Veðrið í Reykjavík 2009

Þessa fyrstu bloggfærslu mína á árinu ætla ég að tileinka veðrinu í Reykjavík á liðnu ári og skoða hvernig veðurgæðum hefur verið háttað fyrir hvern mánuð. Fyrir þá sem ekki vita, þá skrái ég mjög samviskusamlega veðrið fyrir hvern dag í Reykjavík og gef hverjum degi einkunn út frá veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, vindi og hita. Hver dagur getur fengið einkunn á bilinu 0-8 og út frá því reikna ég meðaleinkunn hvers mánaðar sem gjarnan er á bilinu 4 til rúmlega 5. Mánuðir sem fá lægri einkunn en 4 teljast vera slæmir veðurmánuðir en allt fyrir ofan 5 er mjög vel sloppið.

Myndin hér að neðan sýnir veðurfarslega einkunn fyrir hvern mánuð í Reykjavík árið 2009. Til viðmiðunar eru gráu súlurnar sem sýna meðaleinkunn viðkomandi mánaðar öll þau ár sem ég hef skráð veðrið.

Veðurgæði 2009

Veðrið í Reykjavík á árinu var gott í heildina. Júlímánuður sker sig þó úr enda fékk hann hæstu einkunn sem ég hef gefið nokkrum mánuði í þau 23 ár sem ég hef staðið í þessum skráningum. Sumarmánuðirnir júní-ágúst fengu einnig samanlagt bestu einkunn sem ég hef gefið þeim mánuðum, auk þess sem nóvember sló öðrum nóvembermánuðum við í veðurgæðum. Ekki nóg með það því árið í heild dúxaði og fékk einkunnina 4,79 og sló þar með út árið 2006 sem besta árið – samkvæmt þessu einkunnarkerfi. Enginn mánuður telst vera slæmur. September og október fengu lökustu einkunnirnar og kannski heldur verri einkunn en þeir eiga skilið en í þessum mánuðum voru nokkuð slæmir veðurkaflar sem drógu meðaleinkunnina niður.

Hér á eftir kemur veðuryfirlit fyrir eintaka mánuði. Einkunnargjöfin er í sviga:

Janúar (4,5): Hlýtt í upphafi mánaðar en síðan breytilegt hitafar. Snjór var á jörðu seinni hlutann en aldrei mikill. Loftþrýstingur var mjög lágur þrátt fyrir mikinn þrýsting í fólki þarna á dögum búsáhaldarbyltingarinnar.
Febrúar (4,5): Kuldakast í upphafi mánaðar og bjart veður með hvítri jörð. Síðan hlýtt og blautt um miðjan mánuð. Kaldasti dagur vetrarins var 4. febrúar þegar var um 8 stiga frost, en þann 16. var kominn 8 stiga hiti.
Mars (4,8): Gott og bjart veður framan af og snjór á jörðu. Mjög hlýtt um tíma um miðjan mánuð en kólnaði aftur undir lokin með björtu veðri.
Apríl (4,7): Yfirleitt hlýtt í mánuðinum. Bjart og gott um Páskana (12. og 13.) og vikuna þar á undan. Gott veður á kosningadaginn þann 25. en rigningasamt og hvasst vikuna þar á undan.
Maí (4,9): Mjög breytilegt veður fyrri hlutann og hvasst með köflum. Upp úr miðjum mánuðinum gerði mikla sumarblíðu með mjög björtu og hlýju veðri. Skúrasamt undir lokin.
Júní (5,1): Nokkuð gott veður allan mánuðinn þó að hitinn hafi ekki þótt hár. Hlýnaði þó mikið undir lokin í þungskýjuðu hægviðri.
Júlí (5,8): Eindæma góður veðurmánuður í borginni. Mjög sólríkt og þurrasti júlí frá 1889. Hlýtt yfirleitt nema í kuldakastinu sem gekk yfir landið dagana 23.-25. Hitinn komst annars tvisvar í 21 stig.
Ágúst (5,2): Yfirleitt allgott sumarveður. Kærkomnar rigningar öðru hvoru en annars oftast bjart og hlýtt.
September: (4,2): Lengst af frekar milt. Hægviðri framan af en síðan úrkomusamt og hvasst. Það haustaði skart með hvössum útsynningi með slydduéljum þann 26. og snjóaði í fjöll. Sólin lét lítið sjá sig í mánuðinum.
Október (4,1): Mjög kalt framan af og fyrsti snjórinn í borginni féll þann 5. en stóð stutt. Óveður með austan stormi og rigningu gerði þann 9. Eftir það var hlýtt, breytilegt og sólarlítið veður.
Nóvember (5,1): Þægilegar austanáttir ríkjandi. Lengst af vel hlýtt þar til alveg í lokin þegar tók að frysta.
Desember (4,9): Mjög tvískiptur mánuður með hlýindum fyrri hlutann. Rigningar dagana 9.-12. Köld en björt norðanátt dagana fyrir jól en síðar hægari. Snjór á jörðu allra fyrstu og síðustu dagana.

- - - - -

Fyrir veðursama er hér meira um veðurskráningar mínar og sitthvað sem ég hef skrifað um veðrið á árinu:

Veðurskráning fyrir janúar

Útsynningur

Hversu gott var góðviðrið í júlí?

Gæðamat á sumarveðrum 1987-2009, súlurit

Einnig er sjálfsagt að vísa í veðuryfirlit fyrir landið í heild á vef Veðurstofunnar (hér) og á bloggsíðu Einars Sveinbjörnssonar (hér).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Afbrag að fá þetta. Ég varð reyndar fyrir vonbrigðum með kuldakastið í júlí því allt stefndi í methlýjan júlí og það hefði hann orðið ef hitinn í kuldakastinu hefði skrimt í meðallagi.

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.1.2010 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband