16.9.2008 | 21:28
16. september 1936 – Pourqoui Pas?
Það er farið að hvessa allhressilega útifyrir núna þegar þetta er skrifað og dagurinn er 16. september, eða kvöldið réttara sagt því það er orðið áliðið dags. Það er talað um að lægðin sem veldur veðrinu sé að hluta til mynduð úr leyfum fellibylsins Ike sem gerði mikinn usla um daginn á Karíbahafinu og síðar í Texas. Þessi staða hringdi einhverjum bjöllum í höfðinu á mér sem varð til þess að ég kannaði hvenær það var sem franska seglskútan og rannsóknarskipið Pourqoui Pas? fórst og það stóð heima því það gerðist einmitt þennan dag, 16. september árið 1936. Með skipinu fórst Franski vísindamaðurinn Dr. Jean Baptiste Charcot auk 39 annarra skipverja eins og frægt er orðið en aðeins einn komst lífs af. Skipið hafði lent í miklu óveðri út af Reykjanesi aðfarnótt 16. september, hraktist alla leið upp að Mýrum við Borgarfjörð og fórst svo við Hnokka út af Álfanesi. En þetta óveður varð fleirum að fjörtjóni því á þriðja tug sjómanna drukknaði í ýmsum skipssköðum þennan dag sem var eitt af alvestu veðrum sem komu á 20. öldinni.
Dr. Charcot hafði verið á skipi við hafísrannsóknir við Grænland þarna um sumarið þegar bilun kom upp sem varð til þess að draga þurfti skipið til Ísafjarðar. Eftir viðgerð í Reykjavík lagði það úr höfn þann 15. september og lá mönnum svona frekar á, því töfin olli því að Dr. Charcot var að verða of seinn í veislu í Kaupmannahöfn þar sem átti að gera hann að heiðursdoktor við Kaupmannahafnarháskóla. Hugsanlega varð sá flýtir til þess að illa fór, en Dr. Charcot var óhræddur maður og átti það oft til að segja „Allt fer vel - hvers vegna ekki?“ en Pourqoui Pas? þýðir einmitt, hvers vegna ekki?
Það er vel hugsanlegt að það hafi verið leyfar fellibyls sem olli því að svo kröpp lægð myndaðist þennan dag í september 1936, eins og reyndin er núna með lægð dagsins. September er einmitt aðal-fellibyljatíminn á Atlantshafinu og þeir geta alveg átt það til að fóðra lægðir með nægilegu hráefni til að skapa almennilegar óveðurslægðir hér á okkar slóðum. En við erum þó ekki að tala um fellibyljirnir sjálfir komi hingað því svona íslensk óveður lúta allt öðrum lögmálum en fellibyljir. Hér er það fyrst og fremst mjög hlýtt suðrænt loft sem berst norður með miklum hraða uns það mætir kaldari loftmössum hér norðurfrá svo allt fer í bál og brand. En nú er bara að vona að þessi lægðarkoma verði ekki nema svipur hjá sjón miðað við óveðrið 1936 og ekki munu mörg skip brotna í spón. Það er kannski meiri hætta á því að eitthvað af trjám brotni í spón að þessu sinni enda eru þau enn fulllaufguð og taka á sig meiri vind fyrir vikið eins og skúta sem hefur ekki dregið saman seglin.
- - - -
Meðal heimilda er þessi grein hér: Voru dr. Charcot og skip hans Pourquoi pas? feig?
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:45 | Facebook
Athugasemdir
Ég vissi allt um þetta strand frá frumbernsku því það var pabba mínum mjög minnisstætt. Hann var skáti og stóð m.a. heiðursvörð þegar lík skipbrotsmanna voru flutt milli staða í Reykjavík.
Lára Hanna Einarsdóttir, 16.9.2008 kl. 21:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.