Árið 2000. Spáð í gamla framtíðarspá

Þótt það sé áhugavert að velta fyrir sér framtíðinni er ekki síður áhugavert að velta fyrir sér framtíð fortíðarinnar eða öllu heldur framtíðinni eins og menn sáu hana fyrir sér í fortíðinni. Árið 1966 hafði hinn vestræni heimur upplifað mikið framfaraskeið í nokkra áratugi ekki síst í Bandaríkjunum og hinir vitrustu menn sáu enga ástæðu til að efast um að svo yrði um langa framtíð. Það ár birtist í hinu ágæta tímariti Samvinnunni úttekt á því hvernig svokallaðir fúturistar í Bandaríkjunum sáu fyrir sér hátækni þjóðfélagið 34 árum síðar, þ.e. árið 2000. Nú er ég búinn að taka saman í ekki mjög löngu máli helstu framfaraatriðin sem talað er um í umræddri grein en það er greinilegt að eitt og annað hefur ekki alveg gengið eftir og mun kannski aldrei gera. Það má líka alveg velta fyrirsér hvort þarna sé að finna dálitla oftrú á getu mannsins til að skapa sér sæluríki hér á jörð.

2000

 
Borgarlífið. Því var spáð að um 90% íbúanna byggju í borgum, allavega í Bandaríkjunum. Til að allur sjá fjöldi sem í borgunum búa kæmust leiðar sinnar þyrfti umferðin ekki bara að eiga sér stað á hefðbundnum brautum ofanjarðar og neðan heldur einnig í loftinu með einhverjum hætti. Þarna er væntanlega verið að tala um hina fljúgandi bílaumferð sem alltaf kemur fram í svona spám. Ekki var þó gert ráð fyrir því að allir þyrftu að yfirgefa heimilið sitt á hverjum degi til að stunda sína vinnu, því hægt væri að notast við símatæki sem tengdist sjónvarpsskjá. Ætli það heiti ekki tölva í dag?

Ferðalög. Menn reiknuðu með því að hljóðfráar farþegaþotur yrðu orðnar úrelt fyrirbæri í lengri ferðum árið 2000, þess í stað færu menn á milli heimsálfa með eldflaugum á örskotsstundu. Ferðalög til tunglsins teldust þá ekki til tíðinda og farið yrði að huga að mönnuðum ferðum til Mars og Venusar.

Mengunarvarnir og veðurstjórnun. Til að verjast sót og rykmengun í borgum átti að vera komin einföld lausn. Risastór kjarnorkuver stórborganna framleiða ekki bara rafmagn heldur einnig mikinn varma sem verður beint út í andrúmsloftið með þeim hætti að mikið hitauppstreymi myndast sem lyftir fúla borgarloftinu upp í hæstu hæðir en í staðinn streymi að ferskara og svalara loft með hafgolunni. Í leiðinni átti þetta svo að auka úrkomu á sólþurrkuðum svæðum og bæta uppskeru og gróðursæld.

Matvælaframleiðsla. Spáð var að mannfjöldinn á jörðinni árið 2000 yrði um 6 milljarðar (sem var nærri lagi). Til að seðja sívaxandi fólksfjölda voru helstu vonir bundnar við mikla fiskirækt, en úr fiskinum yrði búið til korn eða duft sem síðan væri hægt að umbreyta í fínustu kjötrétti eða aðrar kræsingar.

Læknavísindin. Auðvitað var spáð miklum framförum á þessu sviði sem vissulega hafa líka orðið. Merkustu framfarirnar áttu þó að vera á sviði heilalækninga með aðstoð efnafræði og rafmagnslækninga þannig að hægt yrði að bæta alla skapgerðarbresti og einnig minnisleysi með lyfjagjöfum. Hægt átti að vera að „breyta kjarklitlum vesalingum í framagjarnar hetjur“ og konur þyrftu ekki annað en að skreppa út í búð eftir skapbætingarpillum sem þær gætu síðan laumað í kaffibolla eiginmannsins.

Ný tækni fyrir húsmæður. Húsmæður allra heimila gátu séð fram á bjartari tíð með miklum tækniframförum í eldhúsinu. Innkaup yrðu gerð með símasjónvarpinu þar sem pantað yrði fyrir alla vikuna. Síðan væri matnum stungið í heilmikla vél og matseðill vikunnar saminn. Maskínan með aðstoð rafmagnsheilatækni átti svo að sjá um framhaldið og afgreiða tilbúna rétti handa heimilisfólki á réttum tíma og sjá svo að sjálfsögðu um uppvaskið á eftir. Að vísu er smá fyrirvari með innkaupin því talað er um að „konur séu nú einu sinni þannig gerðar, að þær vilji helzt fara út í búðirnar og handleika þar vörurnar sjálfar.“

Atvinnulífið. Vegna mikillar sjálfvirkni í iðnaði og viðskiptum þóttust menn sjá fram á að lítil þörf væri á vinnuafli og sáu sumir fyrir sér að einungis 10% íbúa hátæknisamfélagsins þyrftu yfir höfuð að vera í vinnu. Þetta þýddi samt ekki endilega að fólkið þyrfti aldrei að vinna, því þessu mætti mæta með mjög stuttri vinnuviku eða mjög stuttri starfsævi. Vegna mikilla afkasta vélanna, mætti nota hagnaðinn til að borga fólki fyrir að gera ekki handtak. 

Að gera ekki neitt. Ekki virðast fútúristar hafa verið á einu máli um það hvað þegnarnir ættu að taka sér fyrir hendur þegar vinnuframlag þess yrði óþarft. Sumir voru jafnvel svartsýnir og töldu hættu á að stjórnlaus múgur myndi vaða uppi með skemmdarverkum og götuóeirðum svo jafnvel þyrfti að koma á einræðisvaldi til að halda múgnum í skefjum. Fleiri voru þó bjartsýnir og töldu að með aukinni menntun gerði fólk sér betur grein fyrir nauðsyn þess að hafa eitthvað gagnlegt fyrri stafni.

Og mun þetta rætast? Undir lok greinarinnar í Samvinnunni (sem var endursögð, eftir því sem kom fram) eru gerðir vissir fyrirvarar á allar þessar framtíðarspár, því talað er um að þær breytingar á lífsháttum sem tæknin muni stuðla að, muni ekki eiga sér stað nema þjóðirnar séu einhuga um að þær verði til bóta og og stuðli að betra mannlífi. Það sé því undir okkur komið hvað við viljum, tæknin verði allavega til staðar ef á þarf að halda til að skapa okkur hagsæld og hamingju.

- - - - - -

Já, þannig hugsuðu framsýnir menn árið 1966. Framfarir hafa vissulega orðið og heimurinn hefur auðvitað breyst. Í dag er helsta vandamálið kannski það hvað gæðunum er misskipt. Við höfum það nokkuð gott hér á landi, búum í svokölluðu upplýsingasamfélagi þar sem við getum fylgst með hörmungum heimsins hinumegin á hnettinum í beinni útsendingu ef svo ber undir og ekki síst, við getum líka bloggað um það!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valves

Það var líka búið að spá því að vélmenni nú til dags væru orðin það fullkomin að lítill munur yrði á mönnum og vélmennum(sá gamla frétt um þetta einhvern tímann). Þar að auki eru menn í Asíu(Kóreu að ég held) orðnir það bjartsýnir að þeir eru þegar farnir að semja lög um réttindi vélmenna þegar þau öðlast sjálfsvitund. Ætli trúarbrögðin reyni kannski að veita þeim "sáluhjálp" eða afneita þeim bara alveg?

Það eina sem ég veit til þess að núverandi "fútúristar" spái um komandi framtíð er að minni munur verði á kynþáttum því allir kynþættir verði duglegir að "blanda geði" á næstunni og allir verði því kaffibrúnir á lit. Auk þess er talið að HIV verði algengara og fólk verði síður lauslátt vegna aukinnar smithættu.

Valves, 20.5.2008 kl. 21:56

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Gaman að þessu...! 

Lára Hanna Einarsdóttir, 20.5.2008 kl. 23:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband