16.11.2009 | 00:17
Íslenskt mál - heimsyfirráð eða dauði!
Nú er íslenskudagurinn og þá skal spáð í íslenskuna. Spáðu í mig, söng Megas á sínum tíma eins og frægt er og fyrir löngu orðið klassískt. Hversu sjálfsagt er það annars að syngja á íslensku? Hefði þessi söngur orðið eins sígildur ef hann hefði verið fluttur á ensku Think of me, then I will think of you? Hvað með Braggablús Magnúsar Eiríkssonar (Barrack blues) eða Stál og hníf Bubba Mortheins, (Steele and knive)?
Vinsælasta lagið á Rás2 um þessar mundir heitir Stay by You og er flutt af íslenskri hljómsveit sem heitir Hjaltalín. Þetta er svo sem ágætislag með ágætishljómsveit. Nafnið Hjaltalín minnir á þá tíma þegar fínar fjölskyldur tóku upp ættarnöfn til að hljóma meira international. Stay by you er líka mjög international nafn á lagi, þykir kannski ekki eins lummulegt eins og Stattu með þér upp á íslensku. Ansi er ég þó hræddur um að þetta lag muni fljótt gleymast og jafnvel hljómsveitin sjálf eins og hún leggur sig. Reyndar er lag Páls Óskars, Þú komst við hjartað í mér langvinsælasta lagið sem hljómsveitin Hjaltalín hefur flutt og það lag þeirra sem líklegast er til að lifa inn í framtíðina. Íslensk dægurlög sem flutt eru á ensku eiga nefnilega það til að gleymast fljótt og vel. Hver man til dæmis eftir lögunum með Change eða Rikshaw?
Það er svo sem ekkert óeðlilegt að hljómsveitir og söngvarar sem starfa aðallega erlendis syngi á einhverri erlensku. En þá eru þeir heldur ekkert að syngja fyrir okkur. Samt er það svo að þekktasta íslenska hljómsveitin erlendis, Sigurrós, hefur alltaf sungið heilmikið á íslensku og virðist það ekkert há þeim og ef eitthvað er þá skapar íslenskan þeim sérstöðu. Í mér syngur vitleysingur er eitt af þeirra nýjustu lögum. Stundum syngja þeir líka á sinni eigin vonlensku sem enginn skilur.
Svo er bara að minnast á Sykurmolana en þau tóku upp slagorðið heimsyfirráð eða dauði sem er auðvitað í góðum íslenskum útrásaranda. Það má alveg minnast á að lögin sem þau upphaflega sigruðu heiminn með voru meira og minna fyrst samin á íslensku. Þar á meðal þeirra allra frægasta lag Afmæli sem hér fylgir á Þú-túpunni. Algerlega magnað lag og texti, og er vel við hæfi núna enda er þetta jú afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar.
Hún á heima í húsinu þarna / Hún á heim fyrir utan / Grabblar í mold með fingrunum / og munninum, hún er fimm ára
Þræðir orma upp á bönd / Hefur köngulær í vasanum / Safnar fluguvængjum í krús / Skrúbbar hrossaflugur / og klemmir þær á snúru
Ahhh...
Hún á einn vin, hann býr á móti / þau hlusta á veðrið / Hann veit hve margar freknur hún er með / Hún klórar í skeggið hans
Hún málar þungar bækur / og límir þær saman / Þau sáu stóran krumma / Hann seig niður himininn / Hún snerti hann!
Ahhh...
Í dag er afmæli / þau sjúga vindla / Hann ber blómakeðju / og hann saumar fugl / í nærbuxurnar hennar
Ahhh...
Þau sjúga vindla... / Þau liggja í baðkarinu... / Í dag er afmælisdagur ...
Tam, tam, tam-a-tam-a-tam...
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkur: Tónlist | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.