Snjódýpt á hálendinu - línurit

Setur kortSkammt suður af Hofsjökli, lengst upp á hálendi í 693 metra hæð, er fjallaskáli í eigu jeppaklúbbsins 4x4 sem nefnist Setur. Þó ég hafi ekki komið þangað sjálfur þá heimsæki ég staðinn reglulega í gegnum heimasíðu Veðurstofunnar, til þess eins að taka stöðuna á snjódýptinni sem mæld er þarna með sjálfvirkum hætti ásamt öðrum veðurþáttum. En til að fullnægja skráningarþörf minni til hins ýtrasta hef ég fært upplýsingarnar um snjódýptina hálfsmánaðarlega inn á þetta línurit sem ég hef komið mér upp og sést það hér að neðan:

Snjódýpt - SETUR

Á þeim vetrum sem ég hef fylgst með snjódýptinni þarna uppi á Setri hefur þróunin verið með nokkuð svipuðu sniði þótt snjóþyngslin hafi verið mismikil eftir árum. Snjórinn nær sér á strik fyrir alvöru um og eftir miðjan október og nær hámarki um miðjan apríl, en þegar komið er fram í maí á hann sér ekki viðreisnar von og er horfinn um miðjan júní. Ég hef ekki skráð það sérstaklega hvenær snjórinn hverfur í júní en öll þessi ár hefur hann verið horfinn fyrri hluta mánaðarins, nema árið 2005 þegar hann hvarf örfáum dögum síðar. Eins og sést þá voru tveir síðustu vetur nokkuð snjóþungir miðað við hina fyrri en það endurspeglar ágætlega þessa vetur almennt á landinu. Reyndar vantaði upplýsingar fyrri part vetrar í fyrra þar sem upplýsingar bárust ekki af einhverjum ástæðum.

Í þessu samhengi sést vel hvernig veturinn sem nú er hafinn, ætlar að fara allt öðru vísi af stað en hinir fyrri. Strax í byrjun október var kominn talsverður snjór þarna upp á hálendi enda varð landið nánast alhvítt þarna á fyrstu dögunum í október. Síðan þá hefur veturinn varla náð sér á strik og það sem af er nóvember hefur verið auð jörð á Setri og virðist ekki ætla að verða mikil breyting á næstu daga, hvað þá að það snjói hér á láglendi suðvestanlands.

Eins og sést á þessari snemmkomnu snjókomu núna í október er erfitt að spá í framhaldið út frá ástandinu hverju sinni. Það verður því bara að ráðast hvernig veturinn á eftir að verða.

Setur

Slóðin á sjálfvirkar athuganir á Setri er hér á eldri vef Veðurstofunnar: http://andvari.vedur.is/athuganir/sjalfvirkar/setur/ 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er fróðlegt að bera þessar dýptartölur saman við reynslu mína af tveimur stöðum á norðurhálendinu, Herðubreiðarlindum og Sauðárflugvelli á Brúaröræfum.

Síðustu vetur hefur verið snjólétt á þessum stöðum, einkum í Herðubreiðarlindum þar sem hefur orðið snjólaust af og til í hlákum og varð alautt snemma í maí í vor.

Skammt fyrir innan Herðubreiðarlindir er Krepputunga en þar mun vera minnsta úrkoma á Íslandi.

Snjólaust hefur orðið á Sauðárflugvelli í maílok öll þessi ár og klaki og aurbleyta hafa verið farin úr honum um 10 júní undanfarin vor.

Ómar Ragnarsson, 12.11.2009 kl. 00:49

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Það er óhætt að segja að þér tekst að gera ýmsa veðurfarstengda skráningu spennandi. Takk fyrir það  

Höskuldur Búi Jónsson, 12.11.2009 kl. 09:39

3 identicon

Myndavélin fyrir snjódyptina var biluð og skiptum við um hana í lok janúar, þegar við héldum þorrablót Suðurnesjadeildar. Þetta er annars mjög fróðlegt línurit. Gaman að sjá þennan samanburð.

Heiðar (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 17:06

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það passar snjódýptarmælingin hrökk einmitt í gang í lok janúar í fyrra - þökk sé Þorrablótinu!

Emil Hannes Valgeirsson, 12.11.2009 kl. 17:24

5 identicon

Veðurfarið stemmir við undarfara eldsumbrota. Þegar eitt klikkar,  klikkar allt.  Samt ekki fyrr en á næsta ári.

Úlfur Ísberg #564 (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 20:52

6 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Hér má sjá mynd af skálanum:

http://www.photo.is/pan/pages/SeturTrooperar_6.html

Kjartan Pétur Sigurðsson, 12.11.2009 kl. 23:27

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk Kjartan, ég bætti inn myndinni frá þér.

Emil Hannes Valgeirsson, 13.11.2009 kl. 09:40

8 identicon

Hér er svo loftmynd af Setrinu.  Veðurstöðin sést ekki, hún er aðeins "sunnan" við myndina...

[img]http://www.f4x4.is/g2/main.php?g2_view=core.DownloadItem&g2_itemId=249739&g2_serialNumber=1[/img]

Eiríkur (IP-tala skráð) 18.11.2009 kl. 22:59

9 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Emil Hannes Valgeirsson, 19.11.2009 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband