ég hafði ekki séð þetta myndband nema í þetta eina sinn árið 1983 þar til ég fann það nýlega á YouTube, en það sem kom mér kannski helst á óvart er hvað menn eru ungir að sjá og þá sérstaklega Ian McCulloch, söngvari sveitarinnar.
Úr umsögn af YouTube: This was one of the first videos I ever saw when MTV first came on and it's still one of my favorites. ... Ian's voice never fails to give me chills on this song. Beautiful scenery too." (DeadlyDanish)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.