Gígjökull heimsóttur

Gígjökull 28. júlí 2008

Um helgina var ég á ferð um Suðurland og var tilvalið að skreppa áleiðis inn að Þórsmörk til að kíkja á Gígjökul sem er skriðjökullinn sem fellur niður í lón norður af Eyjafjallajökli. Þótt ég sé á fjórhjóladrifnum bíl er það ekki mikið torfærutæki og þurfti bíllinn því að taka á honum stóra sínum til að komast yfir nokkur vöð sem eru á leiðinni þarna inneftir, en þau voru nokkuð vatnsmikil enda hlýtt í veðri. Þarna var líka hópur útlendinga á tveimur Land Rover jeppum sem fannst þetta vatnasafarí æði spennandi og ógnvænlegt en farþegarnir kusu að fara yfir göngubrúna við lónið og ljósmynduðu grimmt þegar bílum þeirra var ekið yfir útfallið. 

Ég hef ekki komið þarna í mörg ár og því ekki séð jökulinn eftir að hann tók að hopa svo mjög síðustu árin, en nú nær hann með herkjum ofan í lónið sem hann hálffyllti fyrir ekki svo mörgum árum. Það má vel sjá á landinu þarna hvernig jökullinn hefur legið áður þegar hann breiddi hvað mest úr sér. Jökullin skreið fram á 8. áratugnum og myndaði þá væntanlega sandölduna sem er lengst til vinstri á myndinni hér fyrir ofan, en kletturinn sem er hægra megin við neðsta hluta jökulsins kom ekki í ljós fyrr en upp úr aldamótunum 2000.

Eyjafjallajökull gaus síðast árið 1821 og því fylgdi mikið hlaup úr jöklinum sem sennilega hefur komið undan Gígjökli með tilheyrandi jökulburði. Síðan var þarna talsverður órói á árunum 1991-99 sem féll dálítið í skuggann af svipuðum atburðum í Mýrdalsjökli á þeim árum en ég hef heyrt jarðfræðing segja að litlu hefði mátt muna að gos yrði á þessum árum í Eyjafjallajökli. 

Gígjökull 1980

- - - - - 

Árið 1980 var ég í skólaferðalagi með Álftamýraskóla þar sem farið var inní Þórsmörk og stoppað við Gígjökul, en þá var myndin hér til hliðar tekin. Þá hefur jökullinn verið hvað stærstur nú í seinni tíð og þá þótti nokkrum alveg tilvalið að hlaupa út á skriðjökulinn sér til skemmtunar en kennurum til hrellingar. Það er örugglega minna gert af því í dag enda ekki mikill skriðjökull til staðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband