Hlýnun getur varla verið mikil ógn á Íslandi

Fram kemur í frétt á mbl.is að íslendingar séu eina þjóðin þar sem meirihlutinn telur að loftslagsbreytingar hafi ekki alvarleg áhrif á umhverfið sem þeir búa. Ég fæ ekki betur séð en að meirihlutinn hafi bara rétt fyrir sér. Þótt hlýnun jarðar sé alvarlegt umhverfisvandamál víða um heim þá er erfitt að sjá að dálítil hlýnun geti verið skaðleg í heildina ef við hugsum bara um Ísland. Ef hlýnar á Íslandi skapast t.d. miklu betri aðstæður fyrir allskonar ræktun s.s. kornrækt og skógrækt. Hafísheimsóknir ættu að vera úr sögunni og minnkandi jöklar er ekki vandamál heldur bara breyting í þá átt sem var við landnám. Það er kannski helst óvissan með áhrifin á fiskistofna sem við þurfum að hafa áhyggjur af.
En hins vegar er ekki þar með sagt að við þurfum ekki að hugsa um þessa hluti, þótt áhrifin geta verið jákvæð á Íslandi er þetta fyrst og fremst hnattrænt vandamál og þar berum við ábyrgð eins og aðrir.
mbl.is Hlýnun ekki ógn á Íslandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Algjörlega sammála! Þetta er nú meira bullið á sumum bloggsíðum um þetta mál. Mest gera menn með sjávarhækkun. En það er vitað af henni og auðvelt að varast hana. Sjávarflóð hafa líka alltaf verið minni ógn á Íslandi en t.d. snjóflóð en með hækkandi hita verður minna um snjó og þar með snjóflóð.

Sigurður Þór Guðjónsson, 26.5.2008 kl. 17:12

2 Smámynd: Bjarni Rúnar Einarsson

Íslendingar ættu að vita betur en að fagna breytingum sem geta raskað hafstraumum (undirstöðu fiskistofna og ástæðan fyrir að Ísland er ekki þakið ís eins og Grænland), aukið veðurofsa og hækkað sjávarborðið.

Svo erum við heldur ekkert sjálfbjarga með mat.  Ef uppskerur bresta annarsstaðar í heiminu munum við í besta falli gjalda fyrir það með auknum útgjöldum þegar við kaupum í matinn.

Það er kannski rétt að hlýnun mun minna trufla Ísland en mörg önnur ríki, en það er kjánaskapur að láta eins og þetta verði ekkert mál og "reddist" bara.

Bjarni Rúnar Einarsson, 26.5.2008 kl. 17:33

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég tek fram að ef jörðin mun hlýna þá er það vissulega vandamál fyrir alla heimsbyggðina sem við hér á Íslandi þurfum að taka alvarlega eins og aðrir og ég er ekkert að fagna neinu. Spurningin í könnuninni fjallaði hinsvegar um hvaða áhrif fólk teldi að loftslagsbreytingar hefðu á sitt nánasta umhverfi en þar erum við Íslendingar í miklu betri stöðu heldur enn mörg fjölmenn og fátæk ríki sem þurfa nú þegar að fást við mikla hita og þurrka.

Emil Hannes Valgeirsson, 26.5.2008 kl. 18:24

4 Smámynd: Sveinn Sigurður Kjartansson

Hmmm, þú hlýtur nú að hafa heyrt um Golf-strauminn er það ekki Emil?  Ef hans nýtur ekki lengur við vegna ofbráðnunar jökla á Norðurhveli jarðar, þá verður nú ansi kalt á Fróni.  Svo kalt að óvíst er hvort nokkur byggð þrífist við slíkar aðstæður, hvað þá að hægt verði að rækta ávexti og korn??? 

Nú hafa verið sýndir fjölmargir fræðsluþættir um þetta efni og einnig er hægt að lesa um nýjustu rannsóknir á þessu sviði á fjölmörgum vefsvæðum ýmissa vísindastofnana sem þær stunda.  Ég mæli með að fólk lesi sér til um þessi mál því við erum ekki að ræða um skoðun nokkurra manna heldur niðurstöður þrotlausra rannsókna fjölda aðila um allan heim og skiptir alla máli. 

Eins vil ég nefna til "gamans" að mengun frá Evrópu og Bandaríkjunum flyst með loftstraumum til Norðurheimskautsins og safnast fyrir þar sökum hitamismunar og eyðist ósonlagið því mest þar og það bitnar heldur betur á okkur Íslendingum.  Drastískar breytingar eins og þessar hafa gríðarleg áhrif á náttúruna sem er háð viðkvæmu jafnvægi og er ég hræddur um að við eigum eftir að súpa seyðið af því fyrr en seinna.

Sveinn Sigurður Kjartansson, 27.5.2008 kl. 03:28

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég fylgist reyndar nokkuð vel með þessari umræðu og hef lengi vitað um þær áhyggjur sem menn hafa haft í sambandi við Golfstrauminn. Menn eru hinsvegar almennt sammála því í dag að það sé ekki mikil hætta á að bráðnun jökla leiði til breytinga á Golfstraumnum en það er þó ekki útilokað að svo geti orðið eftir marga áratugi í fyrsta lagi. Fræðslumyndir eru því miður ekki alltaf með nýjustu niðurstöðurnar og eiga það til að vera áróðurskenndar.

Emil Hannes Valgeirsson, 27.5.2008 kl. 08:43

6 Smámynd: Skarpur

Skemmtileg umræða - "gaman" að þessu. Passaðu þig samt Sveinn að tala ekki um ósón þynningu og gróðurhúsaáhrif í sömu andránni. Ekki sami hluturinn og gerir ekkert annað en að rugla menn.

En um golf straum o.fl., þá vil ég benda á bók Richard Alley "Two mile time machine" sem fjallar um rannsóknir á "tveggja mílna" löngum borkjarna úr Grænlandsjökli. Hann ásamt mörgum fleirum fékk nýlega Nóbelsverðlaun fyrir þátttöku sína í loftslagsmálum o.fl. Hann ásamt rannsóknaliði sínu sýndi fram á að í fyrndinni (10 þús. ár eða svo) að hitastig breyttist mjög hratt á jörðinni og lang líklegasta skýringin (líkanasmíð o.fl.) hafi einmitt verið að það slokknaði á Golf straumnum.

En fyrst að Íslendingar skynja ekki alvarleika málsins (Gallup könnunin) eins og allir aðrir - er það ekki m.a. vitnisburður um slappleika stjórnvalda í að ræða þessa hluti? Það þarf að gera miklu meira í að ræða þetta á vitrænu formi.

Skarpur, 27.5.2008 kl. 10:10

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Menn eru hreinlega að blása út af borðinu áhyggjum af Golfstraumnum. Það slokknaði kannski á Golfsstraumnum eins og Alley segir í sinni leiðinlegu bók og það hefur líklega gerst oftar - og algjörlega af náttúrulegum orsökum. Það hefur ekkert að segja með það hvort líkur séu fyrir því að hann stöðvist vegna núverandi hlýnunar. Eins og Emil bendir svo skilmerkilega á er engin "alvara málsins" með þá spurningu sem spurð var: hvort núverandi ástand á Íslandi í loftslagsmálum hafi skapað ógn hér á landi (ekki á heimsvísu í framtíðinni). Hvar er sú ógn, með leyfi? 

Sigurður Þór Guðjónsson, 27.5.2008 kl. 10:55

8 Smámynd: Matthildur B. Stefánsdóttir

Nýlegar rannsóknir benda til þess að jöklar hér á Íslandi muni minnka um meira en helming á næstu 100 árum og hverfa alveg á næstu 100-200 árum.  Rennsli í ám muni aukast og sjávarborð hækka enda eru framkvæmdaaðilar nú þegar farnir að taka tillit til þessara fyrirhuguðu áhrifa við hönnun mannvirkja.  Hvort þetta verður okkur til góðs eða ekki mun framtíðin víst leiða í ljós.  Í versta falli fáum við ísöld og gerumst eskimóar .

Áhugaverð samantekt er á bls. 65-67 í nýlegri skýrslu Orkustofnunar: http://www.os.is/gogn/Skyrslur/OS-2007/OS-2007-011.pdf

Matthildur B. Stefánsdóttir, 27.5.2008 kl. 14:06

9 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er kannski málið að framtíðinn mun leiða í ljós hvort breytingar verði til góðs eða ills. Við ættum því kannski ekkert að vera að óttast framtíðina umfram það sem felst í óvissunni um hvernig hún verður.

Það er reyndar dálítið nýtt fyrir mér hér á blogginu að gagnrýna þá sem hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum því það hefur venjulega verið á hinn veginn. En það sem ég vildi bara benda á, er að Ísland er eitt af þeim fáu löndum sem loftslagsbreytingar munu sennilega hafa jákvæð áhrif. Þetta með hættuna á að Golfstraumurinn fari að stöðvast í bráð eru svo úrelt vísindi að sjálfur Al Gore minntist ekki einu sinni á þá hættu á Háskólabíófyrirlestrinum um daginn.

Emil Hannes Valgeirsson, 27.5.2008 kl. 16:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband