3.2.2008 | 10:57
Örlítil veðurminning
Vetrarnótt eina fyrir 17 árum lagði ég af stað fótgangandi heim á leið eftir samkvæmi í Vesturbænum. Það er þó nokkur ganga þaðan og upp á Háaleitisbraut þar sem ég bjó en ég ætlaði ekkert að láta smá vegalengd aftra mér. En það var hins vegar verra að veðrið þarna um nóttina var ekkert til að hrópa húrra fyrir því þarna var komin heilmikil slydda eða kalsarigning af verstu gerð með suðaustan strekkingsvindi. Snjórinn sem hafði fallið daginn áður var orðinn að gráu slappi sem blandaðist við vatnsleginn á götunum og smaug bleytan léttilega í gegnum þunnt skótauið. Kaldur og hrakinn játaði ég mig loks sigraðan á miðri leið og kláraði ferðina rennblautur í hlýjum leigubíl. Ég vaknaði svo heima um kl. 10 morguninn eftir, leit út um gluggann og sá að veðrið sem ég hafði hrakist í um nóttina hafði þróast yfir í sannkallaðan veðurofsa. Í 10 fréttum útvarps sem þá voru að hefjast voru miklar fréttir af ýmsu sem tengdist þessu óveðri þannig að greinilega gekk mikið á. Ég hlustaði síðan spenntur á formlega útvarpsveðurspá frá Veðurstofunni en rétt áður en kom að veðurlýsingu fyrir einstaka staði fór rafmagnið af gjörvallri borginni og kom ekki á aftur fyrr en nokkrum klukkustundum og mörgum vindhviðum síðar. Dagurinn sem þannig hófst var 3. febrúar 1991 en þá geisaði eitt versta óveður sem komið hefur í Reykjavík á síðari árum.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt 4.2.2008 kl. 09:17 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Emil !
Það hefur verið slark á þér laugardagskvöldið 2. febrúar 1991 (vikudagarnir eru þeir sömu í ár). Skemmtileg lýsing, en svafstu svo af þér mesta veðurofsann um morguninn ? Hvað með SV-fárvirðrið upp úr hádeginu. Þá hefur þú væntanlega verið vel vaknaður ! Sjálfur á ég engar minningar frá þessum degi nema úr kvöldfréttum NRK í Osló sem sýndi bíl takast á loft við bensínstöð sem ég komst að síðar að hefði verið í Keflavík. Hins vegar hélt ég heilan fyrirlestur um þessa merkilegu lægð og tilurð hennar á ráðstefnu norrænna veðurfræðinga árið eftir.
ESv
Einar Sveinbjörnsson, 3.2.2008 kl. 23:41
Ég man eftir þessu veðri, eða þannig. Lá fárveik heima hjá mér og sonurinn var í pössun hjá ömmu sinni á meðan. Svaf veðrið af mér en fékk stórkostlegar og myndrænar lýsingar hjá þeim - og fleirum reyndar líka.
Ég var hálfspæld að hafa misst af þessu.
Lára Hanna Einarsdóttir, 3.2.2008 kl. 23:50
Ég hafði þessa lýsingu ekki lengri en mér finnst gaman eftirá að hafa upplifað aðdraganda þessa veðurs sem reyndist síðan öllu verra en spáð var. Mér skilst að suðaustanáttin hafi kannski verið verst þarna um 10 leitið en ég man vel eftir látunum í suðvestanáttinni sem kom eftir hádegið og hvernig við á heimilinu óttuðumst að stóri stofuglugginn gæfi sig hreinlega í verstu hviðunum. Svo jók það enn á dramatíkina þetta rafmagnsleysi sem stóð ansi lengi.
Emil Hannes Valgeirsson, 4.2.2008 kl. 00:15
Lýsingin er ljómandi góð eins og hún er, þarf ekkert að vera lengri. Ég svaf í tvo sólarhringa og vissi ekkert af þessum ósköpum.
Lára Hanna Einarsdóttir, 4.2.2008 kl. 00:28
Lára, það er alveg óafsakanlegt að sofa svona veður af sér þótt maður sé fárveikur.
Emil Hannes Valgeirsson, 4.2.2008 kl. 00:42
Ég veit það og iðrast ennþá. Hef reynt að kenna lækninum um af því hann gaf mér fyrst vitlaus lyf, en allt kemur fyrir ekki.
Ég er miður mín.
Lára Hanna Einarsdóttir, 4.2.2008 kl. 00:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.