19.11.2008 | 17:42
Til hæstu hæða í Höfðatúni
Það er ekkert lát á byggingaframkvæmdum við Höfðatorg þar sem hæsta hús Reykjavíkur er farið að gnæfa yfir umhverfið. Þessi 19 hæða skrifstofuturn er aðeins hluti af þeim gífurlegu framkvæmdum sem eiga sér stað á vegum byggingafyrirtækisins Eyktar á reitnum við Borgartún og Höfðatún. Þegar allt verður tilbúið munu þarna verða sex stórhýsi, eitt þeirra er tilbúið þar sem borgarskrifstofur Reykjavíkur hafa nú aðsetur, en turninn sem nú er langt kominn mun verða það hæsta á svæðinu og um leið hæsta skrifstofubygging í Reykjavík, um 70 metra hár. Smáralindarturninn í Kópavogi er hinsvegar hærri eða um 78 metrar.
Það er eiginlega sérstök upplifun að koma þarna að og sjá byggingarnar í návígi því stærðin er þvílík að annað eins hefur maður varla séð hér í borg og minnir þetta helst á stórborgir eins og London, New York og svo auðvitað Kópavog. En það getur orðið þó nokkur bið á því að allar þessar miklu framkvæmdir verði fullkláraðar því eins og allir vita þá hefur orðið dálítið hlé á góðærinu nú um stundir og ekki alveg víst að menn bíði í röðum eftir því að fá þarna inni. Því hefur byggingu þeirra húsa sem ekki eru komnar upp úr grunni sínum verið slegið á frest um sinn. Þar er aðallega um að ræða íbúðahluta hverfisins sem standa sunnar á reitnum, nær Skúlagötu.
Myndirnar sem hér fylgja tók ég nú á dögunum en nú er unnið að því að glerja turninn og á hann því fljótlega eftir að fá á sig sína endanlegu mynd. Hér má einnig sjá teikningu af fyrirhuguðum byggingum en sú mynd er fengin af kynningarsíðu Eyktar um svæðið. Hæstu byggingarnar þarna eru 19 hæða turninn, svo verður eitt 16 hæða og eitt 12 hæða. Gulu reitirnir eiga að sýna hvar eiga að vera verslanir, veitingahús eða annað boðlegt fyrir fólkið á götunni sem þarna verður hugsanlega á ferðinni að loknu næsta góðæri.
Athugasemdir
Heyrðirðu Krossgötuþáttinn hans Hjálmars 8. nóvember um skipulagsmál, m.a. þennan turn og öll mistökin sem gerð hafa verið í skipulagsmálum?
Þátturinn er í tónspilaranum á blogginu mínu merktur: "Krossgötur 8.11.08 - Skipulagsmál". Frábær þáttur.
Lára Hanna Einarsdóttir, 19.11.2008 kl. 18:47
Já, hár er hann, en við nágrannarnir eru bara ánægðir þessa dagana meðan menn eru enn við vinnu í turninum. Það yrði hræðilegt að búa við turninn hálfkaraðan árum saman. Nóg samt að þurfa að búa við svæðið hálfbyggt. Hann verður einmana þarna turninn þar sem hann í mörg ár mun bara kinka kolli til smábarnsins Hofdi House.
Pétur (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 18:48
Það er búið að vera stanslaust ónæði af þessum framkvæmdum í nokkur ár og fyrir okkur sem búa í skugga þeirra er eins og við höfum verið múruð inni. Megi þessar byggingar aldrei þrífast!
Sigurður Þór Guðjónsson, 19.11.2008 kl. 18:54
Ég heyrði þættina hans Hjálmars sem hafa verið núna tvær síðustu helgar og get alveg mælt með þeim og ég get vel ímyndað mér að nágrannar séu mishrifnir af þessu öllu saman. Sjálfur vil ég samt spara neikvæðnina þar til betur árar.
Emil Hannes Valgeirsson, 19.11.2008 kl. 20:26
Vonandi verða sem flestar byggingar kláraðar að minnsta kosti að utan....hroðaleg tilhugsun að hafa fullt af hálfköuðum byggingum
Hólmdís Hjartardóttir, 19.11.2008 kl. 20:37
Mér finnst þessi turn geggjaður svona hálfkláraður. Bý rétt hjá og finnst alltaf jafn fallegt að sjá hann í ljósaskiptunum.
Svei svo þeim sem vilja búa í borg en þola ekki borgarumhverfi. Það á að byggja mikið og byggja hátt, það er í eðli borga. Ef þið viljið útsýni getið þið flutt út í sveit.
Marilyn, 19.11.2008 kl. 23:24
Rosaleg spretta er í honum þessum! Hann var varla til þegar ég fór utan í ágústlok.
Ég verð að viðurkenna að hann er ekki ómyndarlegur -- mér fannst borgartúnssvæðið alltaf svo ljótt að það væri ekki hægt að skemma það frekar. það var á þeim tíma þegar þarna var bílaþvottastöð og Bílanaust. Þetta er eiginlega skref í rétta átt fyrir þetta ákveðna svæði.
Kári Harðarson, 20.11.2008 kl. 08:51
Ekkert smá sammála þér Kári. Borgartúnið var algjör hörmung þegar ég flutti þarna fyrir 6 árum síðan en er nú orðið bara frekar töff og það sama segi ég um svæðið þarna vestan við þar sem höfðatorg er að rísa, þar var og er reyndar ennþá alveg hellingur af forljótum og niðurníddum húsum sem mættu mín vegna hverfa fyrir fullt og allt. Megi túnin blómstra sem aldrei fyrr!
Marilyn, 20.11.2008 kl. 11:32
Flestir eru nú samt á því að Borgatúnið sé dæmi um götu sem hefur byggst um meira af kappi en forsjá. Þarna miðast allt við þarfir bílsins og húsin standa þar eins og eyjur uppúr bílastæðunum og eru alveg úr tengslum við gangandi vegfarendur. Á Höfðatúnsreitnum var þó hugsað fyrir því enda er þar stærðarinnar bílakjallari. Vandinn með Höfðatúnsreitinn í dag er þó hvað byggingarmagnið er mikið, sérstaklega nú þegar akkúrat engin þörf er á nýju húsnæði og grunnarnir sem búið er að grafa þarna munu verða eins og opin sár næstu árin.
Emil Hannes Valgeirsson, 20.11.2008 kl. 13:08
Ók þarna framhjá fyrir stuttu og olli næstum árekstri!
Skilst að Eyktar-menn séu fyrirfram búnir að leigja um 40% rýmis í Turninum og óttast jafnvel að sumir „leigjenda“ muni segja sig frá sínu.
Kannski verður Turninn framtíðarhúsnæði Listaháskóla, hvað veit maður...:)
Ásgeir Kristinn Lárusson, 20.11.2008 kl. 13:20
Það er satt Emil, það er svolítið erfitt að ganga um Borgartúnið sem er reyndar ekkert einsdæmi á íslandi, bara hús með viðskiptastarfssemi og bílastæði, það eru fleiri slíkar götur í Reykjavík. Mér skilst að byrjað sé að hanna einhverjar lausnir á þessu máli hjá skipulagsnefnd enda Borgartúnið orðið (eða var amk um daginn) hálfgert Wall Street Íslands. Ég er samt miklu sáttari við Borgartún núna heldur en fyrir 6 árum þegar þar voru bara niðurnýddir braggar og þetta viðurstyggilega Bílanaustshús.
Góð hugmynd að skella listaháskólanum í Höfðatún Ásgeir. Þá verður mannlífið á svæðinu enn ríkara og ég sé fyrir mér fólk sitja á túninu fyrir ofan Höfða á sólríkum sumardegi. Gæti ekki orðið betra! Ljótu húsin fyrir ofan Höfðatorg mætti líka rífa og í stað þess að byggja á þeim væri hægt að hafa falleg og skjólrík útivistarsvæði fyrir fólk sem býr og starfar í nágrenningu. Það vantar líka pláss fyrir meiri umferð þarna.
Marilyn, 20.11.2008 kl. 14:24
Þetta er nú bara hálfgerður skætingur með að menn eigi að flytja upp í sveit. Það skiptir líka máli hvernig búið er að umhverfi manna í borgum. Það hefur ekkert með það að gera að þola ekki borgarumhverfi.
Sigurður Þór Guðjónsson, 20.11.2008 kl. 22:32
Sigurður - ég er þarna að tala um fólk sem vill aldrei láta byggja og aldrei láta framkvæma afþví að það "skyggir á útsýnið þeirra" eða "umferðin í hverfinu eykst svo" osfrv. Vissir þú t.d. að hópur fólks tafði byggingu barnaspítalans alveg heillengi út af einhverjum slíkum sjónarmiðum?
Ég vel að búa í borg vegna þess að ég vil hafa stutt í verslun og þjónustu og þau tækifæri sem felast í borginni en eru ekki fyrir hendi í smáþorpum eða úti í sveit. Ég þarf ekki að hafa útsýni yfir esjuna og tæpur sólargangur er meðal þeirra gjalda sem ég þarf að greiða fyrir að búa nálægt miðbænum í mesta þéttbýlinu.
"Það er búið að vera stanslaust ónæði af þessum framkvæmdum í nokkur ár og fyrir okkur sem búa í skugga þeirra er eins og við höfum verið múruð inni. Megi þessar byggingar aldrei þrífast!" Sagðir þú. Ég hlýt að vera búin að búa við þetta ónæði jafnlengi og þú en sé samt sem áður enga ástæðu til að pirra mig á eða bölsótast út í þessar framkvæmdir. Ég bý í "skugga" þeirra og ég vona að þær þrífist sem best því mannlíf er einmitt ein ástæða þess að ég vel að búa í borg og því meira speis á minna svæði þeim mun meira mannlíf. Auðvitað þarf að vera grænt einhversstaðar og huga að umhverfi manna þótt þetta sé inni í borg en það var ekki ástæðan fyrir því að einhverjir rugludallar gengu hér um hverfið með undirskriftalista til að reyna að mótmæla byggingu eða mæla fyrir lækkun turnsins við Höfðatörg heldur eitthvað í sambandi við umferðarþunga osfrv. Sumir virðast hafa það eitt að markmiði að vera á móti öllum stórum byggingum bara sem prinsipp. Þetta virðist nefnilega einmitt hafa eitthvað með það að gera að fólk vill búa uppi í sveit og hafa útsýni og gras en samt njóta allra kostanna sem fylgja því að búa í borg.
Marilyn, 20.11.2008 kl. 23:45
Það er kannski of mikið sagt hjá þér Marilyn að fólk sem er á móti stórum byggingum vilji helst búa upp í sveit með grasi gróinni víðáttu en njóta kosta borgarinnar. Það er nefnilega til millivegur.
Það sem hefur gerst þarna og reyndar víðar í borginni er kannski það að verktakar og byggingaraðilar hafa komist yfir heilu byggingarreitina og knúið í gegn byggingarmagn sem er langt umfram það sem upphaflegt deiliskipulag gerði ráð fyrir. Þetta gera þeir að sjálfsögðu fyrst og fremst til að hámarka eigin arð af fjárfestingunni, á kostnað þeirrar byggðar sem er í nágrenninu sem veldur óánægju nágranna. „Deiluskipulag“ mætti kannski kalla svona verktakaskipulag.
En samt, það er ágætt ef einhver er ánægður með hvernig Höfðatúnið er að byggjast og ég get alveg tekið undir það að einstök háhýsi geta gert sig ágætlega og vissulega tekur Höfðatúnsturninn sig ágætlega út í ljósaskiptunum.
Emil Hannes Valgeirsson, 21.11.2008 kl. 10:00
Millivegurinn er svolítið einkennilegur hér á Íslandi finnst mér og afhverju að vera í einhverri meðalmennsku? Hvernig eru stórborgir byggðar upp annarsstaðar, er ekki byggt upp eins hátt og hægt er nánast, til þess að nýta sem best rándýr byggingasvæði. Fólk sleppir þá frekar bílunum, gengur eða notar almenningssamgöngur þegar byggt er þétt og hátt.
Við eigum reyndar ekkert alltaf að leggjar Reykjavík að jöfnu við New York en ég held samt að þetta sé ein dreifbýlasta borg norðan Alpa og þótt víðar væri leitað.
Millivegurinn er Árbær og Garðabær og jafnvel Breiðholtið. Ég vel að búa nálægt miðbænum og get þess vegna ekki krafist þess að njóta sama útsýnis, rýmis og sólargangs og fólk uppi á Arnarnesi, hér er nú samt stutt í laugardalinn, laugaveginn og göngustígana við sæbrautina. Skuggarnir verða til í þéttbýlinu og þeir sem vilja búa þar verða bara að taka því í staðinn fyrir að vera alltaf með þetta væl út af einhverju ofmetnu Esju-útsýni.
Marilyn, 21.11.2008 kl. 11:40
Er til fólk til að fylla allt þetta húsnæði sem núna stendur tómt og er verið að klára að byggja?
Kjartan Pétur Sigurðsson, 22.11.2008 kl. 16:31
Það er einmitt spurningin Kjartan. Það verður örugglega tómlegt í mörgum þeim húsum sem búið er að byggja að óþörfu.
Emil Hannes Valgeirsson, 22.11.2008 kl. 17:14
Þið hafið líklega heyrt að turninn skyggir á vitann á Sjómannaskólanum fyrir innsiglinguna í Reykjavíkurhöfn, Ha, ha.
Ég er reyndar þeirrar skoðunar að háhýsi eigi að vera fjær ströndinni. Lægri byggð við ströndina og hærri hús inn til landsins. Turnar eru svo sem OK, þar sem þeir eiga við og þörf er fyrir mikla nýtingu á litlu svæði, en það myndast óneitanlega duglegir vindsveipir í kringum háar byggingar og við búum í vindasömu landi. Ég vinn þarna á næsta horni og velti því fyrir mér hvernig verður að fara þarna um í næsta almennilega roki . Mig langar nefnilega ekki að fjúka.
Matthildur B. Stefánsdóttir, 23.11.2008 kl. 17:05
Við skellum þá bara vita á turninn ;)
Annars er mikið til í þessu með "háhýsi fjær ströndinni", auðvitað ætti að byggja þannig að háhýsi skyggðu á sem fæsta heldur væri húsunum raðað í hentuga hæðaröð osfrv. Við myndum skipuleggja REykjavík allt allt öðruvísi ef við fengjum að skipuleggja hana frá grunni í dag.
Nýja Reykjavík tsk tsk ;)
Marilyn, 23.11.2008 kl. 23:51
Ég hef reyndar heyrt þá hugmynd í fullri alvöru að vitamálið mætti leysa með því að skella honum á turninn, enda er hann í réttri siglingalínu á ákveðinni leið.
Annars er ágætt að fólk hafi skoðanir á skipulagsmálum og ekki veitir af miðað við hvernig borgin hefur þróast óskynsamlega út og suður í gegnum tíðina.
Emil Hannes Valgeirsson, 24.11.2008 kl. 01:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.