Kerhólakambur - hin leiðin á Esjuna

Kerhólakambur varða

Flestir sem fara á Esjuna fara hina hefðbundnu leið eftir göngustígum sem liggur upp að Þverfellshorni. En það eru auðvitað fleiri leiðir á Esjuna eins og til dæmis leiðin upp að Kerhólakambi eða gamla Ferðafélagsleiðin eins og hún er stundum kölluð. Persónulega finnst mér þessi leið mun skemmtilegri ekki síst vegna þess að þarna eru engar halarófur af fólki og maður getur notið þess að eiga svæðið nánast útaf fyrir sig. Fyrir utan smá klettabelti neðst er leiðin frekar einföld, nánast ein samfelld brekka þar til komið er að skálinni þar sem litli skaflinn er þar svo áberandi á sumrin. Þar er svo farið upp og ekkert varið í annað en að fara alla leið að vörðunni sem þar er á hábungu Kambsins í 851 metra hæð og er hæsti hluti vestanverðar Esjunnar.

Og núna á laugardaginn var góður dagur til að fara á Kerhólakamb - bjart í veðri og úrvals skyggni. Nokkur strekkingur var að vísu í neðri hlíðunum og þegar upp var komið tók á móti manni alvöru vetrarríki með frábæru útsýni í hreina loftinu þar sem Hekla, Eyjafjallajökull og Vestmannaeyjar blöstu við í fjarska. Auðvitað er svo nauðsynlegt að hafa heitt kókómalt í brúsa og samlokur og njóta dásemdanna í rólegheitum þarna uppí hæstu hæðum.

Kerhólakambsleið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta er leiðin sem ég fór í den - eina skiptið sem ég hef farið upp á Esjuna. Nú get ég ekki lengur gengið á fjöll, því miður.

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.10.2008 kl. 22:44

2 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Hef aðeins einu sinni farið á Esjutopp og fór upp frá Esjubergi og fór niður bakdyramegin, þ.e. niður í Eilífisdal. Raunar renndi ég mér hálfa leið niður í dalinn, svo mikill var snjórinn þá um miðjan júní, líklega árið ´85...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 19.10.2008 kl. 10:38

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég hefði getað nefnt það að þessi leið hefst einmitt nálægt bænum Esjubergi en nú er kominn afleggjari aðeins austar sem er gott að fara að fjallinu.

Emil Hannes Valgeirsson, 19.10.2008 kl. 12:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband