Það er þetta með sólina

sun6apr09Það er orðin föst venja hjá mér að fara á síðuna SpaceWeather.com til að fylgjast með ástandi sólarinnar en eins og komið hefur fram í fréttum hefur virkni sólarinnar ekki verið minni áratugum saman eða jafnvel í heila öld. „The sun is blank-no sunspots“ eru algengustu fréttirnar af sólinni þessa dagana.

Það sem helst endurspeglar virkni sólarinnar eru sólblettirnir sem eru fleiri eftir því sem sólin er virkari, en reglan er annars sú að virkni sólarinnar sveiflast þannig að sólblettir nánast hverfa á um 11 ára fresti og ná hámarki þess á milli. Það sem er óvenjulegt nú er að sólarlágmarkið með tilheyrandi sólblettafátækt hefur staðið í heil þrjú ár en ekki í rúmlega eitt ár eins og telst eðlilegra. Hver sólarsveifla hefur númer, sú síðasta var númer 23 og var í hámarki um árið 2000 og því er það sveifla númer 24 sem beðið er eftir og ætlar ekki að koma.

(Síðustu fréttir þegar þetta er skrifað eru þó þær að eitthvað sé farið að lifna yfir sólinni og að búast megi við sólbletti eða blettum næstu daga. Sólblettalágmark þarf ekki að þýða algert sólblettaleysi, en sjáum til hvað gerist.)

sólarsveiflur spá2006
Þróunin þvert á spádóma
Eftir því sem þetta sólblettalágmark dregst á langinn aukast líkurnar á mjög veikri sólarsveiflu nr 24 en samkvæmt því sem fróðustu menn höfðu komist að átti sú sveifla einmitt að með öflugra móti og ná hámarki 2010-2012 (sbr. línurit að ofan). Það ætlar greinilega ekki að ganga eftir en af þeim fáu sólblettum sem komið hafa fram nú árið 2009 eru enn einhverjir sem tilheyra liðinni sólarsveiflu nr. 23. Samkvæmt sömu spám var hinsvegar gert ráð fyrir veikri sólarsveiflu nr 25 með lítilfjörlegu hámarki um árið 2024. Hvað ætli verði um þær spár?

sólarsveiflur 400 ár

Langur svefn framundan?
Spurningin er sú hvort þetta sé fyrirboði um langvarandi deyfð í sólinni sem gæti jafnvel staðið í áratugi? Síðustu 60 árin hefur sólin verið mjög virk, en vitað er frá fyrri tíð að sólblettaleysi getur staðið yfir áratugum saman eins og var á hinu svokallaða Maunder minium tímabilinu á 17. öld. Á svipuðum tíma var kuldatímabilið mikla sem nefnt hefur verið Litla ísöldin og því eðlilegt að þeir atburðir séu tengdir saman. Þeir sem fylgjast með sólinni þessa dagana gera lítið annað en að bíða og sjá til hvað gerist en greinilegt er að vísindamenn vita ekki mikið við hverju má búast á næstunni.

Sólin eða gróðurhúsaáhrifin?
Það er vissulega óþægilegt að meta áhrif aukinna gróðurhúsáhrifa á sama tíma og virkni sólarinnar á síðustu öld var meiri en hún hefur verið í yfir 1000 ár eins og haldið er fram. Hinsvegar hefur oft verið bent á að virkni sólarinnar náði hámarki um miðja 20. öld, á meðan hiti jarðarinnar hækkaði mest á seinasta fjórðungi aldarinnar.

Það hefur hinsvegar ekki mikið hlýnað á jörðinni það sem af er þessari öld og árið 2008 var það kaldasta á öldinni. Það ár er þó talið mjög hlýtt í lengra samhengi og það sem af er þessu ári hefur hitinn verið hærri en á sama tíma og í fyrra, þannig að við erum ekki enn komin í neitt kuldaskeið þrátt fyrir ládeyðu í sólinni. Hvað sem síðar verður.

Sjálfur hef ég trú á að áhrif sólvirkni og aukinna gróðurhúsaáhrifa séu hvortveggja mjög mikil og að eitt útiloki ekki annað í þessu. Ef sólvirknin fer í langvarandi lægð þá gætu næstu ár hugsanlega verið erfið fyrir hlýnunarspámenn. Kannski verða menn búnir að gleyma vandanum af auknum gróðurhúsaáhrifum þegar ládeyðunni svo lýkur í sólinni og hitinn rýkur upp úr öllu valdi, af áður óþekktum krafti.

Ég hef annars fulla samúð með þeim vísindamönnum sem reyna að spá í loftslag framtíðarinnar og auðvitað á maður að trúa því sem flestir vísindamenn eru sammála um, a.m.k. þangað til annað kemur í ljós. Ef þeir hinsvegar reynast hafa rangt fyrir sér þá vona ég líka að þeir láti það í ljós. Traust manns á vísindunum byggist nefnilega ekki síður á því.

- - - - -

Heimildir: 

Long Range Solar Forecast. (NASA 10.maí 2006)

Sunspots reaching 1,000-year high  (BBC-news 6.júlí 2004)

The missing sunspots: Is this the big chill?  (The Independent 27.apríl 2009)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þórðarson

Frábær færsla hjá þér Emil.

Hörður Þórðarson, 7.5.2009 kl. 05:14

2 Smámynd: Loftslag.is

Sammála Herði.

Varðandi einn af lokapunktunum að næstu ár geti verið hlýnunarspámönnum erfið, þá segi ég á móti að hún er ótrúleg þrjóska sumra efasemdamanna að vera sífellt að benda á sólina því tengslin á milli hlýnunar og virkni sólarinnar er lítil síðustu áratugi - ef tengslin væru sterkari þá væri búið að kólna töluvert undanfarin ár, meðan tengslin á milli gróðurhúsalofttegunda og hlýnunar hafa styrkst. Hitt er þó annað að meðan það hægist á hlýnuninni þá virðast efasemdamenn geta höfðað til tilfinninga almennings varðandi það að eitthvað sé að kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum. 

Það sem ég ætlaði að segja var að í raun ætti þessi vanvirkni sólarinnar að vera efasemdamönnum erfið á meðan það kólnar ekkert.

Loftslag.is, 7.5.2009 kl. 06:58

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Efasemdarmenn höfða til tilfinnings almennings. Alltaf að höfða til tilfinninga almenings! En það gera hlýnunarspámenn víst aldrei! Ekkert nema rökvísin og hófstillingin.

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.5.2009 kl. 12:04

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég ætla allavega að halda minni hófstillingu og vonandi rökvísi, hvað sem á dynur.

En það sem ég átti við í pistlinum er að það er auðvelt að segja almenningi að ekkert sé að marka hlýnun af mannavöldum á meðan það hlýnar ekki á jörðinni. Hiti jarðar hlýtur að einhverju leiti að stjórnast ennþá af náttúrulegum orsökum og ef þeir náttúrulegu þættir fara í kólnunargír eins og þeir gætu verið að gera, þá gætu verið erfiðir tímar framundan fyrir hlýnunarspámenn. Við höfum t.d. ekki upplifað langvarandi bakslag í virkni sólar síðan á 19. öld og ég veit ekki frekar en aðrir hvaða áhrif það muni hafa.

En auðvitað ætti það að vera þannig að ef náttúrulegir þættir stjórna mestu þá ætti öll hlýnun jarðar að geta gengið baka við réttar aðstæður. Stöðugt hitafar á sama tíma og náttúrulegir þættir eru í kuldagír ættu hins vegar að benda til aukinna gróðurhúsaáhrifa.

Emil Hannes Valgeirsson, 7.5.2009 kl. 12:46

5 Smámynd: Loftslag.is

Takk fyrir þetta spark í rassinn Sigurður.

Það sem ég meinti var: Efasemdamenn höfða til tilfinninga almennings, án viðunandi röksemdafærslna oft á tíðum - það er auðvelt að segja t.d. "það var helvíti kalt á Norðurlandi og mikil snjóalög í vetur, hlýnun hvað?".

En sjálfsagt er þetta í báðar áttir, t.d. geta hlýnunarmenn auðveldlega komið með svipuð dæmi og sagt t.d. "það var óvenjulega hlýtt á Suðurlandi síðastliðið sumar, hlýnun jarðar á fullu".  Þetta eru svolítið extrím dæmi, en punkturinn skilar sér vonandi í gegn.

Loftslag.is, 7.5.2009 kl. 12:47

6 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Það verður spennandi að fylgjast með málum næstu árin. Síðastliðið sumar bloggaði ég smávegis um þessi mál í pistli sem nefnist Hnattkólnun í kjölfar hnatthlýnunar?

Þar er mynd sem sýnir samspil milli lengdar sólsveiflunnar og hitamælinga sem gerðar hafa verið samviskusamlega um langan tíma í stjörnuathugunarstöðinni í Armagh.

þetta var í júní 2008. Nú eru liðnir næstum 12 mánuðir til viðbótar og árin 12,0 á myndinni orðin næstum 13.

Í texta pistilsins stendur meðal annars:

Við stjörnuathugunarstöðina Armagh á Norður-Írlandi hefur lofthiti verið skráður samviskusamlega frá árinu 1796. Hin fræga 11 ára sólblettasveifla nær sjaldnast yfir 11 ár heldur er hún breytileg; hún er frá um 9,5 árum til 12,5 ára. Það er vel þekkt að sólin er virkari en venjulega þegar sólsveiflan er stutt en síður virk þegar hún er löng. Það er einnig vitað að lengd sólsveiflu er vísbending um hve virk næsta sólsveifla verður. Stjörnufræðingar við Armagh teiknuðu upphaflega línuritiðLóðrétti ásinn er hitastig við Armagh, sá lárétti lengd sólsveiflunnar. Rauða línan er útreiknuð og sýnir eiginlega meðaltal legu punktanna (regression). Hver einstakur punktur á línuritinu sýnir lengd sólsveiflu og meðalhita meðan á næstu sólsveiflu stóð (áratug síðar). Þetta er vegna tregðu lofthjúps jarðar til að svara breytingum frá inngeislun sólar en vegna þess hve sjórinn er mikill varmageymir tekur um áratug þar til breyting í inngeislun skilar sér sem breyting í lofthita. Það fer ekki á milli mála að töluverð fylgni er á milli lengdar sólsveiflunnar og meðalhita næsta áratugar; jafnframt að meðalhiti getur samkvæmt línuritinu lækkað um það bil 1,4°C við það að lengd sólsveiflunnar breytist frá 9,5 árum til 12,5 ára. Það er ekki lítið miðað við að hitastig lofthjúpsins er talið hafa hækkað um 0,7°C síðastliðin 150 ár. Hliðstæðir ferlar hafa verið gerðir sem sýna samsvörun milli meðalhita lofthjúps jarðar og lengdar sólsveiflunnar. en höfundur pistilsins endurteiknaði það.

Nú er bara að bíða og sjá hvað gerist

  Armagh---600w

Undir myndinni stendur:

Samspil lengdar sólsveiflunnar og lofthita. Sólsveifla #23 er þegar orðin 12 ár, en sólsveifla #22 var aðeins 9,8 ár, og enn bólar ekkert á sólsveiflu #24. Sólsveifla #23 er þegar orðin 2,2 árum lengri en #22. Lenging sólsveiflunnar um 2 ár gæti þýtt um 1°C kólnun nokkrum árum síðar. 

Næsti punktur ætti í ljósi sögunnar að lenda nærri rauðu línunni innan sporöskjulaga hringsins, en lendi hann mun ofar, t.d. þar sem (?) er innan hringsins, er líklegt að hnatthitun af mannavöldum valdi því að hitastig helst hátt. Áhrif manna eru aftur á móti lítil lendi punkturinn nærri rauðu línunni.

Þróun mála getur því sagt okkur mikið um hve áhrif sólar eru miðað við áhrif mannsins. Líta má á þennan feril sem eins konar mælitæki til að meta þau áhrif. Vegna langs svartíma (thermal inertia) verður ekki ljóst fyrr en eftir áratug hvar næsti punktur lendir.


(Hallatala rauða ferilsins er -0,5°C/1ár).

 

 

Ágúst H Bjarnason, 7.5.2009 kl. 14:00

7 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Hér er glæný mynd frá öðrum Stereo hnettinum sem sýnir að hluta til bakhlið sólar. Væntanlega tilheyrir þetta sólsveiflu 24 því blettirnir eru svo fjarri miðbaug.  Innan fárra daga verða blettirnir væntanlega sýnilegir frá jörðinni. Kannski maður reyni að koma auga á þá með hydrogen-alpha sjónaukanum

 latest image

Stereo hnettirnir eru á  svokölluðum Lagnangian stöðum milli jarðar og sólar. Þeir sjá þvi sólina frá hlið.

 st_orbit1

Það var  Josep-Louis Lagrange (stjörnufræðingur og stærðfræðingur) sem uppgötvaði þessa Lagrange staði árið 1772.

Ágúst H Bjarnason, 7.5.2009 kl. 14:42

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk fyrir þetta Ágúst. Þessir Lagrange staðir eru athyglisverðir.

Samkvæmt Armagh myndinni þá ætti 13 ára sólarsveifla nr.23 að gefa 8 stiga meðalhita í Armagh næstu 10 ár, sem er rúmlega 1,5 gráðu kólnun frá síðasta tímabili. Verst að þurfa að bíða í áratug eftir þeirri niðurstöðu.

Emil Hannes Valgeirsson, 7.5.2009 kl. 15:21

9 identicon

Ekki það að ég sjái neitt sérstaklega tilefni til þess að tjá mig sérstaklega um efni þessarar færslu heldur ætla ég að leyfa mér að gera athugasemd við eitt í athugasemdunum. Það er orð Sápuboxins:

"Það sem ég meinti var: Efasemdamenn höfða til tilfinninga almennings, án viðunandi röksemdafærslna oft á tíðum - það er auðvelt að segja t.d. "það var helvíti kalt á Norðurlandi og mikil snjóalög í vetur, hlýnun hvað?"."

Þetta viðgengst nú á báða bóga hægri vinstri hjá þeim sem eru illa upplýstir(eða ganga einhverja annarlegra erinda) hvoru megin við borðið sem þeir standa. Ég gæti alveg minnst á fyrirbæri eins og myndina "an Inconvenient truth" þar sem höfðað er til tilfinninga almennings án viðunandi röksemdafærslna!

Bjarni (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 19:45

10 Smámynd: Loftslag.is

Emil: biðst velvirðingar á að stela athugasemdakerfinu þínu, en ég verð eiginlega að svara þar sem hann Bjarni gerir athugasemd við mína athugasemd um típískar athugasemdir efasemdamanna.

Ég er enginn sérstakur talsmaður Gore, það eina sem við eigum sameiginlegt er að við erum báðir nokkuð vissir um hlýnun jarðar - ég sá myndina um það leiti sem hún kom út, en það er langt síðan og ég man hana ekki í neinum smáatriðum. Ég hef heyrt menn endalaust vera að gagnrýna Gore síðan þá. Hann túlkar það sem vísindamenn segja að því er virðist á sinn hátt og virðist í einhverjum tilfellum hafa ýkt töluvert (t.d. varðandi sjávarstöðubreytingar). Annað sem málsmetandi menn segja um Gore, er að í megindráttum fer hann með rétt mál - öfugt við marga af þeim efasemdamönnum sem gagnrýna hann.

Loftslag.is, 7.5.2009 kl. 21:34

11 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ekkert mál Hr. Sápubox. Þú sagðir reyndar sjálfur í athugasemdinni: „En sjálfsagt er þetta í báðar áttir“ á eftir því sem Bjarni vísar í. Annars finnst mér Al Gore alltof oft dregin fram í umræðuna eins og hann sé upphaf og endir alls í Global warming. Þó ég fylgist ágætlega með þessum málum þá hef ég ekki séð myndina hans, en ég fór þó á fyrirlesturinn í Háskólabíó.

Emil Hannes Valgeirsson, 7.5.2009 kl. 21:59

12 Smámynd: Loftslag.is

Annars var ég búinn að sjá myndina (from the dark side of the sun ;), hann var rétt á undan mér að benda á hana - það verður spennandi að sjá hvað gerist með sólblettina.

Loftslag.is, 7.5.2009 kl. 22:12

13 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst hlýnunarspámenn oft hrokafullir og það fælir mig frá þeim. Það er eins og þeir geri ekki ráð fyrir því að ''efasemdaarmenn'' geti sagt orð af viti enda eru þeir efasemdarmenn. Þeir eru bara afgreiddir. Hlýnunarspámennirnir eru oft eins og Halldór Laxness lýsir marxistunum í gamla daga;  vorkunnsamlegt hæðnisbros færist yfir andlit þeirra þegar einhver andmælir þeim. Svo er Al Gore  óneitanlega frægasti hlýnunarspámaðurinn og því fyrirferðarmikill.

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.5.2009 kl. 00:21

14 Smámynd: Loftslag.is

Ég veit ekki hvort þú ert að vísa til mín Sigurður, en það er ekki ætlun mín að vera hrokafullur.

Aftur á móti getur vel verið að það hljómi hrokafullt þegar ég er að lýsa röksemdum sumra efasemdamanna og vísa þeim á bug sem hálfgerðum bábiljum, vegna þess sem ég vil meina að séu rökleysur - t.d. rök eins og að það sé að kólna (oft vísað í staðbundið veðurfar eða viðmiðunina 1998) og rök sem stangast á við það sem við erum að sjá (t.d. að Grænlandsjökull sé að stækka).

Var þetta hrokafullt?

Loftslag.is, 8.5.2009 kl. 10:40

15 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég var ekki að vísa til þín Sápubox. En meðal annarra orða varstu ekki búinn að gefa fyrirheit um að blogga um bók Halldórs Björnssonar.

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.5.2009 kl. 13:43

16 Smámynd: Loftslag.is

Hmm, jú - fjandinn (afsakið orðbragðið), var búinn að gleyma því loforði

Má ég ekki bara kopí-peista þinn ritdóm  - nei nei, ég reyni að skella mér í það við tækifæri, helst áður en ég gleymi bókinni.

Loftslag.is, 8.5.2009 kl. 14:22

17 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég las bókina fimm sinnum. Þetta á sem sagt ''efasemdarmaðurinn'' til!  

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.5.2009 kl. 14:31

18 Smámynd: Loftslag.is

Hehe, þú ert búinn að viðurkenna að þú hallast að í hina áttina ;)

...en þú ert líka örugglega búinn að eiga bókina fimm sinnum lengur en ég.

Loftslag.is, 8.5.2009 kl. 14:55

19 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Var Siggi kannski með Halldór Björnsson í huga með athugasemdinni að ofan?

Emil Hannes Valgeirsson, 8.5.2009 kl. 15:30

20 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

No komment Emil!

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.5.2009 kl. 16:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband