Landbúnaðarmynstur

Hvað er betra en að svífa um loftin blá og virða fyrir sér jörðina frá því himneska sjónahorni? Eftir dálitla heimsreisu í boði Google Maps eins og ég fór um daginn ætla ég að bjóða upp á nokkrar myndir frá sveitum jarðar, en óhætt er að segja að maðurinn setji sinn svip á jörðina á frjósömustu svæðunum og oft með mjög myndríkum hætti.

Danmörk

1. Á Jótlandi í Danmörku þar sem til forna hafa sjálfsagt verið miklir laufskógar eru í dag ekkert nema akrar og engi sem raðast nokkuð óskipulega útfrá ótal smáþorpum og sveitabæjum. Þetta er gamla frjálslega skipulagið sem lagar sig að misflötu landslaginu eins og algengt er í Evrópu. 

 

Minnesota

2. Í Minnesota eins og víða annarstaðar Bandaríkjunum eru miklar víðáttur og landið gjarnan marflatt. Hér eru það beinar línur og reglufestan sem einkenna landið rétt eins og í borgunum þar vestra.

 

Vietnam

3. Í Víetnam rækta menn hrísgrjón af miklum móð á eins og annarstaðar í Asíu þar sem votlendi er að finna. Í þeirri ræktun þarf að vera hægt að loka vatnið inni í reitum ýmist með stallaræktun til fjalla eða í hólfum við árósa eins og hér er gert.
 

Egyptaland

4. Í Egyptalandi má finna þessa fínu hringakra sem eru vökvaðir með hjálp hringáveitukerfis með vatni úr ánni Níl. Risastórir vökvunararmar snúast þá kringum miðjuna og vökva eftir þörfum.
 

Amazon

5. Í gegnum þennan regnskóg í Brasilíu liðast ein af þverám Amazónfljóts og veit greinilega ekki alltaf hvert skal stefna frekar en aðrar ár sem renna um sléttlendi. Þarna er ekki að sjá mikinn landbúnað þótt grilla megi í opin svæði en regnskógurinn er annars lífinu á jörðinni afar mikilvægur enda á sér þarna stað afkastamikil framleiðsla á súrefni sem er nauðsynlegt líkama okkar til brenna þeim landbúnaðarafurðum sem við látum í okkur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Já, vænn getur hann verið og grænn, blái hnötturinn okkar!

Ásgeir Kristinn Lárusson, 18.3.2009 kl. 19:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband