Jörðin séð frá sólinni við sumarsólstöður

jordin20jun

Núna rétt fyrir miðnætti 20. júní var sólin í sinni hæstu stöðu á norðurhveli jarðar. Á þeim degi þegar sólargangur er lengstur skín sólin allan sólarhringinn á svæðinu norðan heimskautsbaugs og núna rétt fyrir miðnætti 20. júní þegar sumarsólstöður voru í hámarki var jörðin séð frá sólu í þeirri stöðu sem sést hér á myndinni. Okkar ísland sést ekki á myndinni enda komið að miðnætti hjá okkur og landið rétt sunnan heimskautsbaugs nema norðurhluti Grímseyjar.

Á norðurpólnum er sólin í um 23,5° hæð á þessari stundu og kemst ekki hærra á árinu. Hún er jafnhátt á lofti allan sólarhringinn en fer úr þessu smám smám saman lækkandi uns hún hverfur undir sjóndeildarhringinn um jafndægur að hausti, yfirleitt um 24. september.

Næstu tvo mánuði verður sólin dugleg að bræða ísinn á norðurslóðum og það verður spennandi að vita hvort bráðnunin verður jafn mikil og í fyrra þegar bráðnunin sló öll met. Hafísinn náði furðu vel að jafna sig síðastliðinn vetur sem var kaldari en mörg síðustu ár, en útbreiðsla hafíssins núna er samt álíka og var á sama tíma í fyrra. Það er líka lítið eftir af gömlum lífseigum hafís og megnið af ísbreiðunni er því að þessu sinni viðkvæmur fyrstaárs-ís. En það er samt ekki víst að bráðnunin verði eins mikil og í fyrra því veðurfarslegar aðstæður voru mjög óhagstæðar hafísnum í fyrra og ekki víst að þær aðstæður endurtaki sig nú í sumar.

Myndin sem hér fylgir er fengin af slóðinni: http://www.fourmilab.ch/cgi-bin/Earth en þar er hægt að velja ýmis sjónarhorn á jörðina á rauntíma sem uppfærast reglulega samkvæmt snúningi jarðar. Hnattmyndin er samsett af ýmsum eldri gervitunglamyndum, enda ekki möguleiki að komi dagur sem er án skýja á himni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband