3.9.2008 | 15:33
20 stiga sumur í Reykjavík
Sumarið er ekki alveg búið en það má samt slá því föstu að heitustu dagarnir séu að baki og varla miklar líkur á því að hitinn fari að æða yfir 20 stigin hér í Reykjavík úr þessu þótt dæmi séu um það í september. Þótt ársmeðalhitinn í Reykjavík sé tiltölulega hár á íslenskan mælikvarða er borgin þannig í sveit sett að 20 stiga hiti telst alltaf til tíðinda. Frá árinu 1930 telst mér til að komið hafi 23 sumur þar sem hitinn hafi einhvern tíma náð 20 stigum, þannig að við getum samkvæmt því verið að tala um ca. þriðjung sumra.
Snemma í sumar skrifaði ég tvö pistla um það þegar hitinn rífur 20 stiga múrinn hér í borginni og fylgdi annarri þeirra línurit sem sýnir hvenær hitinn hefur náð því hitastigi. En þar sem sumarið stóð sig svona frábærlega að þessu sinni er ekki annað hægt en að birta myndina aftur í uppfærðri útgáfu. Súlurnar sem þarna eru á myndinni sýna hámarkshita hvers sumars frá 1930 og eru þau sumur sem hafa náð hámarkshita yfir 20 stigum aðgreind með gulum lit og eins og sjá má þá slær sumarið 2008 allt annað út.
Það er athyglisvert þegar myndin er skoðuð hversu þétt 20 stiga sumrin komu á árunum 1934 til 1960, eða annað hvert ár að jafnaði enda talsvert hlýtt á því tímabili. Síðan varð breyting á, því eftir 1960 liðu sextán ár þar til loks kom 20 stiga dagur og það gerðist með glæsibrag því 9. júlí 1976 varð heitasti dagur 20. aldarinnar (24.3°C) og það á frekar köldu tímabili. Það met hefur síðan verið tvíbætt á þessari öld. Fyrst þann 11. ágúst 2004 (24.8°) og svo núna í sumar þann 31. júlí (25,7°).
Það má kannski velta því fyrir sér þegar myndin er skoðuð hvort möguleg efri mörk hitans í Reykjavík hafi eitthvað verið að hækka með árunum því á hlýju sumrunum árin 1930-1960 náði hitinn bara einu sinni almennilega yfir 22 stig. Kannski má kenna um mismunandi staðsetningu Veðurstofunnar í gegnum tíðina en svo er líka spurning hvort aukinn gróður og skjólsæld í borginni gefi tilefni til hærri hámarkshita á heitustu dögunum. Þessar vangaveltur breyta því þó ekki að svona er þetta samkvæmt opinberum gögnum og eins og hitafarið hefur verið almennt á landinu á þessari öld er kannski ekkert óeðlilegt að hitamet séu slegin.
(Heimildir eru fengnar af vef Veðurstofunnar og tímaritinu Veðráttan)
Eldri færslur um 20 siga hita í Rekjavík:
Hinn sjaldgæfi 20 stiga hiti í Reykjavík. Birt 9. júní
20 stiga sumur í Reykjavík. Birt 12. júní
Örlítil veðurminning 2. Birt 9. júlí
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.