28.2.2008 | 21:20
Pínulitla-ísöldin
Það er óhætt að segja að við höfum núna upplifað vetrartíð sem stendur undir nafni og ekki annað að sjá en að svo verði eitthvað áfram og er þetta tíðarfar farið að minna að mörgu leyti á það sem í boði var á árum pínulitlu-ísaldarinnar. En hvaða pínulitla-ísöld, gæti einhver spurt. Allir hafa heyrt um ísöldina sem lauk fyrir 10.000 árum, flestir hafa heyrt um litlu-ísöldina sem lauk fyrir 100 árum en sennilega hefur enginn heyrt talað um um pínulitlu-ísöldina, sem er skiljanlegt því þetta er heiti sem ég hef sjálfur komið mér upp yfir annars vel þekkt kuldaskeið sem hófst árið 1965 og stóð yfir næstu áratugi. Nú vill svo til að pínulitla-ísöldin skall á sama ár og ég kom í heiminn þannig að ég óx upp með henni og get því vissulega sagt að ég sé af pínulitlu-ísaldarkynslóðinni.
Mynd: Höfundur kannar snjóalög í upphafi pínulitlu-ísaldarinnar.
Fyrstu merki um pínulitlu ísöldina var þegar mikill hafís kom að landi í upphafi árs 1965, og lá útfyrir norðurlandi fram eftir vetri og olli þar nokkrum kuldum. Á suður- og vesturlandi var árið hinsvegar nokkuð hlýtt þar til um miðjan nóvember þegar fór að kólna. Síðan tóku við margir kaldir mánuðir og mörg köld ár, allavega miðað við það sem fólk átti að venjast fram að því. Hafísinn lét sjá sig og af meiri þunga en menn höfðu kynnst áratugum saman og jöklarnir sem höfðu verið að hopa frá lokum litlu-ísaldarinnar snéru nú vörn í sókn. Til að átta sig á hversu kalt þetta tímabil var þá reiknast mér til að meðalhitinn á árunum 1966-1995 í Reykjavík hafi verið 4,2°C sem er 0,7 gráðum lægra en næstu 30 ár þar á undan og heilli gráðu kaldara en meðalhiti síðustu 10 ára í Reykjavík. Og það munar um minna.
Að sjálfsögðu gat ég ekkert skynjað að ég var að alast upp á einhverju köldu tímabili að öðru leiti en því að maður heyrði oft eldra fólk tala um að það hafi alltaf verið svo gott veður þegar það var að alast upp. Í mínum uppvexti eru sól og sumarhitar eitthvað sem er manni ekkert sérstaklega minnistætt en aftur á móti finnst mér oftast hafa verið snjór og frost á veturna. Á þessum árum þurfti engar skautahallir til að fara á skauta, því vötn voru yfirleitt frosin á veturna. Snjórinn var líka vel nýttur hvort sem var til að renna sér niður brekkur, sem allskonar byggingarefni og svo að sjálfsögðu til að teika bíla sem reyndar var ekki vel séð, en sú íþrótt hefur að mestu lagst af bæði vegna lélegra vetra og samvaxinna stuðara á bílum. Vorið 1979 þegar ég fermdist fékk ég skíði að gjöf en þá var pínulitla-ísöldin í hámarki en meðalhiti þess árs var aðeins 2,9°C í Reykjavík. Þá var hægt að fara á skíði í Bláfjöllum langt fram í maí og þótti bara sjálfsagt en sá maímánuður var kaldasti maímánuður á landinu síðan á tímum litlu-ísaldarinnar.
En hvenær lauk svo pínulitlu-ísöldinni? Lok hennar eru ekki eins vel afmörkuð og upphaf hennar en upp úr 1985 fór hitafarið eitthvað að mildast. Árið 1987 var nokkuð hlýtt og líkt því sem verið hefur undanfarin ár en sennilega hefur árið 1995 endanlega markað lok pínulitlu-ísaldarannar. Það ár var meðalhitinn í Reykjavík 3,8°C en eftir það hefur hann ekki farið undir 4,5°C. Veturinn 1995-96 var nokkuð þægilegur um allt land en þá önduðu menn líka léttar, því óttast var jafnvel að byggð gæti lagst af á Vestjörðum eftir snjóþyngsli og snjóflóð veturinn áður. Kannski var hið mannskæða snjóflóð á Flateyri lokaatburður pínulitlu ísaldarinnar, en það féll aðfaranótt 26. október 1995, 30 árum eftir að pínulitla ísöldin hófst. Þótt enn í dag sé að vísu óttast um byggð á Vestfjörðum eru það samt aðrir þættir en veðrið sem valda þeim áhyggjum.
En hvar erum við svo stödd í dag? Eru kuldarnir nú upphafið á nýju pínulitlu-ísaldarskeiði eða einhverju stærra, eða er þetta bara smá truflun í endalausri gróðurhúsahlýnun. Ég ætla ekki að velta því upp hér en það er þó staðreynd að Ísland er á mjög viðkvæmu svæði enda stutt í ískalda vinda og sjávarstrauma og lítilsháttar breyting á þeim getur ráðið miklu um hitafar hér.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:11 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er fróðleg og skemmtileg færsla. Í mínu barnsminni var alltaf gott veður á sumrin en ég fæddist tíu árum áður en pínulitla ísöldin hófst. Nú erum við búin að hafa 12 hlý ár þar sem hvert hitametið rak annað. Við þurfum vísast að bíða í einhver ár eftir því að vita hvort veturinn í vetur er stakur eða hvort þetta veður haldi áfram næstu árin.
Sigurður Þór er að spá í svipað í sinni nýjustu færslu.
Lára Hanna Einarsdóttir, 1.3.2008 kl. 12:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.