18.4.2008 | 00:13
Hnattrænu kuldakasti lokið?
Það var mikið bakslag í hitafari jarðar nú í vetur sem vakti mikla athygli, sérstaklega hjá efasemdarmönnum um hlýnun jarðar. En ef tekið er mið af nýjustu mælingum NASA á hitafari jarðar (GISS-gagnaröðin) er ekki annað að sjá en að þetta kuldakast sem herjaði í vetur sé nú að baki. Samkvæmt mælingum NASA rauk hitinn upp í mars síðastliðnum upp í það að vera 0,67 C° yfir meðallagi sem er talsverður munur frá því í janúar sem var aðeins 0,12 C° yfir meðallagi, en þá er miðað við frávik frá meðalhita jarðar á tímabilinu 1951-1980. Það sem meira er, síðastliðinn mars var í 3.-4. sæti yfir hlýjustu marsmánuði frá upphafi mælinga, sem ná aftur til 1880. Hitalínuritið hér að neðan teiknaði ég en það sýnir hitafar jarðar síðustu 15 mánuði eða frá ársbyrjun 2007 eftir tölum frá NASA. Upphafspunkturinn sem er janúar 2007 hefur mjög hátt gildi en hafa skal í huga að sá janúar telst hafa mesta jákvæða frávik frá meðalhita af öllum mánuðum sem skráðir eru. Janúar síðastliðinn var hins vegar kaldasti janúar frá árinu 1989. Þetta mikla stökk upp á við í hita er merkilegt ef rétt er og telst vera með því allra mesta sem gerist. Skýringin gæti verið sú að að talsverð hlýindi hafa verið í Asíu og svo hefur Kyrrahafsveðurkerfið La-Nina verið að veikjast undanfarið en það er svona almennt talið hafa valdið þessari kólnun í vetur.
Það eru fleiri aðilar en NASA, sem meta hitafar jarðar eins og RSS (Remote Sensing Systems of Santa Rosa), UAH (University of Alabama Huntsville) og HadCRUT (UK's Hadley Climate Research Unit Temperature anomaly). Það má alveg geta þess fyrir þá sem efast um mikla hlýnun jarðar að þær mælingar hafa ekki sýnt eins mikla hækkun hita núna á milli mánaða eins hjá NASA, þótt allir séu sammála um að hitinn hafi hækkað frá því í janúar og febrúar. Vísindamenn NASA eru miklir boðbera hnattrænnar hlýnunnar en hafa þó þá sérstöðu að taka heimskautasvæðin með í hitareikninginn og það hefur vafalaust sín áhrif. Ég hef séð gagnrýni á þessar nýjustu tölur frá NASA um hitafar í mars, sem eiga kannski rétt á sér því það vantar inn að þessu sinni tölur frá suðurhluta Afríku og eitthvað víðar. En til samanburðar kemur hér tafla frá HadCrut sem sýnir hitafar jarðar frá 1988. Þar sést svipuð endurkoma á hitafari og skv. NASA-GISS.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:16 | Facebook
Athugasemdir
Var svona að velta því fyrir mér, hvort kjarnorkutilraunir Bandaríkjamanna og Rússa í lofthjúði Jarðar í den, hafi e-ð með breytingar á veðurfari þessi misserin að gera.
Svo er það spurningin með súrefni andrúmsloftsins, fer það minnkandi á kostnað CO2 og ef svo er, hvað þolir líf á plánetunni mikinn „súrefnisskort“?
Ásgeir Kristinn Lárusson, 18.4.2008 kl. 00:41
Ekki veit ég um hvort kjarnorkutilraunir hafi áhrif á veðurfar og ekki hef ég heyrt að við þurfum að hafa áhyggjur af súrefnisskorti. Ef CO2 í andrúmslofti eykst vegna bruna þá ætti vöxtur plantna og ljóstillífun að aukast og þar með súrefni. En ef menn á sama tíma fella skóga jarðar þá má kannski hafa áhyggjur af súrefnisskorti í framtíðinni.
Emil Hannes Valgeirsson, 18.4.2008 kl. 10:03
Menn rjúka upp eins og hálfvitar hve nær sem koma afbrigðilega kaldir eða hlýir mánuðir en auðvitað veðrur að sjá þetta allt í lengra samheingi eins og þú náttúrlega veist. En hugsið ykkur hryllingin ef kæmi í ljós að súrefni andrúmsloftsins tæki að minnka hröðum skrefum!
Sigurður Þór Guðjónsson, 20.4.2008 kl. 15:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.