Með Castró-bræðrum á Kúbu

FidelCastro

Það er nú eiginlega ekki hægt annað á þessum tímamótum en að rifja það upp þegar ég var viðstaddur útifund með Fidel Castró á Kúbu sumarið 1989. Ég var þarna mættur ásamt nokkrum öðrum ungmennum frá Íslandi, en til Kúbu fórum við í mánaðarlanga vinnuferð á vegum Vináttufélags Ísland og Kúbu og unnum þar ýmis störf ásamt stórum hópum frá hinum Norðurlöndunum. Þessi ferð var auðvitað mikið ævintýri en það sem bar hæst var náttúrulega þegar allur hópurinn ásamt ógnarstórum hópi innfæddra átti þess kost að hlýða á eina af hinum mikilfenglegu ræðum Fidel Castrós. Ræðan var haldin þann 26. júlí, en sá dagur markaði upphaf byltingarinnar þegar Castró og fleiri skæruliðar gerðu misheppnaða árás á Moncada herbækistöðina árið 1953. Þrátt fyrir mikið mannfall í hópnum slapp Fidel Castró lifandi en dúsaði í fangelsi í nokkur ár þar sem hann lagði á ráðin um næstu byltingartilraun.

Ræða Fidels var aðalnúmerið á þessari samkomu og hófst eftir langa bið og eftirvæntingu mannfjöldans sem stytti sér stundir fram að ræðunni með því að fara með í einum kór sígildar slagorðaþulur til heiðurs forsetanum og byltingunni. Ekki þarf að taka fram að mikil fagnaðarlæti brutust fram þegar karlinn sjálfur loksins heiðraði svæðið með nærveru sinni og hóf upp raust sína. Og nú hófst mikil ræða. Castró rifjaði upp byltingarárin og allar þær framfarir sem orðið höfðu í landinu frá stjórnartíð fyrirrennara síns, ameríkanavinarins og einræðisherrans Batista sem þeir byltingarmenn steyptu af stóli. Ég get nú reyndar ekki sagt að ég hafi annars náð ræðunni í smáatriðum, við áttum þessum kost að fá enska þýðingu í heyrnartæki en hlustunarskilyrðin voru ekki góð og gáfust ég og fleiri upp á þeim apparötum að lokum. Hinsvegar stóð ekki á viðbrögðum okkar að standa upp og fagna með fjöldanum þegar við átti enda ágætt að teygja aðeins úr sér öðru hvoru. Castró er þekktur fyrir langar ræður, þær geta staðið klukkustundum saman en að þessu sinni þótti hann bara frekar stuttorður og talaði í innan við tvo tíma einungis. Ekki var annað að heyra en að viðstaddir hafi tekið ræðunni vel að henni lokinni, já afar vel, og tugþúsundum saman hrópaði fólkið Viva Fidel, Viva la Revolution!

Ramon CastroEkki nóg með það. Í þessari ferð hittum við einnig annan Castró, nefnilega Ramón Castró, þann elsta af þremur Castró-bræðrum. Ramón Castró kom fyrir sem mjög viðkunnanlegur maður, hann barðist ekki í byltingunni eins og bræður hans en átti þó sinn þátt í því öllu saman. Við heimsóttum hann þarna á heilmikið nautgripabú í eigu ríkisins að sjálfsögðu, en undir hans stjórn, enda Ramón Castró landbúnaðarmaður mikill. Það er ekki hægt að segja annað en það hafi verið bræðrasvipur með þeim tveimur og byltingarskeggið og græna derhúfan til staðar í báðum tilfellum.

Já, það var bjart yfir mönnum sumarið 1989 á Kúbu og byltingin gekk sinn vanagang, þó ekki endilega fram á við, því þarna gengu menn í sömu sporum. Í sæluríkinu á Kúbu voru frekari framfarir óþarfar. En það voru blikur á lofti. Strax þarna haustið eftir byrjaði óróinn í Austur-Evrópu og fyrir áramót var kommúnisminn þar fallin. Í árslok 1991 urðu Sovétríkin að engu og þá voru Kúbverjar skildir eftir einir og óstuddir og mjög erfið ár tóku við. En stjórn Kúbu hefur lifað þetta af og Castróbræður allir á lífi. Heldur hefur efnahagsástandið í landinu lagast með auknum túrisma þótt enn gangi menn í sömu pólitísku sporum. Þá er bara spurningin hvað gerist nú þegar sá yngsti af þeim bræðrum, Raúl Castró, hefur tekið við forsetastóli. Sá er ekki ekki nema 76 ára, ég hef ekki hitt hann og get því ekki alveg dæmt um það.

Kuba_merki

 


mbl.is Raúl Castro kjörinn forseti Kúbu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Gaman að lesa þetta. Hlýtur að hafa verið mikið ævintýri. Ég fór til Kúbu nokkrum árum seinna, eða um 1997 eða 98 og heillaðist af landi og þjóð þótt engan Castró-bræðra hafi ég nú hitt, því miður. Mig hefur alltaf langað að fara aftur og dvelja lengur. Góðvinur minn, sem er kanadískur af íslenskum ættum og búsettur hér, á hús á Kúbu og fer þangað að minnsta kosti árlega, stundum oftar. Honum líður mjög vel þar.

Lára Hanna Einarsdóttir, 25.2.2008 kl. 17:05

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Cuba Sí.

Emil Hannes Valgeirsson, 25.2.2008 kl. 23:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband