17.5.2009 | 23:39
Meðalhiti jarðar frá degi til dags
Fyrir þá sem eru áhugasamir um línurit og hitafar jarðar ætla ég að kynna hér vefsíðu eina allgóða sem ég uppgötvaði á hefðbundnu netflakki núna nýlega. Málið snýst um einskonar gagnvirkt línurit þar sem hægt er að bera saman hvernig meðalhiti jarðarinnar þróast daglega samanborið við fyrri ár aftur til ársins 1998, auk þess sem hægt er að bera hitann saman meðaltöl og hámark- og lágmarkshita 20 ára tímabils þar á undan. Og ekki nóg með það, því hægt er að velja um mismunandi mælingarfjarlægð frá jörðu, frá yfirborði og uppí 41km hæð, en um gagnsemi þessi kem ég að hér síðar.
Annar af tveimur skráðum höfundum þessarar síðu eru Dr. Roy Spencer sem sumir þekkja kannski sem efasemdarmann um hnattræna hlýnun af mannavöldum, en hann er annars einn af frumkvöðlum um notkun gervitungla til hitamælinga í lofthjúpnum á vegum NASA. Hitalínuritasíðan sem ég ætla annars að tala um Daily Earth Temperatures from Satellites tengist viðameiri síðu sem heitir DISCOVER sem virðist bæði eiga ættir að rekja til NASA og Háskólans í Huntsville Alabama, þar sem Dr. Roy er núna.
En áfram með smjörið. Hér að neðan er sýnishorn af línuriti þar sem ég hef valið að bera saman hitann í neðsta loftlaginu (1 km. hæð í veðrahvolfi) frá árunum 2000, 2008 og það sem af er árinu 2009. Þarna má sjá að hitinn allt árið 2000 var nokkuð lægri en hann var árið 2008, og svo hefur hitinn árið 2009 yfirleitt verið hærri heldur en árið í fyrra. Þarna má líka sjá að meðalhiti jarðar er mestur þegar sumar er á norðurhveli og skýrist það væntanlega af þeim mikla landmassa sem þar er, sem hitnar á sumrin en kólnar mikið á veturna.
Þegar kemur að hitafari jarðar beinist athyglin auðvitað alltaf að margumræddum gróðurhúsáhrifum og hvort þau séu að aukast eða ekki. Hér á seinni myndinni hef ég kallað fram samskonar línurit nema hvað nú er ég kominn upp í 36 kílómetra hæð og þá lítur myndin allt öðru vísi út. Þarna í þessari hæð mælast árin 2008 og 2009 nokkuð kaldari heldur en árið 2000. Sömu sögu er reyndar að segja um önnur ár því eftir því sem tíminn líður þá kólnar í háloftunum þótt það hlýni nær yfirborði jarðar. Þetta er, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, algerlega í samræmi við aukin gróðurhúsaáhrif, því þau virka einhvernvegin þannig að hitinn sem endurkastast frá jörðinni sleppur ekki eins vel í gegn og áður og endurkastast í auknum mæli til baka sem veldur auknum hita í neðri loftlögunum og á yfirborði jarðar. Ef hlýnun undanfarinna ára væri af utanaðkomandi orsökum, eins og t.d. sólinni, ættu hinsvegar efri loftlögin (heiðhvolfið) að hlýna í takt við þau neðri, en ekki að kólna. Nema einhver önnur skýring er til sem ég þekki ekki.
- - - - - -
Smáa letrið hér að neðan er til nánari útskýringar og er fengið af síðunni Daily Earth Temperatures from Satellites Slóðin er: http://discover.itsc.uah.edu/amsutemps/
Daily averaged temperatures of the Earth are measured by the AMSU flying on the NOAA-15 satellite. The satellite passes over most points on the Earth twice per day, at about 7:30 am and 7:30 pm local time. The AMSU measures the average temperature of the atmosphere in different layers from the surface up to about 135,000 feet or 41 kilometers. During global warming, the atmosphere near the surface is supposed to warm at least as fast as the surface warms, while the upper layers are supposed to cool much faster than the surface warms.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 13.6.2009 kl. 14:10 | Facebook
Athugasemdir
Mismunurinn á þessum tveimur línuritum stafar ekki af hlýnun Jarðar, heldur af því að annað línuritið er ofan skýja en hitt neða. Það er svo annað mál að skýjafar hefur mikil áhrif á hlýnun eða kólnun Jarðar. En það sem hefur áhrif á skýjafar er ekki CO2 heldur agnir í andrúmsloftinu sem dropar geta myndast um.
Sigurjón Jónsson, 18.5.2009 kl. 09:12
Jörðin er nú yfirleitt fyrir neðan skýin. En ég vil vísa hér aftur í textann sem fylgir línuritunum (með global warming er hér nokkuð örugglega átt við hlýnun vegna aukina gróðurhúsaáhrifa):
„During global warming, the atmosphere near the surface is supposed to warm at least as fast as the surface warms, while the upper layers are supposed to cool much faster than the surface warms.“
Hitaþróun í neðsta loftlaginu - veðrahvolfinu - á að fylgja nokkurnveginn hitaþróuninni á yfirborði jarðar samkvæmt kenningum um aukin gróðurhúsaáhrif (ég tala að vísu hvergi um CO2). Það má líka velja „near surface layer“ á línuritinu en þar kemur sama niðurstaða fram.
Emil Hannes Valgeirsson, 18.5.2009 kl. 10:42
Áhugavert og skýrmerkilegt.
Loftslag.is, 18.5.2009 kl. 13:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.