Tollhúsið og Geirsgatan

Tollhús

Það hafa verið gerðir margir skipulagsuppdrættir fyrir Reykjavík í gegnum tíðina. Engum þeirra hefur þó verið fylgt eftir til hlýtar, enda þróaðist borgin á tímum mikilla breytinga þar sem fólksfjöldinn jókst miklu hraðar en nokkurn gat órað fyrir og tilkoma einkabílsins gerði eldri skipulagshugmyndir fljótt úreltar.

Einn af þessum skipulagsuppdráttum var kynntur árið 1965 en að honum stóðu danskir skipulagsfræðingar sem fengnir voru til verksins. Í anda þess tíma áttu að rísa stórhýsi í öllum elsta hluta borgarinnar á kostnað gamalla og smærri húsa sem átti að rífa eða að flytja upp í Árbæjarsafn. Hraðbrautarkerfi heilmikið var skipulagt og þarna voru lagðar línurnar að úthverfabyggðinni sem teygði sig upp í holt og hæðir. 

Meðal þeirra húsa sem byggð voru samkvæmt þessu skipulagi var hin metnaðarfulla bygging Tollhúsið sem hafist var handa við árið 1966. Á suðurhlið hússins er hin risastóra mósaíkmynd eftir Gerði Helgadóttur þar sem sjá má lífið við höfnina á fyrri tíð. Á Norðurhlið hússins er minna falleg útbygging sem lögð var undir vörugeymslur en þar er Kolaportsmarkaðurinn í dag. Útbygging þessi var byggð í þeirri framsýni að ofaná henni skyldi liggja fjögurra akreina hraðbraut, Geirsgata, sem var hluti að hraðbrautarskipulaginu danska. Þessi ofanjarðarhraðbraut varð aldrei lengri en þessi stubbur sem þarna er ennþá, en gegndi þó lengi hlutverki bílastæðis á meðan heilmikil trébrú lá þangað upp. Árið 1986 var endanlega hætt við þessi loftbrautaráform og Geirsgatan var síðan lögð meðfram höfninni eins og hún er í dag. Fleiri hraðbrautir átti að leggja um miðbæinn, en þar á meðal var framlenging Suðurgötunnar í gegnum Grjótaþorpið sem átti allt að rífa. Framlengda Suðurgatan átti síðan að tengjast Geirsgötunni þarna aðeins vestar.

Í dag er þetta svæði í kringum Geirsgötuna allt stórlega skaddað að gjaldþrota uppbyggingarhugmyndum síðustu ára en miðbær Reykjavíkur ber þess reyndar merki að sífellt er verið að fara af stað með nýtt skipulag sem á að gefa Reykjavík yfirbragð erlendrar stórborgar. Kannski verður Geirsgatan lögð í neðanjarðarstokk eins og upp eru hugmyndir um, en þannig losnum við vissulega við umferðina sem þarf að fara þarna í gegn. Ég hef hinsvegar ekki mikinn áhuga á að aka neðanjarðar um bæinn. Kannski eru þeir sem fara með skipulagsmálin ennþá fastir í þeirri hugmynd að bílaumferð í miðbæjum þurfi alltaf að ganga óhindruð fyrir sig á fullri ferð, ef ekki ofanjarðar, þá neðanjarðar. Mín vegna mætti leysa Geirsgötuhnútinn með því að fækka bara akreinum úr fjórum í tvær. Umferðin, sem er reyndar ekkert svo mikil þarna, gengi sjálfsagt eitthvað hægar fyrir sig, en ég er ekki viss um að öllum liggi svo mikið á.

- - - - -

Hér kemur svo mynd sem ég bætti við eftir á. Hún er frá Seattle USA, þar sem má sjá hvernig hraðbrautarbrú liggur meðfram hafnarsvæðinu þar. Það var Björn frændi minn Emilsson sem sendi mér myndina, en eins og hann segir í athugasemdum hér að neðan, stendur til að rífa þennan „óskapnað“.

SCENIC_Central_Waterfront_AWV


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er með ólíkindum að hámentaðir arkitektar og skipulagsfræðingar og það Íslenskir virðast ekkert vit hafa á framtíðarskipulagi,það mætti halda það.Þú nefnir þarna að danskir fræðingar hafi verið sóttir á sínum tíma til að skipuleggja miðbæjarkerfið,þetta er skömm gagnvart okkar lærða fólki.Fyrir um 7,árum síðan voru umferðarljósin í Reykjavík samstillt,og hvaðan komu sérfræðingar til þess? jú frá Danmörku.Auðvitað á að halda í gamla miðbæinn,hann er saga okkar,allavega stór hluti.Ég spyr síðuskrifara hvort hann hafi séð þá hrygðarmynd sem gamla Zimsen húsið er að verða,það er reyndar nýbúið að gera það upp og planta því við Grófina í kvosini,og þvílík hörmung sem búið er að gera við húsið,,það er búið að sjóða einhvern andskotans,gler og stálbitakassa utan á fyrrum glæsilega framhlið þess.Hver skyldi bera ábyrgð á þessu klúðri,ekki er hægt að gleyma því að þegar gler og álrammi í bogadregnum stíl var meitlaður utan á Iðnó-leikhús,en sem betur fer var sú hörmung fjarlægð.               

Númi (IP-tala skráð) 10.5.2009 kl. 23:35

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þið eruð skynsamir menn, strákar mínir.

Þorsteinn Briem, 11.5.2009 kl. 00:10

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég hef ekkert á móti dönum, en þeir sem teiknuðu turnaósköpin við Skúlagötu komu einmitt líka frá Danmörku. Samt er ég ekkert viss um að betri útkoma hefði komið frá íslenskum arkitektum. Zimsen húsið sá ég um daginn, glerkassinn þar er ekki alveg að gera sig.

Emil Hannes Valgeirsson, 11.5.2009 kl. 00:31

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hugsið ykkur ef Grjótarþorpið og Bernhöftstorfan hefði verið rifin og við sætum uppi með þessa hraðbraut.

Sigurður Þór Guðjónsson, 11.5.2009 kl. 00:44

5 Smámynd: B Ewing

Ég legg til að hraðbrautin verði byggð hvað sem tautar og raular.  Þessi risa reykingaaðstaða fyrir starfsmenn Tollhússins á ekki að líðast í opinberri stjórnsýslu.  Best færi á því að brautin yrði lögð í sveig beint inn um 4. hæðina á Tónlistarhúsinu áður en hún tengist Sundabraut og beit út á Flóann.  Fá þannig frábært Metrópólitanútlit á þennan flata "miðbæ".

B Ewing, 11.5.2009 kl. 10:25

7 identicon

Athyglisverð saga um Tollhúsið og hraðbrautina sem aldrei varð sem betur fer. Komandi kynslóðir munu væntanlega líta til baka og þakka bankahruninu fyrir að ekkert varð af stórkallalegum hugmyndum um uppbyggingu á svæðinu sem hafa verið í deiglunni undanfarið. Ég er líka alveg sammála því að það má slá allar þessar stokkahugmyndir útaf borðinu. Ég hef aldrei orðið var við það að umferð þarna á svæðinu gangi sérstaklega illa, hægt auðvitað, en örugglega. Þannig á það bara að vera í miðborgarbyggð, þar skiptir annað meira máli en að lágmarka ferðatíma ökumanna.

Bjarki (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 14:55

8 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Það færi líklega best fjarlægja eitthvað af þessum stóru byggingum og flytja hluta af gömlu húsunum sem eru á Árbæjarsafninu inn á svæðið og útbúa svona lítinn miðbæ við höfnina í gömlum stíl eins og finna má t.d. í Århus.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 11.5.2009 kl. 15:08

9 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Gallinn við nútímabyggingar er að það er ekki hægt að transportera þeim á vörubílum eins og gömlu húsunum. Ef svo væri þá mætti útbúa stórhýsa-Árbæjarsafn.

Emil Hannes Valgeirsson, 11.5.2009 kl. 15:56

10 identicon

Hugmyndin um hraðbrautina kom sennilega frá Seattle. Þar var byggt heljarmikið mannvirki,kallað Viaduct, meðfram hafnarbakkanum. Þessi óskapnaður aftengdi miðbæ Seattle við hafnarsvæði borgarinnar, sem þjónar ferjum og skemmtiferðaskipum , með tiheyrandi vertshúsum á hafnarbakkanum. Í skjóli þessa ömurlega mannvirkis þróaðist allskonar öfugsnúið mannlíf, götufóks og lögreglu. Mikil barátta hefur verið háð til að fjarlægja þennan óskapnað, sérstaklega eftir að mikla skemmdir urðu á mannvirkinu í síðasta jarðskáfta 'og ekki þeim síðasta ´sem reið yfir Seattle.

Nú hefur það ánægjulega skeð, að þegar Obama peningar fóru að streyma í stríðum straumum, sérstaklega til vegagerðar, var loks samÞykkt að rífa ófarnaðinn og beina umferðinni í jarðgöng.

En, sannleikurinn er sagna bestur. Verði ekki hafist handa um endurbyggingu þessa hafnarbakka, er hætta á að hann hverfi hreinlega í sjó, eins og hann leggur sig.

Þess má geta að hafskipahöfn Seattle er innar í sundinu og tengist ekki þessum ´viaduct´

Björn Emilsson (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 01:53

11 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sæll Björn og takk fyrir athugasemdina. Ég leyfði mér að bæta inn myndinni

frá Seattle í pistilinn. Það er örugglega talsvert meiri umferð þarna í Seattle heldur en

meðfram gömlu höfninni í Reykjavík og því væntanlega ekki sama þörfin

á miklum umferðarmannvirkjum á þessum tveimur stöðum.

Emil Hannes Valgeirsson, 15.5.2009 kl. 09:58

12 identicon

Má bæta við, að blekið var varla þornað á undirskrift ríkisstjórans, þegar hafist var handa að rífa mannvirkið, Heildarkostnaðurinn að rífa niður brúna og byggja göngin, er áætlaður 3.5 Billjonir USD, sem kemur örugglega að hækka þrefalt eða meira, ef að líkum lætur.

Seattle stendur í frekari framkvæmdum. Það er, að byggja nýja flotbrú yfir Puget sund.

Flugleiðir verða ekki fyrir neinum óþægindum af þessu brölti öllu. Lokið hefur verið við 3ju flugbrautina á SeaTac flugvelli, einhverja dýrustu flugvallarframkvæmd sem um getur. Svo ekki kemur að væsa um B757 Flugleiða gimsteininn.

Fyrst verið er að tala um umferðarmál, Gripið hefur verið til mikilla vega og járnbrauta framkvæmda, Hundruð umhverfisvænir strætóar prýða nú göturnar, götulestir, ´trolley´ taka sitt plass og komin er ný hraðlest til SeaTac. Þetta er bara byrjunin. Meiningin er að járnbrautavæða Bandaríkin í líkingu við það sem gerist hjá öðrum þjóðum. Ýtir undir verkið, að ameriski bílaiðnaðurinn er að syngja sitt síðasta. Rétttrúaður amerikani getur ekki verið þekktur fyrir að aka á japönskum eða öðrum óæðri þjóða bílum. ´

BjornE (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 01:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband