Verstu veðurmánuðir sl. 21 ár

Eftir þrotlausar rannsóknir á veðurfarinu hef ég nú tekið saman smá yfirlit yfir hvaða mánuðir hafa verið þeir verstu í veðurfræðilegu tilliti hér í Reykjavík síðustu 21 ár. Úr mörgum er að velja gætu sumir sagt enda ríkir sjaldan neinn lognmolla eða ládeyða yfir veðrinu hér. Ég lýsti því í færslu þann 7. janúar hvernig ég hef skráð veðrið frá árinu 1986 og gefið hverjum degi og mánuði veðurfarslega einkunn samkvæmt kerfi sem byggist á veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, vindi og hita. Hver dagur getur fengið einkunn á bilinu 0-8 og einkunn mánaðarins er svo meðaltalseinkunn allra daga mánaðarins. Það er ekki mikil breidd í mánaðareinkunnunum þegar tekið er meðaltal svona margra daga en flestir mánuðir fá einkunn sem er á bilinu 4 til 5 en allt fyrir neðan 4 er slæmt. Það getur vel verið að fólk sé ekki alltaf sammála hvað sé vont veður og sakni kannski einhverra mánaða þarna en þetta eru allavega niðurstöðurnar samkvæmt mínu mati.

Einkunn 3,3 - janúar 1989. Þessi mánuður fær þann vafasama heiður að fá lökustu einkunn allra mánaða sem ég hef skráð. Þessi mánuður markaði upphafið á mjög snjóþungum vetrarkafla sem stóð fram í apríl. Þarna var afar umhleypingasamt og mikill lægðargangur með hríðarveðrum þar sem allt fór á kaf í snjó með tilheyrandi umferðarteppum í borginni og þótt úrhellisrigningar með asahlákum hafi gert dagana 23. og 31. kom snjórinn jafnharðan aftur. Meðalhiti mánaðarins var við frostmark, sem er í meðallagi, úrkoma var nálægt því að vera tvöföld meðalúrkoma en þetta var hinsvegar sólaminnsti janúar í Reykjavík frá upphafi því sólin skein aðeins í tvær klukkustundir samanlagt.

Einkunn 3,4 - febrúar 1992, desember 1992, nóvember 1993 og desember 2004. Eins og aðrir slæmir mánuðir þá voru þessir mánuðir yfirleitt mjög umhleypingasamir með miklum lægðargangi hvassviðrum, úrkomu og sveiflum í hitastigi. Nóvembermánuðurinn '93 var þó kannski eftirminnilegastur því auk þess að vera mjög hvassviðrasamur þá er þetta úrkomusamasti mánuður allra mánaða frá upphafi mælinga í Reykjavík með 260 mm úrkomu, en það jákvæða var þó að hitinn var vel yfir meðallagi.

Einkunn 3,5 - janúar og febrúar 1993. Þarna eru tveir mánuðir í röð sem fá sömu lágu einkunnina. Janúarmánuðurinn var mjög kaldur ásamt því að vera illviðrasamur og mjög snjóþungur. Mánuðurinn státar líka af dýpstu lægð aldarinnar hér við land, 915 millibör, dagana 10-11 jan. Febrúarmánuðurinn var hinsvegar öllu hlýrri en var hinsvegar sólarminnsti febrúar sem mælst hefur. Síðdegis þann 12. febrúar gerði eftirminnilegt þrumuveður sem olli almennu rafmagnsleysi í Reykjavík. September 2007. Þessi septembermánuður síðasta haust kemst í þennan hóp enda var hann náttúrulega alræmdur, sólarlítill hvassviðrismánuður og úrkomusamasti september sem mælst hefur.

Einkunn 3,6 - apríl 1987, júní 1988, febrúar 1989, desember 1990, janúar 1992, mars 2000 og febrúar 2003. Hér eru alls sjö vondir mánuðir en ég ætla að láta mér nægja að minnast á júnímánuðinn því hann er versti sumarmánuðurinn sem ég hef skráð. Þetta var kaldur og rigningasamur mánuður og sólarminnsti júní í Reykjavík. Ekki bætti úr skák að verstu veður mánaðarins komu einmitt á sjómannadaginn og þjóðhátíðardaginn 17. júní.

Það er ekki ástæða til að telja upp fleira slæma mánuði á tímabilinu, þeim fer núna heldur fækkandi mánuðum sem fá slæma einkunn hjá mér, aðallega vegna aukinni hlýinda síðustu ára. Þess má svo geta að versti vetur í heildina er veturinn 1992-93 sem fékk aðeins 3,6 í einkunn en veturinn þar á undan 1991-92 fékk örlítið skárri einkunn eða 3,7. Versta sumarið var svo árið 1989 með einkunnina 4,2. En talandi um slæm sumur þá prófaði ég að meta út frá gögnum Veðurstofunnar hvernig hið algerlega ómögulega sumar, árið 1983, kom út í einkunnarkerfi mínu og fékk út einkunnina 3,5. Þar fékk júlímánuðurinn aðeins 3,2 í einkunn, sem er lægri einkunn en ég hef gefið nokkrum mánuði. Ágúst var litlu skárri með 3,3 en júní fékk 4,1 sem þó er falleinkunn miðað við sumarmánuð.

