Furðuborgin Dubai

dubai loftmynd

Sem einskonar framhald af síðustu færslu ætla ég að líta aðeins við í Dubai sem er eitt af Arabísku furstadæmunum og orðin fræg fyrir mikil undarlegheit og draumóraframkvæmdir sem eiga hvergi sinn líkan. Gervitunglamyndin hér að ofan er tekin í október 2006 og má sjá hinar frægu og gríðarstóru landfyllingar sem mynda einskonar pálmatré útfrá ströndinni en á þeim eiga að rísa glæsihýsi ýmiskonar. Skammt útfrá ströndinni má svo sjá eyjaklasann (The World) sem samanstendur af 300 smáeyjum sem mynda einskonar heimskort séð úr lofti. Þarna getur vel efnað fólk keypt sér íbúðarhús eða bara haft það gott í sumarleyfum. 

Burj Dubai

Uppbyggingin í þessari borg hefur verið það mikil að fyrir þrjátíu árum hefði varla verið hægt að sjá nokkurt mannvirki svona úr lofti. Metnaður olíufurstana í Dubai virðist varla eiga sér nokkur takmörk og bjartsýni á framtíðina jafnvel meiri en við höfum kynnst hér á landi. Auðvitað eru þeir að reisa skýjakljúf sem er fyrir nokkru orðinn sá langhæsti í heiminum og nefnist Burj Dubai. Hæð turnsins var lengi vel mikið leyndarmál en nú þegar hann er nánast fullgerður kemur í ljós að hann er um 818 metrar og nær því hærra til himins en algengasta gönguleiðin á Esjuna og er þar að auki um 300 metrum hærri en aðrir hæstu skýjakljúfar heimsins. Uppbygging Dubai-borgar er þó bara rétt að byrja og nú þegar eru komnar áætlanir um byggingu enn hærri turns Al Burj og verður sá um 1200 metrar á hæð ef draumar rætast. Stærsti skemmtigarður heims er einnig að rísa í Dubai og nefnist Dubailand og verður „bara“ helmingi stærri en DisneyWorld í Flórída, þarna á líka að verða stærsta verslunarmiðstöð í heimi og margir þekkja innanhúss-skíðabrekkuna sem opnuð var fyrir nokkrum árum.

Já það hefur greinilega ekki verið gert ráð fyrir neinni kreppu í Dubai. Að vísu er það ekki olíugróði framtíðarinnar sem rekur menn áfram þarna en  olíutekjur hafa orðið sífellt minni hluti af heildartekjum furstadæmisins því öll áherslan hefur verið á uppbyggingu Dubai sem miðstöðvar viðskipta og ferðamennsku. Ef horft er útfrá reynslu okkar íslendinga má kannski vel ímynda sér hvað menn hugsa þarna í dag á þessum síðustu og verstu tímum.

 

dubai-downtown

Myndin hér að ofan er fengin af síðunni http://www.dubai-architecture.info/DUB-GAL1.htm þar sem kynnast má betur furðuverkum borgarinnar.

Efsta myndin er frá NASA - Earth Observatory. Turnmyndin er af vefnum www.GlassSteelandStone.com


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki hægt að fá vinnu þarna? Koma sér burt af skerinu sem búið er að sökkva áður en maður sekkur með því?

Þröstur Ingólfur Víðisson (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 09:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband