14.3.2009 | 08:52
Hlýjasta árið á Íslandi
Þegar spáð er í veður er yfirleitt átt við það veður sem er framundan. En það er líka hægt að spá í veður fortíðarinnar eins og ég ætla að gera núna þótt ekki sé um fjarlæga fortíð að ræða.
Með hverju ári sem líður fáum við betri mynd af því liðna og sjáum betur hvað stendur upp úr. Þetta á t.d. við þau miklu hlýindi sem voru hér á landi á árunum í kringum 2003 sem var nokkuð örugglega hlýjasta árið sem komið hefur á landinu eftir að mælingar hófust og stendur nokkuð vel upp úr miðað við næstu árin í kring, jafnvel þótt þau hafi einnig verið með hlýjasta móti. Sjálfsagt hafa margir hugsað í rigningarsudda og átta stiga hitanum snemma í janúar 2003 að svona ætti þetta kannski eftir að verða um ókomna tíð - aldrei aftur almennilegar vetur á íslandi og aldrei aftur skíðasnjór í fjöllum. En við vitum betur í dag.
Meðalhiti þessa hlýja árs 2003 var 6,1°C í Reykjavík sem er eina skiptið sem meðalhiti ársins hefur náð 6 stigum. Skammt þar á eftir koma árin 1939 og 1941 þar sem meðalhitinn náði 5,9 stigum (munurinn þó kannski innan óvissumarka). Ef við hinsvegar hliðrum aðeins til og tökum tímabilið frá september 2002 til ágúst 2003 fáum við 12 mánaða tímabil þar sem meðalhitinn er hvorki meira né minna en 6.6° gráður, sem 2,3 gráðum yfir opinberum ársmeðalhita.
Þetta eru í raun gríðarleg hlýindi og örugglega heitasta 12 mánaða tímabilið frá því mælingar hófust í Reykjavík um 1830. Allir mánuðir tímabilsins voru yfir meðallagi nema maí-mánuðurinn en þá kom eitt af þessum síðbúnu vorhretum með tilheyrandi kuldum. Svo er dálítið sérstakt að þrátt fyrir mjög hlýtt sumar 2003 kom engin stórkostleg hitabylgja á landinu en þó má segja að við höfum notið leifanna af hitabylgjunni miklu sem hrellti Evrópubúa það sumar. Það var hinsvegar árið 2004 sem ágúst-hitabylgjan kom hingað en sá mánuður náði þó ekki að slá út ágúst 2003 í meðalhita.
Annars komu umræddir 12 mánuðir í Reykjavík svona út: (ath. samanburðurinn fyrir aftan hitatölurnar eiga bara við tíman fram til 2003)
Þótt tölurnar hér séu bara frá Reykjavík eiga hlýindi tímabilsins einnig við um landið í heild. Það hefur yfirleitt verið nokkuð hlýtt í framhaldi af þessu 12 mánaða tímabili og við höfum upplifað marga góða mánuði á landinu undanfarin ár. Myndin hér að neðan er t.d. tekin af vefmyndavél í Reykjavík þann 14. mars árið 2004, nákvæmlega fimm árum áður en þessi færsla er birt. Um hádegi þann dag var hér 8 stiga hiti og eins og sjá má er ekki mikill vetrarbragur yfir borginni og snjóalög í Esjunni eins og á sumardegi.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Veður | Facebook
Athugasemdir
Ég man vel eftir september 2002, sérstaklega 14. september, en þá var ég að þvælast um norðausturlandið í hitamollu sem myndaðist við hnjúkaþeyr að sunnan. Það var yfir 20 gráðu hiti, maður svitnaði í buxum og bol, þrátt fyrir að maður væri ekki að erfiða mikið við göngu, samt var engin sól og svona rykmistur yfir öllu. Mjög sérkennilegt veður.
Loftslag.is, 14.3.2009 kl. 21:23
Þessa daga var einmitt nett hitabylgja yfir landinu. Ég get bætt því við að samkvæmt mínum áræðanlegu veðurskráningarbókum var 17 stiga hiti í Reykjavík þann 12. september og 16 stig daginn eftir. Snjóleysið framan af vetri er líka athyglisvert, en jörð var hvít í þrjá daga í lok október en annars var alautt þennan vetur í borginni fram til 16. janúar.
Emil Hannes Valgeirsson, 14.3.2009 kl. 21:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.