Læt þetta nægja af veðurleiðindum en í framhaldi af þessu er sjálfsagt að skoða góðviðrismánuði. Það yfirlit kemur von bráðar en ég get þó sagt það strax að síðastliðið ár kemur þar eitthvað við sögu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Gaman að þessu! En sumarið 1983 var annað en gaman. Vonandi fáum við aldrei annað eins.

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.1.2008 kl. 00:37

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta er alveg stórskemmtileg pæling. Mér eru minnisstæðir veturnir 92-93, 93-94 og 94-95 af því þá bar ég út DV í þremur hverfum alla daga til að nýta göngutúrana með tíkina mína. Þetta voru fremur snjóþungir vetur, fólk mokaði ekki tröppurnar sínar og ég var mjög fegin þegar voraði og maður gat farið að ganga á gangstéttunum aftur. En tíkarskottinu fannst mjög gaman í snjónum og naut hans í botn.

Lára Hanna Einarsdóttir, 17.1.2008 kl. 00:42

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég hef nú aðallega haft gaman af þessu sjálfur en þessar einkunnargjafir er sennilega það sem hefur hefur drifið mig áfram í þessum skráningum. Ég man vel eftir kalda og blauta sumrinu 1983 en það varð til þess að ég fór að velta veðrinu fyrir mér.  Veturinn 94-95 var líka eftirminnilegur þó að hann hafi ekki fengið mjög slæma einkunn hjá mér, en þá var mjög kalt en illviðrin og snjóþyngslin bitnuðu helst á þeim fyrir norðan og vestan. Eftir 1995 vil ég meina að veður hafi svo farið batnandi á landinu.

Emil Hannes Valgeirsson, 17.1.2008 kl. 10:25

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Fékk allt í einu hugmynd sem ég verð að bera undir þig:
Er hægt að panta hjá þér umsögn um sérstaka mánuði viss ár?

Þannig er að við lestur þessarar færslu fór ég að rifja upp tvö ferðalög sem ég fór í hér innanlands um mitt sumar - en í bæði skiptin hrökklaðist ég aftur heim vegna kulda og vosbúðar.

Hið fyrra var í júlí 1985. Þá byrjaði ferðalagið í Skagafirðinum í hráslaga. Svo var farið til Akureyrar og ég horfði þar á Live Aid sem var 13. júlí. Ég á myndir af okkur vinkonunum og börnunum okkar kappklæddum sem að vetri væri á Akureyri. Við mæðginin héldum síðan til Húsavíkur að heimsækja vin okkar. Þar var staldrað við í 2-3 daga en við gáfumst upp og flugum heim þegar snjóaði í öll fjöll og langt niður í byggð.

Hið seinna sumarferðalag okkar mæðgina var í júlí 1988. Tekinn öfugur hringur og gist í tjaldi. Ekki man ég dagsetningarnar nánar. Skemmst er frá að segja að við sáum aldrei fjallstopp og okkur var kalt. Á Mývatni var við frostmark á nóttunni. Þegar við náðum til Akureyrar var hið versta veður og hugðist ég splæsa á okkur gistiheimili yfir nóttina því við vorum orðin svo köld og hrakin. Ekki var kytru að fá í bænum því allt ferðafólk hafði þegar flúið í hús, en hjálpsöm stúlka í móttökunni á Eddu hótelinu fann loks fyrir okkur herbergi í bændagistingu í Eyjafirðinum.

Daginn eftir brenndi ég suður og heim í hlýjuna. Nokkrum dögum seinna var ég orðin svo veik að ég skrönglaðist til læknis sem skipaði mér beint í rúmið með sýklalyf. Ég hafði fengið bronkítis af volkinu og var hársbreidd frá lungnabólgu.

Það orkar stundum tvímælis að ferðast um Ísland á sumrin... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.1.2008 kl. 11:04

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sæl Lára, ég hef nú reyndar bara safnað upplýsingum um veðrið í Reykjavík. En með veðrið á Norðurlandi þá veit ég að það er eins gott að fylgjast vel með veðurspám ef maður ætlar í tjaldferðalag þangað, því þar getur snjóað á sumrin og rokið svo á eftir uppí 25 stiga hita. Ég veit líka að sumarið 1985 var slæmt og kalt fyrir norðan en miklu betra fyrir sunnan, þannig að það stemmir. Annars get ég ekki svarað þér betur í bili, ég er ekki með veðurbækurnar mínar í vinnunni en þú gætir tékkað á þessum veðurkortum frá veðurstofunni (http://andvari.vedur.is/athuganir/vedurkort/eldra/) þar sem hægt er að sjá gömul veðurkort fyrir landið með þvi að slá inn dagsetningu. Svo veit ég að hann Siggi vinur okkar á allar hugsanlegar veðurupplýsingar.

Emil Hannes Valgeirsson, 18.1.2008 kl. 13:29

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Takk fyrir þetta, Emil. Ég kíkti á kortin frá miðjum júlí 1985 og það stemmir að fyrir norðan var kalt og norðanstrekkingur ríkjandi dag eftir dag.

En ég man ekki nægilega vel dagsetningar frá ferðinni 1988 til að sjá þetta strax. Mig minnir þó að víðast hvar þar sem ég kom hafi ég fengið að heyra að veðrið hefði bara versnað daginn áður en ég kom - eða eitthvað í þá áttina. Ég virtist elta kuldann, rigninguna og súldina.

Ég prófa Sigga, hann á kannski eitthvað í handraðanum.

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.1.2008 kl. 13:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband