Nú er það svart – allt orðið hvítt

Þótt ég hafi um síðustu helgi spáð miklum harðindum hér á landi í vetur þá verð ég að viðurkenna að úr spánni hefur ræst svona heldur hraðar en ég hugði. Ofan á öll fjárhagsharðindin þar sem krónan og hlutabréfin hafa fallið svo um munar þá hefur snjórinn einnig fallið víða um land, langt fyrir tímann. Það er hinsvegar ekkert óvenjulegt þótt haustlaufin hafa fallið, Skagamenn eru svo auðvitað löngu fallnir en nú vonum við bara að Bubbi sé ekki fallinn.

Það er þetta með snjóinn. En þar sem ég er ekki með elstu mönnum þá man ég engan vegin eftir svona öflugum vetrarkafla svona strax í byrjum október, jafnvel þótt ég hafi haldið veðurdagbók í yfir 20 ár eins og ég hef nokkrum sinnum minnst á. Í þessa veðurdagbók skrái ég meðal annars hvort snjór sé á jörð um miðnætti hér í Reykjavík og þar kemur fram að hvít jörð hefur ekki verið svona snemma hausts á miðnætti í Reykjavík frá árinu 1986 þegar skráningar mínar hófust og það tvö kvöld í röð, sem þýðir að snjórinn hefur lifað sólarhringinn. Slíkur er kuldinn. 

Upp úr þessum skráningum mínum hef ég sett saman þessa mynd sem sýnir hvenær snjór hefur verið í Reykjavík síðustu 22 vetur en þessa mynd hef ég birt áður. Ásamt mörgu öðru merkilegu sést þarna hvað október er snjóléttur mánuður í borginni. Ef það hefur snjóað í mánuðinum hefur það verið yfirleitt verið undir lok mánaðarins og staðið stutt. Frá 1986 hafði fyrsti októbersnjórinn fallið þann 13. árið 1987 en október 1986 er snjóþyngstur, en viku eftir leiðtogafundinn það ár gerði mikið vetrarríki í borginni sem hélst út mánuðinn. Sjálfsagt hefur einhvern tíma snjóað svona snemma að hausti og í ár, en ég læt þetta tímabil sem ég hef skráð nægja. Svo er bara að vona að við hörkum af okkur þennan harðindavetur sem er framundan, hvort sem þau harðindi verða veðurfarlegs eðlis eða ekki.

snjór 86-08


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband