Vatnatilgátan um uppruna mannsins

Á dögunum fengum við fréttir af því að fundist höfðu í Eþíópíu steingerð bein af 4,4 milljón ára frummanni sem gekk uppréttur og gæti því verið einn af forfeðrum nútímamannsins. Þetta eru ein allra elstu steingerðu bein frummanns sem fundist hafa, um milljón árum eldri en hin fræga Lucy-beinagrind sem fannst árið 1974 sem þýðir að hér er komið langt aftur að þeim tíma þegar forfeður mannsins skildu við okkar nánustu ættingja, simpansa og górillur sem á að hafa gerst fyrir um 5-8 milljón árum.
Þegar ég heyri af svona beinafundum verður mér hugsað til „hinnar kenningarinnar“ um uppruna mannsins sem er minna viðurkennd og er eiginlega bara nefnd sem tilgáta. Þetta er hin svokallaða vatnatilgáta um uppruna mannsins (the aquatic ape hypothesis) sem gengur út á að forfeður okkar hafi upphaflega skilið sig frá öðrum öpum og lifað einhverskonar vatnalífi og öðlast þannig marga þá eiginleika sem einkenna okkur sem dýrategund. Ekki er þó verið að tala um að frummaðurinn hafi þróast í að vera beinlínis sjávar eða vatnadýr, heldur hafi líf í vatni verið stór þáttur í tilverunni, jafnvel um milljóna ára skeið.

vatnaapi

Mynd úr bók Davids Attenborough: The Life of Mammals

Hin viðurkennda kenning um uppruna mannsins gerir ráð fyrir því að vegna minnkandi skóglendis í Afríku hafi forfeður okkar neyðst til að taka upp gresjulifnað og fljótlega tekið upp á því að ganga á tveimur fótum sem er að mörgu leyti hentugt. Hinsvegar er með vatnatilgátunni tekið með í reikninginn að votlendi eða jafnvel innhaf gæti hafa myndast í Afar-svæðinu í Eþíópíu, þar sem áðurnefnd Lucy fannst ásamt hinum nýfundna frummanni, en sjávarborð í heiminum var fyrir um 7 milljón árum hærra en það er í dag. Það eru þó aðallega hin ýmsu líkamlegu einkenni nútímamannsins sem urðu til þess að hugmyndir um vatnaapann komu fram á sjónarsviðið á síðustu öld.

Þau atriði sem helst eru nefnd til stuðning vatnatilgátunni eru þessi:

  1. Uppréttur gangur, sem vel getur hafa þróast þegar vaðað er í vatni.
  2. Hárleysi að mestu, nema á höfði
  3. Meira fitulag undir húð en á öpum. Þetta á ekki síst við um smábörn.
  4. Nef og nasir manna eru til þess fallin að hindra innstreymi vatns.
  5. Stærri heili getur hafa myndast vegna aukinnar neyslu sjávarfangs. (Fiskát gerir okkur gáfuð)
  6. Við höfum góða stjórn á öndun og getum auðveldlega kafað í vatni.
  7. Ungabörn geta synt í vatni og jafnvel fæðst í vatni.
  8. Vísir af sundfitum eru á milli fingranna, en ekki á þeim öpum sem eru okkur skyldastir.
  9. Sviti og sölt tár. Svona saltlosun er sjaldgæf meðal dýra sem lifa alfarið á landi.
  10. Talmál gæti hafa þróast sem samskiptamál í vatni þegar sem höfuðið stendur eitt uppúr.

VatnabarnFleiri atriði hafa verið týnd til, þessari kenningu til stuðnings. Ekkert þessara atriða sannar þó beinlínis vatnatilgátuna og mörg atriðin hafa verið skýrð með öðrum hætti en með vatnalífi. Það sem helst vantar uppá til að ljá kenningunni brautargengi eru þó steingervingar frá réttum stöðum og á réttum aldri. Týndi hlekkurinn milli tvífætts manns og fjórfætts apa er ennþá ófundinn, en eftir því sem eldri steingerð bein af tvífættum frumönnum finnast, því hraðar hlýtur sú þróun hafa orðið á sínum tíma. Ég ætla mér sjálfur ekki mikið að fullyrða hversu mikið er til í þessari vatnatilgátu, en hún er alltaf jafn forvitnileg og allavega nógu óvenjuleg til að skýra tilkomu þessa óvenjulega furðudýrs sem maðurinn er.

Árið 1960 birtist grein um þessa kenningu eftir sjávarlíffræðinginn Sir Alister Hardy í New Scientist sem vakti nokkra athygli án þess að hljóta almennilegan hljómgrunn meðal vísindamanna. Í frægri bók eftir Desmond Morris, Nakti apinn, var svo þessi hugmynd um vatnaapann tekin upp auk þess hefur Sir Richard Attenborough einnig gefið þessari tilgátu tækifæri. Aðaltalsmaður tilgátunnar í gegnum tíðina hefur verið rithöfundurinn Elaine Morgan en hún hefur gefið út allnokkrar bækur um efnið. Vatnatilgátan virðast þó enn í dag vera hálfgerð utanveltutilgáta sem vísindasamfélagið tekur hæfilega alvarlega.

- - - -
Helstu heimildir:
http://en.wikipedia.org/wiki/Aquatic_ape_hypothesis
http://www.primitivism.com/aquatic-ape.htm


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar

Skemmtileg tilgáta, hef rekist á hana einhverstaðar áður.  Spurning um hvort það verði einhvern tíman hægt að fá úr þessu skorið.

Arnar, 12.10.2009 kl. 11:00

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hef lesið um þessa tilgátu (gott ef Örnólfur Thorlasíus skrifaði ekki um þetta í Náttúrufræðingnum fyrir allmörgum árum)- áhugaverð og skemmtileg tilgáta.

Höskuldur Búi Jónsson, 14.10.2009 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband