21.10.2008 | 22:15
Hvar verður næsta eldgos á Íslandi?
Ég velti því fyrir mér hvort að eitt stykki eldgos sé ekki bara einmitt það sem þjóðina vantar nú á þessum síðustu og verstu tímum. Eldgos núna gæti dregið að sér athygli umheimsins og myndi vekja upp mikla samúð og samstöðu með okkur og væri góð auglýsing fyrir sérstöðu landsins og þau náttúruöfl sem við þurfum að glíma við. Þetta þyrfti þá helst að gerast sem fyrst en ellegar væri betra að bíða með eldgos fram yfir jól svo að útlendingar þyrðu yfirleitt að koma hingað í verslunarferðir sínar.
En burt séð frá því hvort eldgos sé æskilegt nú eða ekki ætla ég samt spá í stöðuna, meta hvar helst má eiga von á eldgosum og áætla í prósentum hversu líklegt ég tel að næsta gos verði þar. Ég tek þó fram að þetta er sett fram alveg án ábyrgðar en upplýsingar og fróðleik hef ég úr ýmsum fréttum og öðrum heimildum sem ég hef séð.
- - - - - -
32% Síðustu áratugi hefur HEKLA gosið á nánast 10 ára fresti eða árin 1970, 1980, 1991 og 2000 (að auki smáskvetta árið 1981). Þessi reglulega goshegðun hlýtur að vera einstök meðal eldfjalla og ef hún heldur þessu áfram ætti næsta gos að verða árið 2010 +/-1 ár. Talið er þó að Hekla sé nánast tilbúin fyrir gos og gæti hún samkvæmt því alveg eins gosið á morgun því gosin gera yfirleitt engin boð á undan sér nema rétt áður en þau bresta á. En auðvitað getur Hekla líka alveg eins farið í sitt fyrra horf og gosið ekki fyrr en eftir hálfa öld, en gegnum tíðina hafa Heklugos átt sér stað einu sinni til tvisvar á öld.
30% Virkasta eldstöðin á Íslandi eru Grímsvötn. Eldvirkning þar er að einhverju leiti lotubundin nokkra áratugi í senn og í takt við það er nú meiri virkni í Grímsvötnum en á seinni hluta 20. aldar en síðast gaus í Grímsvötnum árið 2004 eftir hlaup í vötnunum. Ef gosið á sér stað undir vötnunum sjálfum eins og algengast er veldur það ekki jökulbráðnun og hlaupi, en ef gýs utan vatnanna undir jöklinum verður hins vegar jökulbráðnun sem veldur miklu jökulhlaupi eins og átti sér stað í Gjálpargosinu 1996. Þegar eldstöðin er á annað borð komin í gírinn eins og nú, eru goshléin oft ekki nema nokkur ár og því verður nýtt Grímsvatnagos að teljast nokkuð líklegt á næstu árum.
18% Við Upptyppinga og Álftadalsdyngju var mikið um að vera með köflum síðasta vetur en þá mældist fjöldi jarðskjálfta á um 15-20 km dýpi. Síðan færðist mikil ró yfir svæðið þar til fyrir skemmstu að komið hafa dálítið af grynnri skjálftum á um 6-7 km dýpi sem gæti bent þess að kvika sé eitthvað að reyna að brjótast upp. Ef þarna gýs er talað um að dyngjugos geti átt sér stað með þunnfljótandi hraunrennsli sem gæti borist langar leiðir, jafnvel eftir farvegi Jökulsár á Fjöllum. Talað er um dyngjugos geti orðið þarna því kvikan á sér rætur djúpt í jörðu, jafnvel beint frá möttulstróknum sjálfum undir landinu, án viðkomu í kvikuþró megineldstöðvar. Það sem er að gerast þarna er eitthvað sem jarðfræðingar hafa ekki áður fylgst með á Íslandi þannig að óvissan er mikil og erfitt að spá í framhaldið.
12% Það hefur lengi verið beðið eftir Kötlugosi enda liðin 90 ár frá síðasta gosi sem er eitt lengsta goshlé í Kötlu eftir landnám. Gosið 1918 flokkast sem stórt Kötlugos en stærð gossins er nú talin ein ástæðan fyrir þessari löngu hvíld. Hinsvegar er ekki endilega talið að löng goshlé séu fyrirboði stórs eldgoss. Það hefur eitthvað róast yfir eldstöðinni frá því fyrir nokkrum árum þegar talið var að eldgos væri nánast yfirvofandi. Þá var um að ræða jarðskjálfta undir Goðabungu austarlega í Kötluöskjunni. Eitthvað hefur reyndar verið talað um að þeir skjálftar hafi átt sýnar skýringar í jökulhreyfingum en ekki bara vegna aukins jarðhita. Það hefur lítið frést að skjálftum eða öðru í Kötlu í þó nokkurn tíma en það má alveg bóka þarna gos í nánustu framtíð en eldgos í Kötlu eru alltaf miklir atburðir.
8% Aðrir staðir. Það getur auðvitað gosið mjög víða á Íslandi en gos á öðrum stöðum en þeim sem ég hef talið upp eru mun ólíklegri sem næsta gos. Það má þó segja að það geti nánast gosið hvar sem er á austara gosbeltinu sem nær frá Vestmannaeyjum í norðaustur upp í Vatnajökul og svo þaðan áfram í norður eins og landið nær. Vestara gosbeltið sem nær frá Reykjanesi og upp í Langjökul er hinsvegar í meiri dvala svo ekki sé talað um Snæfellsnesgosbeltið og Öræfajökul.
- - - - - - -
Og þar með er hægt að setja þetta upp í gómsætt kökurit:
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Minnir að ég hafi í bloggi mínu nýverið lofað gosi núna á fimmtudaginn fyrir hönd æðri máttarvalda. Vel á minnst, gosi í Heklu.
ÞJÓÐARSÁLIN, 21.10.2008 kl. 22:19
það væri gott að fá svo sem eitt gos núna ég ætlaði að fá á árinu....eitt á Reykjanesi
Hólmdís Hjartardóttir, 21.10.2008 kl. 22:21
Þú gleymir Eyjafjallajökli.
Elinóra Inga Sigurðardóttir, 21.10.2008 kl. 22:34
Allar ábendingar eru vel þegnar, en annars er Eyjafjallajökull inní þessum 8% hjá mér.
Emil Hannes Valgeirsson, 21.10.2008 kl. 22:39
Takk fyrir þetta. Kötlugos yrði kröftugt um umheimurinn teldi okkur verða búin að vera. Það eru þó nokkur ár síðan að helstu sérfræðingar (að mig minnir) sögðu að nær allar líkur væru á Kötlugosi innan 10 ára. Þá fyrst reynir á æðruleysið. Ætli það hafi erfst í nýjar kynslóðir?
Ívar Pálsson, 21.10.2008 kl. 23:49
Ég er alveg sammála þessu. Eldgos núna væri hrein himnasending, og sérstaklega ef það væri almennilegt Kötlugos, með fólksflutningum og öskuregni um allt land. Þetta myndi gerbreyta samningsstöðu okkar og sennilega bjarga börnum okkar úr þeim skuldaklafa sem þau virðast liggja í núna. Ég ligg á bæn...
Jón (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 08:38
Flott og áhugaverð samantekt.
Kjartan Pétur Sigurðsson, 22.10.2008 kl. 10:20
Ef allir Íslendingar leggjast nú á eitt og óska eftir "smjörklípugosi" þá er aldrei að vita nema sú ós rætist. Ekki er þó víst að staðsetning slíks óskagoss verði fyrirséð.
Júlíus Valsson, 22.10.2008 kl. 12:41
Samkvæmt því sem Páll Einarsson segir á RÚV er er eitthvað fjör að færast í leikinn við Upptyppinga: http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item232839/
Við erum samt ekkert að óska eftir einhverju hamfaragosi, bara svona mátulega miklu. Kannski „Smjörklípugosi“ hvað sem það annars þýðir.
Emil Hannes Valgeirsson, 22.10.2008 kl. 13:41
það er búið að spá vegna skeiðáshlaupanna að hekla og katla gjósi á sama tíma og þá er stutt í það. jafnvel fyrir jól
helgi fannar (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 14:00
Ég sá á forsíðu Moggans í dag að Hekla er alveg á steypinum.
Matthildur B. Stefánsdóttir, 23.10.2008 kl. 10:07
Ég tel 82% líkur á að næsta gos verði á Arnarhól...:)
Ásgeir Kristinn Lárusson, 26.10.2008 kl. 09:55
Ég sá einu sinni Gosa á Arnarhóli.
Emil Hannes Valgeirsson, 26.10.2008 kl. 14:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.