Sjónhverfingar á yfirborði Merkúr

Hér um daginn birtust okkur myndir sem geimfarið Messenger sendi frá sér af yfirborði reikistjörnunnar Merkúr og birtust þær í fréttum í síðustu viku. Þar mátti sjá í fyrsta skipti stór svæði á plánetunni sem fram að þessu höfðu verið ókönnuð og kom þá ýmislegt óvænt í ljós eins og hugsanleg ummerki um eldvirkni, en Merkúr hefur hingað til verið talinn kaldur og storknaður hnöttur eins og tunglið. Á Merkúr er fjöldi loftsteinagíga og sumir þeirra bera vitni um að þar hafi eldvirkni átt sér stað eins og þessi sem hlotið hefur nafnið Símagígurinn, því landslagið í honum miðjum, séð úr lofti, líkist risastóru símtóli í gamla Landsímastílnum. Mynd af þessum gíg birtist í frétt á visir.is og þaðan er þessi mynd fenginn.

merkur1

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 En þá kem ég að því sem ég ætlaði í raun að skrifa um, en það er hvernig við skynjum landslagið á myndum sem þessari. Eru þetta bungur sem við sjáum á yfirborðinu eins og á sjóðandi hafragraut eða eru þetta gígar eða dældir á yfirborðinu? Það getur vel verið að fólk skynji þetta misjafnt, en ég sé þetta allavega sem bungur þótt ég viti betur. Þarna eru sjónhverfingar á ferðinni, tilkomnar vegna stefnu skuggana frá sólinni. Við erum vön því sem jarðbundnar verur að birtan komi ofanfrá og að skugginn myndist því á þeim fleti sem snýr niður miðað við okkur. Því gerist það gjarnan ef við horfum á tvívíða mynd af yfirborði að fjarvíddarskynjunin brenglast ef birtan kemur ekki að „ofan“. Þá er ekkert annað að gera en að snúa myndinni um 90° þannig að skuggarnir vísi niður og birtan upp og sjá, gígarnir koma örugglega í ljós ... eða hvað?

merkur2

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Já, þetta er eitt af því sem við spáum í teiknararnir. Þeir vita þetta einnig sem teikna fínu landakortin þar sem mishæðir eru táknaðar með skuggum og birtu, því skuggarnir eru oftast á suðurhlið fjallana eins skrítið sem það er, en alls ekki á norðurhlið, því þá skynjuðum við fjöll sem dali og öfugt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband