Af mér og bönkum fyrr og nú

BANKAR

Nú þegar við horfum upp á alveg nýtt landslag í fjármálakerfi landsins er stundum sagt að við séum að hverfa aftur til hinna gömlu tíma þegar allt var einfaldara og hlutirnir gjarnan í fastari skorðum. Þetta voru tímar þegar menn gengu með peningaseðla í veskinu eða skrifuðu ávísanir, þetta voru tímar þegar bankarnir stóðu í röðum landbúnaðar-útvegs, ekki bara í Austurstræti heldur líka í Bankastræti sem þá bar nafn með rentu með þrjú bankaútibú. Í öllum þessum bönkum var ávallt margt um manninn, fólk stóð í þvögu við gjaldkeraborðin, enda voru íslendingar ekki búnir að læra að fara í röð. Þá var líka bærinn fullur af fólki, strætisvagnarnir í sínum mosagræna felulit voru líka fullir af fólki, sumir voru svo sjálfir fullir en það hefur kannski ekki mikið breyst.

Mín fyrstu kynni af bankakerfinu voru eins og hjá svo mörgum að ég eignaðist sparibauk. Þennan sparibauk sem var í líki Múmínpabba fyllti ég reglulega og fór með í Iðnaðarbankann - stoltur yfir því að eiga eigin bankareikning, þótt um miklar upphæðir hafi ekki verið um að ræða.

Hinsvegar handlék ég öllu stærri upphæðir þegar ég gerðist sendisveinn hjá Sláturfélagi Suðurlands árið 1980. Eitt af mínum verkefnum þar var að labba á hverjum degi með milljónir í sendlatösku, sneisafullri af peningaseðlum og ávísunum í útibú Landsbankans að Laugavegi 77. Þessar fjárhæðir lagði ég inn í bankann hjá gjaldkera eftir að hafa staðið í þvögunni við gjaldkeraborðið og beðið eftir afgreiðslu. Engum datt í hug þá að þessi unglingspiltur hefði getað verið mikil uppgrip fyrir sniðugan ræningja. Aðeins nokkrum árum síðar var framið þaulskipulagt rán við þetta sama bankaútibú þegar vopnaðir ræningjar náðu stórfé af mönnum sem ætluðu að leggja peninga frá ÁTVR í næturhólf bankans.

Í mínu starfi sem grafískur hönnuður hef ég stundum unnið fyrir banka. Eitt af fyrstu verkefnum mínum á auglýsingastofu árið 1989 var að leggja í púkkið tillögur að merki fyrir nýjan Íslandsbanka sem þá stóð til að stofna þegar sameina átti Iðnaðarbankann, Verslunarbankann, Alþýðubankann og Útvegsbankann. Eitthvað af mínum tillögum komu til greina en ég átti þó ekki merkið sem endanlega var valið, en það var hið litríka og fjöruga Íslandsbankamerki sem var mikil nýjung meðal bankamerkja á Íslandi. Þetta merki lifði til ársins 2000 þegar Íslandsbanki FBA varð til, en tók svo upp aftur í einfaldari útgáfu sem lifði þar til nafnið GLITNIR var tekið upp enda var það svona meira „erlendis“. Í dag heitir svo bankinn Nýi Glitnir samkvæmt 2008-stílnum. Allar svona breytingar eru auðvitað mjög atvinnuskapandi fyrir okkur auglýsingateiknara.

Íslandsbanki-Glitnir

Þrátt fyrir ýmsar framfarir í rafrænni bankaþjónustu síðustu ár þá fæ ég mér reglulega göngutúr í bankaútibúið mitt til að borga mánaðarlega reikninga mína og taka um leið út dálítið af peningum. Þetta þykir víst mörgum dálítið gamaldags því helst á maður að gera á netinu allt sem hægt er að gera þar. Ég tel þetta þó ekkert eftir mér en þessar heimsóknir mínar eru auðvitað atvinnuskapandi fyrir bankafólk. Yfirbragðið í bönkunum er líka allt miklu rólegra en áður og engar þvögur lengur við gjaldkeraborðin, því flestir aðrir eru bara á netinu og nenna ekki í bankann sinn.

 

Ljósmyndin sem fylgir pistlinum birtist í Þjóðviljanum árið 1980. Ég sjálfur er hvergi sjáanlegur á myndinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll frændi

Alltaf gaman og fræðandi að heimsækja þig.   Ég vil koma á framfæri, að mála yfir þessar rauðu randir á fiskhúsinu.. fyrirgefið..  glitnishúsinu.  Alveg einstaklega ósmekklegar..  eins að skipta um lit á flagginu. Rauð flögg eiga ekki við vestrænar stofnanir... ekki nema þeir séu að undirbúa sig fyrir rússagullið!!

Bjorn Emilsson (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 01:27

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk fyrir kommentin Björn. En hvað, líkar þér ekki rauði liturinn? GLITNIR hefur sennilega eignað sér þennan lit til að skera sig úr öllum þessum bláu fyrirtækjalitum. Ég held annars að Rússagullið sé ekkert á leiðinni úr því að við komumst ekki í Öryggisráðið, það hefði ekki verið slæmt fyrir þá að hafa okkur góða þar.

Emil Hannes Valgeirsson, 19.10.2008 kl. 13:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband