4.8.2009 | 12:29
Hopandi skriðjöklar, stækkandi lón og horfnar jökulár
Ég var á ferðinni á dögunum í Öræfasveitinni og var þá auðvitað mjög upptekinn að þeim breytingum á jökla- og vatnabúskap sem þar eiga sér stað, en síðustu fréttir þaðan voru þær að Skeiðará hafi bara horfið sisvona einn daginn.
Hvarf Skeiðarár er bara einn liður í þeirri þróun sem hefur átt sér stað síðustu 100 árin eða svo. Skriðjöklarnir sem æddu fram á litlu ísöldinni eru óðum að hverfa af láglendi og munu halda því áfram enda er loftslag í dag of hlýtt til að viðhalda þeirri stærð sem jöklarnir eru í núna. Það má kannski líta svo á að landshættir séu á leiðinni þangað sem þeir voru á landnámstíð þegar loftslag var einnig mjög hlýtt og jöklarnir miklu minni. Það má gera ráð fyrir að sandarnir sunnanlands hafi fyrir 1000 árum að mestu verið grónir fyrir utan þau svæði sem jökulhlaupin fóru um. Öræfasveitin hét t.d. áður Litla-Hérað og stórbýlið Skaftafell var staðsett á sléttlendinu en vegna ágangs jökulánna og stækkandi jökla á 19. öld þurfti að flytja búskapinn upp í hæðirnar.
Að einu leiti verða landshættir seint þeir sömu og á landnámstíð. Skriðjöklar litlu ísaldarinnar grófu sig nefnilega niður í sandinn og skilja því eftir sig sístækkandi jökullón við sporðanna. Þangað ofaní fer framburður jökulánna sem aftur þýðir að framburðurinn leitar ekki í sama mæli til sjávar. Með minnkandi skriðjöklum og lónamyndun fækkar einnig jökulánum þannig að dýrindis brúarmannvirki standa á þurru eins og dæmi eru um.
Svo tók ég auðvitað myndir sem sýna það allra nýjasta:
Mynd 1. Hér er horft til Skeiðarárjökuls af hæðunum ofan við Skaftafell. Meginupptök Skeiðarár hafa færst vestar, þau voru áður austast í jöklinum svo nú rennur engin jökulá þarna um sandinn. Kannski verður ræktað korn og kartöflur niðri á söndunum þegar fram líða stundir.
Mynd 2. Hér er það sem eftir er af því jökulvatni sem rennur undir Skeiðarárbrú við þjóðveginn. Þetta vatn kemur ekki úr Skeiðarárjökli heldur úr Morsárjökli og því ætti langa brúin í raun að heita Morsárbrú framvegis en ekki Skeiðarárbrú. Lengra í burtu sést til Skaftafellsjökuls og Svínafellsjökuls.
Mynd 3. Gígjukvísl er orðin að vatnsmiklu stórfljóti enda hefur hún nú tekið við því vatni sem áður rann austur um sanda og undir Skeiðarárbrú. Þetta er því hin eiginlega Skeiðarárbrú í dag. Brúin, sem er miðbrúin á sandinum, er nýleg og traustbyggð og á að standa af sér stór jökulhlaup, en gamla brúin fór í flóðinu mikla í nóvember 1996. Þriðja og vestasta brúin á Skeiðarársandi er svo yfir Súlu sem er önnur jökulkvísl úr Skeiðarárjökli, þar undir rennur jökulvatn með sama hætti og áður.
Mynd 4. Ofan af Sjónarnípu ofan Skaftafells sést vel yfir sporð Skaftafellsjökuls. Svínafellsjökull gægist undan Hafrafellinu í fjarska en sporðar þessara tveggja skriðjökla náðu saman fram undir 1940. Þarna er sístækkandi lón eins og við marga aðra skriðjökla en greinilegt er að þessi skriðjökull er í mikilli afturför og er ekki að skríða fram. Um 1980 var ekkert lón þarna enda náði skriðjökullin þá að sandöldunum lengst til hægri á myndinni.
Mynd 5. Að lokum er það hið heimsfræga Jökulsárlón á Breiðamerkursandi en það er um þessar mundir sneisafullt af ís eftir framhlaup eða hrun jökulsins við sporðinn. Við það stækkaði lónið enn meir inn til landsins og mælist nú vera dýpsta vatn landsins. Þarna hafa aldeilis orðið breytingar frá því um 1900 þegar jökullinn fyllti lónið og átti stutta leið eftir til sjávar.
- - - - -
Til viðbótar: Þann 20.7. var dálítil umfjöllun á mbl.is um atburðina á Skeiðarársandi, þar sem vitnað er í Odd Sigurðsson jarðfræðing. Þar kemur m.a. fram um Skeiðarrá: Áin er búin að vera einn mesti farartálmi landsins og þá sér í lagi hlaupin. Nú munu þau flytjast yfir í Gigjukvíslarfarveginn og brúin standa tóm framvegis. Hann segist ekki hafa trú á því að áin komi aftur, ekki einu sinni í hlaupum. Þau þyrftu að vera mjög stór svo það gerðist.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Fín samantekt. Góður punktur með Morsárbrú!
Skaftfellingar kannast við þrjár brýr sem eru vatnslausar. Lengi vel var Sæluhúsakvílsl tóm. Stemma hvarf árið 1990 og nýja brúin yfir Heinabergvötn varð atvinnulaus er vötnin hurfi í Kolgrímu 1948.
Ég fór um spordrjúgan Sprengisand í vikunni. Það vantar allan jökullit í Skjálfandafljót og því er veiði lítil í fljótinu. Það bendir á litla bráðnun í Tungnafellsjökli eða Fljótsjökli.
Einng var lítið vatn í vöðum nálægt Jökuldal hinum nýja, þau voru grunn en kolmórauð.
Sigurpáll Ingibergsson (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 12:47
Allt saman afar athyglisvert Emil ! Breytingarnar eru hraðar og á allra næstu árum verða enn frekari breytingar á Jökulsárlóninu þar sem austurstraumur Breiðamerkurjökuls er kominn inn fyrir öldu nokkra sem haldið hefur jöklinum á floti ef svo má segja. Nú mun ganga hratt á hann inn eftir öllum "Breiðamerkurfirði" Heimamenn greina þarna miklar breytingar í sumar.
Myndin af Sjónarnípu niður á Skaftafellsjökli er sérlega skemmtileg. Auðvelt að fylgjast með jöklinum og lóninu framan við frá þessu sjónarhorni.
ESv
Einar Sveinbjörnsson, 4.8.2009 kl. 13:23
Athyglisvert!
Gunnar Th. Gunnarsson, 5.8.2009 kl. 01:29
Emil! Áttu ekki eða hefurðu lesið rit Sigurðar heitins Þórarinssonar "Vötnin stríð", sem var upphaflega greinargerð hans til Vegagerðar ríkisins um vötnin þarna eystra og var lögð til grundvallar við brúa- og vegagerð yfir sandana? Greinargerðin þótti hinsvegar svo skemmtileg aflestrar, að ákveðið var að gefa hana út í bókarformi á almennum markaði!
Sjóðríkur (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 07:04
Mjög áhugavert, takk fyrir þetta Emil.
Loftslag.is, 5.8.2009 kl. 08:41
Ég þakka athugasemdir. Það má svo bæta við að ég lagði ekki í að meta hvort það hafi verið hlýrra á landnámsöld heldur en nú, en stærð jökla í dag dugar sennilega ekki til að segja til um það á meðan þeir eru ekki í jafnvægi. Í Morgunblaðinu í dag er svo ágætis umfjöllun um árnar á Skeiðarársandi með korti sem sýnir þetta, þar er talað um að meginafrennslið og árnar geti færst enn vestar og þá ekki síst vegna ríkjandi austanáttar.
Bókina „Vötnin stríð“ hef ég ekki lesið en ég kannast þó við hana. Kannski maður bæti henni á leslistann.
Emil Hannes Valgeirsson, 5.8.2009 kl. 11:04
Áhugaverður pistill. Ég keyrði einmitt yfir Skeiðarárbrú fyrir stuttu síðan og fannst mér það frekar undarlegt að áin var horfin, sérstaklega þegar hugsað er til þess að Skeiðará var mikill farartálmi fyrir ferðafólk áður en brúin var tekin í notkun.
Sveinn Atli Gunnarsson, 5.8.2009 kl. 23:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.