7.4.2008 | 00:50
Hvernig kemur Esjan undan vetri?
Síðustu þrjú ár hef ég tekið ljósmynd af Esjunni frá sama sjónarhorni í fyrstu vikunni í apríl. Þegar teknar eru myndir svona með árs millibili er tilvalið að gera samanburð á snjóalögum en um þetta leiti ársins má gera ráð fyrir að ekki bæti í snjóinn í fjallinu að ráði og bráðnunartími snjóskaflanna hefjist fyrir alvöru. Það þarf ekkert koma á óvart að eftir þennan vetur er meiri snjór í Esjunni en undanfarin ár en suðurhlíðar Esjunnar eru reyndar ekki snjóþungt svæði svona yfirleitt. Frá árinu 2001 hafa allir snjóskaflar í Esjunni sem sjáanlegir eru frá borginni horfið á sumrin enda hafa öll ár þessar aldar verið hlý. Nú er bara spurning hvað gerist á þessu ári, er þetta nægilegur snjór til að lifa af sumarið?
Ég hef merkt inná síðustu myndina þá staði þar sem snjóskaflar í Esjunni lifa lengst. Til vinstri er skafl vestur undan Kerhólakambi sem er mjög lífseigur á sumrin þótt hann sé ekki stór og í kassanum til hægri þar sem er Gunnlaugsskarð eru nokkrir skaflar sem bráðna seint eða jafnvel ekki á sumrin.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Þettaætti nú allt að bráðna ef sumarhlýindi verða álíka og þau hafa verið síðustu ár.
Sigurður Þór Guðjónsson, 7.4.2008 kl. 10:16
Ég giska reyndar á að síðustu skaflarnir hverfi ekki fyrr en seint í september. Veltur þó á sumrinu.
Emil Hannes Valgeirsson, 7.4.2008 kl. 12:02
Það verður fróðlegt að fylgjast með skaflinum í Gunnlaugsskarði...
Ágúst H Bjarnason, 7.4.2008 kl. 15:48
Ég hef fylgst með þessu árum saman án þess þó að taka svona myndir. Gaman að þessu!
Lára Hanna Einarsdóttir, 8.4.2008 kl. 01:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.